Snaraði mér inn í bakaríið í Garðabæ fyrir allar aldir eins og svo oft áður en ég mæti til vinnu. Þar baka menn bestu kjallarabollur í heimi, smyrja með skinku og osti og selja á 310 krónur. Ég var í toppformi, hafði stokkið syngjandi fram úr rúminu með einkunnarorð dagsins á vörum: Hello Life! Nýr dagur, nýir sigrar! Kóngablár Benzinn malaði fyrir utan, ég með glettnisorð á vör og blik í auga. Ómótstæðilegur.

Bakarísstelpan gantaðist á móti, renndi kjallarabollunni í poka og var við að slá upphæðina í kassann þegar reiðarslagið kom:

„Eru með elliafslátt?“

Himinninn hrundi og heimurinn með. Nú reið á að vera snöggur til svara:

„Hvað þýðir það?“

„Þá færðu sjö prósent afslátt.“

Reyndi að brosa en brosið var stíft. Heyrðist malið í Benzinum fyrir utan breytast í urg. Hugsunin orðin hokin og ég orðlaus þangað til ég stundi upp framan í skælbrosandi bakarísstelpuna:

„Auðvitað er ég með elliafslátt. Hvað kostar bollan þá?“

„292 krónur, takk.“

Hafði grætt 23 krónur og yfirgaf bakaríið með litla pokann sem í lá fyrsti ósigur minn gagnvart aldrinum sem engum hlífir og sækir alla heim er áfram líður endalaust sá óskiljanlegi tími.

Látum vera að ljúga til um aldur á æskuskeiði til að komast inn á skemmtistaði í óstjórnlegt djamm. En að ljúga til um aldur til að fá afslátt á kjallarabollu í Garðabæ er botninn. Ætla að fara aftur og leiðrétta þetta við bakarísstelpuna með glettnisorð á vör og blik í auga og við ellina segi ég: Kom þú, þá þú vilt.

eir’kur j—nsson

En ekki alveg strax. Það gerir lífið skemmtilegra eins og Séð og Heyrt í hverri viku og allan sólarhringinn á Netinu.

Eiríkur Jónsson

Related Posts