NL-1408-02-11277

ÓÞÆGILEGT: Að vera í rangri stærð er ekki aðeins óeðlilegt útlitslega séð, heldur getur röng brjóstahaldarastærð valdið miklum óþægindum og jafnvel sársauka. Það þýðir að stórum hluta af kvenþjóðinni líður illa í undirfötunum sínum, daglega.

Meira en önnur hver kona er í rangri brjóstahaldarastærð:

Að minnsta kosti önnur hver kona er í rangri brjóstahaldarastærð. Fjöldamargar rannsóknir hafa verið gerðar á hvaða stærð konur telja sig þurfa og hver sé þeirra raunverulega brjóstahaldarastærð. Nú síðast lagði undirfatamerkið Triumph spurningakönnun fyrir um tíu þúsund konur og reyndust 64% þeirra vera í rangri brjóstahaldarastærð – það er meira en önnur hver kona.

 

Ertu í réttri stærð?

Án þess að láta mikið á sér bera eru brjóstahaldarar partur af daglegu lífi flestra kvenna í heiminum. Konur eru rúmlega helmingur af mannkyninu og gengur stór hluti af þeim í brjóstahaldara. Það eru því yfirgnæfandi líkur á að þú sért í brjóstahaldara þegar þú lest þessa grein. Ert þú í réttri stærð? Ertu viss?

Hver er ástæðan fyrir því að meira en helmingur kvenna er í rangri brjóstahaldarastærð? Að vera í rangri stærð er ekki aðeins óeðlilegt útlitslega séð, heldur getur röng brjóstahaldarastærð valdið miklum óþægindum og jafnvel sársauka. Það þýðir að stórum hluta af kvenþjóðinni líður illa í undirfötunum sínum, daglega. Vandamálið virðist við fyrstu sýn lítils háttar og jafnvel einfeldningslegt: Af hverju ekki bara að láta mæla sig og fá rétta stærð? Það er vissulega lausn, en vandamálið er stærra en svo – það er flóknara, félagslegra og fer í margar áttir.

 

Snoopy-nærfötin

Konur líta á brjóstahaldara sem nauðsynjavöru, sem þeir eru, en sjaldnast sem mikilvægan hluta af stílnum. Meira að segja hinar mestu tískudrósir viðurkenna margar hverjar að á meðan þær velja flíkurnar sínar af kostgæfni fá undirfötin að mæta afgangi – þekktur fatahönnuður og stílisti viðurkenndi að ganga enn þá í Snoopy-nærfötum úr H&M. Það má því segja að konur hunsi næstum því undirfötin sín og gefi þeim lítinn gaum.

Undirfatamenning á Íslandi er gömul en á undanförnum árum hefur hægst heldur á þróun hennar.  Lífstykkjabúðin hefur verið starfrækt frá árinu 1916 en síðan þá hafa undirfatavenjur íslenskra kvenna breyst mikið. Í seinni tíð er lítið um lífstykkjabindingar í versluninni en þar eru brjóstahaldarar teknir alvarlega og unnið er að alúð við að láta konum líða vel í undirfötum og í eigin skinni.

“Þegar konur labba inn í verslunina má oft heyra þær tala niðrandi um sjálfar sig: “Eigiði brjóstahaldara á svona kellingu eins og mig?“” segir Þrúður Guðmundsdóttir, verslunarkona í Lífstykkjabúðinni. “Ég veit hvaða stærð ég er, ég þarf ekki að máta“ má einnig oft heyra þegar konur kaupa undirföt.”

 

,,Ég er feitust – ljótust – ónýt“

Þær Þrúður Guðmundsdóttir og Sólveig Pálsdóttir hafa báðar starfað í Lífstykkjabúðinni í um þrjú ár. Daglega aðstoða þær konur við að finna sér rétta stærð af brjóstahaldara sem gerir það að verkum að þeim líður vel. ,,Það er svo gaman þegar konur fara héðan út með brjóstahaldara í poka og eru ánægðar með sig,“ segir Þrúður en starf þeirra gengur að miklu leyti út á að veita andlegan stuðning. ,,Við erum ekki að dæma neinn sem kemur hingað inn,“ segir Þrúður. Stundum þurfa þær jafnvel að stoppa konur af þegar þær byrja að tönglast á eigin útlitsgöllum. ,,Maður talar bara ekki svona um sjálfan sig,“ bætir Sólveig við. Þær minnast þess þegar  fullorðin kona, á níræðisaldri, stóð í versluninni og kvartaði hástöfum yfir því að vera með fitukeppi á bakinu: ,,Ég vil bara ekki vera með áhyggjur af svoleiðis þegar ég verð níræð!“ segir Þrúður. Þær eru sammála um að á hverjum degi þurfi þær að stappa stálinu í konur sem koma inn í verslunina. Konurnar séu margar hverjar með mjög lítið sjálfstraust.

 

Brjóst eru ekki bara brjóst

Þarfir kvennanna eru mismunandi og aðstoða starfsmenn verslunarinnar alla þá sem koma inn við að velja undirföt. Kona sem er með stór brjóst þarf aðra aðstoð en stúlka á fermingaraldri sem er að fá sinn fyrsta brjóstahaldara. Margar þeirra upplifa mikinn kvíða við að koma inn í fyrsta skipti. Þær eru annaðhvort með lítil brjóst eða svo stór að það veldur þeim óþægindum. Líkaminn er kannski tilbúinn að verða kona en þroskinn fylgir ekki alltaf með. Ef minningarnar um fyrstu brjóstahaldarakaupin eru slæmar þá kemur það kannski ekki á óvart að konur tengi óþægilegar tilfinningar við undirfatakaup. Það má því segja að margar konur sé haldnar áfallastreituröskun byggða á misheppnuðum brjóstahaldarakaupum.  Flestar konur telja skálastærðina sína vera B til C og velja sér svo alltof rúmt ummál. Brjóst eru eins misjöfn og konur eru margar og því ekki gefið að eitt form og hvað þá ein stærð henti öllum konum. Brjóst eru misstór, mislaga, sitja mishátt eða lágt, sum eru þétt og önnur eru vatnskennd. Mittis – og axlastærð, ástand, aldur og smekkur spila svo stórt hlutverk í hvernig brjóstahaldara konum líður best í. Raunar mætti segja að hönnun brjóstahaldara ætti heima innan verkfræðinnar með það markmið að hámarka útlit og þægindi ásamt samvinnu við eðlisfræði og loks lögmál þyngdaraflsins.

 

Óöryggi rótin að vandanum

Ef vandamálið mætti leysa einfaldlega með snjallri hönnun þá væri lausnin í höfn og tilveruréttur þessarar greinar ekki mikill. Hvað veldur því þá að svo margar konur er enn í rangri stærð og líður óþægilega í undirfötum sínum hvern einasta dag? Líkt og með svo margt annað einkennilegt er þetta vandamál að stærstum hluta í huganum. Það er léleg sjálfsmynd sem er rótin að vandanum. Konur eru óöruggar þegar þær kaupa sér undirföt, neikvæðar í eigin garð og finnst brjóstahaldarakaup vera kvöð en ekki ánægjuleg upplifun.

Oftar en ekki eiga konur í ástar-haturssambandi við brjóstin sín. Margar myndu vilja stærri eða þrýstnari brjóst, aðrar vilja minni og nettari. Þau eiga að vera svona og hinsegin, snúa í þessa átt en ekki hina. Brjóst geta valdið vandræðum, usla, áhyggjum, bakvandamálum og svona mætti lengi telja. Konur bera þau framan á sér, þau eru matarkista ungbarna og hugðarefni margra karlmanna. Brjóst eru svo margt, þau gegna ólíkum hlutverkum og tilgangur þeirra fer allt frá því að vera lífsnauðsynleg í að vera einfaldlega fyrir. Ofan á það bætast brjóstahaldarar sem passa illa. Óörygginu fylgja því óþægindi, skömm og niðurrif.

 

Kát er vel klædd kona

Að vera í fallegum undirfötum sem láta manni líða vel og í brjóstahaldara sem passar getur gert gæfumuninn. Þrúður bendir á að ef konur taka sér örfáar mínútur á morgnana til að taka fram og njóta þess að klæða sig í falleg undirföt þá líði þeim betur með sjálfar sig. Það sé ákveðin öryggistilfinning að vera í fallegum undirfötum og þannig sé auðveldara að fara út og takast á við verkefni dagsins. Þó að það sé bara til að líða betur, losna undan óþægilegum brjóstahaldara sem skerst inn í hliðarnar eða alltof grunnar skálar, þá sé mikill munur á að vera bara í réttri stærð. Eitt sinn var það viss athöfn hjá konum að klæða sig í undirföt. Lífstykkjabinding, sokkabönd og annað slíkt tók sinn tíma en nú í dag er ferlið eilítið styttra og einfaldara, jafnvel gert á hlaupum.

Brjóst og brjóstahaldarar eru partur af því að vera kona og fyrst við eyðum tíma og ótíma í útlitið ættu nærfötin okkar ekki að mæta afgangi. Undirfötin liggja manni næst, þau umlykja hjartað og móðurlífið sem eru mikilvægustu líffærin sem gera okkur að konum, þar sem töfrarnir gerast.

Related Posts