Flestir fara þá leið í lífinu að velja sér starf og mennta sig síðan með hliðsjón af því. Síðan kemur þetta fólk út á vinnumarkaðinn fullt eldmóðs og hugsjóna tilbúið að takast á við ögrandi störf. Raunveruleikinn lagar sig hins vegar sjaldnast að kenningum og oft þreytast manneskjur á eilífum málamiðlunum og smátt og smátt verður vinnan gleðisnauð kvöð.

 

Þegar þannig er komið fyrir mönnum getur verið stutt í að þeir brenni út í starfi. Allir geta upplifað þetta ástand en það er algengast meðal þeirra sem starfa við að þjónusta fólk. Flestir þeir sem kjósa slíkan starfsvettvang hafa löngun til að hafa áhrif til hins betra en oft tekst ekki að þoka málum áfram. Stundum er um að kenna skorti á úrræðum, peningum eða vilja þeirra sem verið er að þjónusta til að nýta sér það sem þó er í boði.

En það þarf ekki til. Á mörgum vinnustöðum er mikið álag og oft þyrfti mun fleira starfsfólk til að sinna þeim verkefnum sem fyrir liggja. Þreyttar manneskjur reyna að gera sitt besta en undir slíkum kringumstæðum eru gerð fleiri mistök og stutt er í reiði og pirring. Einum kann að finnast vinnufélaginn laginn að koma sér undan verkum og sleppa þess vegna betur en hann sjálfur. Öðrum finnst sá ekki nægilega vandvirkur, rimpa hlutnum af og svo þurfi aðrir að laga til eftir hann.Togstreita skapast þar með milli vinnufélaganna og í stað þess að taka höndum saman og nýta styrkleika hvors annars fara menn að rífast og nöldra.

Þetta er ein leið til að brenna út í starfi. Vaxandi samskiptaörðugleikar, eilíf þreyta og pirringur út í þau starfsskilyrði sem manni eru búin draga menn niður þar til á endanum þeir gefast upp. Ef þú finnur fyrir einhverjum af þessum einkennum eða kannast við lýsingarnar hér að ofan gæti verið gott að staldra aðeins við og spyrja sig: Myndi ég bjóða undirmönnum mínum upp á þetta ef ég væri yfirmaður? Væri ég tilbúin til að gera slíkar kröfur til fjölskyldu minnar, vina eða nágranna? Ef svarið er nei er kominn tími til að þú skoðir ástandið á vinnustað þínum og hvernig vinnu þinni er hagað.

Maður nokkur sem hafði lent í öngstræti vegna vinnuálags orðaði þetta þannig: „Ef fólk vill forðast að brenna út ætti það að hætta að hegða sér eins og veröldin sé í björtu báli.“  Þótt vinnuveitandinn dembi stöðugt á þig fleiri verkefnum ert það þú ein/n sem getur sagt hingað og ekki lengra. Dugnaður er mikils metinn í íslensku þjóðfélagi og það viðhorf enn ríkjandi að fólki eigi helst aldrei að falla verk úr hendi. Í fríum er best að ferðast, taka á móti gestum, vinna í garðinum, fara í útreiðartúra, göngur, golf eða sund. Bara eitthvað svo lengi sem þú ert að gera eitthvað. Það gleymist alveg að manneskjan þarfnast líka kyrrðar og hvíldar. Okkur er stöðugt gefið til kynna að við séum ekki nóg, að við gerum ekki nóg. Streitan er mikil og kröfurnar endalausar. Konur eiga að stjórna fyrirtækjum, reka heimili, vera góðar mæður og fullkomnar eiginkonur. Karlmenn þurfa í minna mæli að rísa undir kröfum um að standa sig fullkomlega í einkalífinu en þeir eru ekki síður undir mikilli pressu í vinnunni.

Að brenna út hefur verið líkt við faraldur á Vesturlöndum og streitutengdir sjúkdómar verða sífellt algengari. Helsta ástæða þess að fólk leitar til læknis er þreyta. Það kvartar undan eilífu orkuleysi, þreytu, kvíða og erfiðleikum með svefn. Því vantar einfaldlega hvíld. Það verður æ algengara að fólk brotni niður og gefist upp undan kröfunum. En því miður er ekki eingöngu hægt að ávísa hvíld eða góðum nætursvefni og málið er leyst. Þegar streituboltinn er tekinn að rúlla er hann fljótur að vinda upp á sig. Hver og einn verður að vinda ofan af sínum og velta fyrir sér hvort hann sé virkilega að lifa lífinu eins og hann kysi helst sjálfur og þá er gott að skoða eftirfarandi áskoranir og athuga hvort þær henti þínum lífsstíl.

 

Áskoranir

Skoðaðu heiðarlega og af fullri hreinskilni hvert þú ert komin/n. Ertu að brenna út? Ertu komin/n að þolmörkum þínum? Veltu fyrir þér viðvörunarmerkjum eins og mikilli og viðvarandi þreytu, skapsveiflum, pirringi út í aðra og óþolinmæði gagnvart þeim sem þér þykir vænt um. Ef þér finnst aðrir ávallt valda þér vonbrigðum er það öruggt merki um að eitthvað er að hjá þér.

Vertu óhrædd/ur við að setja mörk. Þú þarft ekki alltaf að segja já, þegar einhver biður þig að passa, skutla sér í bæinn eða ná í eitthvað sem vantar. Þú hefur rétt á að segja nei og ef þú þorir að prófa muntu sjá að allir þeir sem hingað til hafa treyst á þig geta auðveldlega leyst hlutina öðruvísi. Ef ekki er það ekki þitt vandamál.

Hikaðu ekki við að taka tíma frá bara fyrir þig. Stundaskráin er þéttskrifuð hjá flestum og eitt helsta umkvörtunarefni margra er að þeir hafi aldrei tíma til að gera það sem þeim finnst skemmtilegast. Skrifaðu í dagbókina stefnumót við sjálfa/n þig og mættu á það. Hálftími á dag eða klukkutími er allt og sumt sem þarf til endurnæra þig andlega og líkamlega.

 

Related Posts