Simon Le Bon, söngvaSimon forsíðari Birmingham-hljómsveitarinnar Duran Duran, ætlaði sér að verða leikari þegar hann var yngri og var í leiklistarnámi þegar hann var ráðinn söngvari sveitarinnar. Duran Duran varð fljótt vinsæl og líf hans breyttist að eilífu.

Simon er fæddur 27. október árið 1958. Hann byrjaði snemma að syngja og söng í kirkjukór, líkt og margir ungir breskir drengir gera, þegar hann var sjö ára að aldri. Þrátt fyrir mikla sönggleði var draumur hans samt að verða leikari. Eftir menntaskóla fór hann til Ísrael og vann hann í sjálfboðavinnu í „kibbutz“, eða á samyrkjubúi. Hann sneri aftur heim til að fara í Háskólann í Birmingham og nema leiklist.

Simon2

Simon með konu sinni, Yasmin.

Árið 1980 benti fyrrverandi kærasta hans honum á að Duran Duran væri að leita sér að söngvara og að hann ætti að sækja um. Áheyrnarprufurnar fóru fram á klúbbnum Rum Runner, þar sem hún vann og hljómsveitin notaði til æfinga. Sagan segir að Simon hafi gert mikla lukku þegar hann kom í áheyrnarprufuna, einkum vegna klæðaburðar. Hann á að hafa komið í bleikum buxum með hlébarðamynstri. Undir hendinni hélt hann á þykkri skruddu sem geymdi öll hans ljóð. Seinna meir voru mörg þeirra notuð sem textar við lög á fyrstu plötum Duran Duran.
Um þetta leyti var Simon trúlofaður Claire Stansfield en meðan hann var enn með henni fór hann á biðilsbuxurnar og gekk á eftir fyrirsætunni Yasmin Parvaneh. Hann hafði séð andlit hennar á forsíðu tímarita og gat ekki hætt að hugsa um hana. Hann hafði samband við fyrirsætuskrifstofu hennar til að komast í samband við hana en á sama tíma voru slúðurtímarit heimsins að velta vöngum yfir mögulegum brúðkaupsdegi hans og Claire. Ári seinna, eða þann 27. desember 1985, giftu Simon og Yasmin sig og hún tók upp ættarnafn hans. Þrátt fyrir að hann hafi verið í sambandi þegar hann kom auga á Yasmin, virðist hann hafa valið rétt því þau eru enn hamingjusamlega gift.

Simon segir að ástríða þeirra hjóna hafi ekkert dvínað öll árin í hjónabandi. Hann segist vakna á hverjum morgni og horfa á hana sofandi: „Í um það bil tíu mínútur horfi ég á konu mína sofa. Hún er svo friðsæl. Ég er afskaplega heppinn að hafa fundið einhverja eins frábæra og hana. Hún er rosalega skemmtileg, stórkostleg og falleg og við erum alltaf hlæjandi. Þetta er auðvitað ekki allt dans á rósum en ég vil vera giftur henni að eilífu.“ Hann bætti við að honum fyndist fólk gefast upp allt of fljótt á samböndum og að það væru mistök. Hjónaband þarfnast mikillar vinnu og að fólk ætti ekki að gefast upp við fyrsta mótlæti. Þeirra fyrsta var þegar þau reyndu barneignir en þær reyndust ekki auðveldar í byrjun og Yasmin missti fóstur tvisvar í röð áður en þau eignuðust þrjár dætur, sú elsta er tuttugu og fimm ára og sú yngsta tuttugu ára.

Glæstur tónlistarferill
Duran Duran með Simon í fararbroddi sigraði poppheiminn á níunda áratugnum. Þeir gáfu út fjórar plötur á stuttum tíma og fylgdu þeim eftir með tónleikaferð um heiminn, eins voru þeir þekktir fyrir að vera ein fyrsta hljómsveitin til að gera tónlistarmyndband við hverja einustu smáskífu. MTV-tónlistarstöðin var tiltölulega nýbyrjuð þegar þeir slógu í gegn og hjálpaði það mikið til að auka vinsældir þeirra. Stúlkur féllu í yfirlið við það eitt að þeir litu á þær. Þeir voru allir stimplaðir kyntröll en Simon hefur haft orð á því að það sé ekki auðveldur stimpill að hafa og hvað þá nú. Hann var mikið gagnrýndur fyrir sveiflur í líkamsþyngd á níunda áratugnum og hafði það áhrif á sjálfstraustið. „Að vera í hljómsveit þýðir að maður verður alltaf að líta vel út. Það er erfitt að vera gamall og feitur í þessum bransa og því þarf að hugsa vel um útlitið. Að vera kyntröll er fínt þegar maður er ungur en þegar maður eldist getur það bitið mann í rassinn. Í dag notum við rakakrem eins og enginn sé morgundagurinn,“ sagði hann einhverju sinni.

Simon3

Simon í Arcadia.

Frægðinni fylgdi mikið djamm og djús og mikið var fjallað um það þegar bassaleikari hljómsveitarinnar fór í meðferð vegna kókaínfíknar. Þrátt fyrir að honum hafi ekki tekist að halda vanda sínum utan fjölmiðla hefur Simon sjálfur játað að hafa notað eiturlyf og drukkið mikið en tekist að halda því leyndu. Eins sagði hann tónlistarmenn núorðið oft virðast stæra sig af eiturlyfjaneyslu sinni en það hefur yfirleitt aldrei góð áhrif á ferilinn. Tónlistin hafi verið þeirra líf og hún númer eitt en sukkið númer tvö, hins vegar virðist þetta vera í öfugri röð hjá tónlistarmönnum núna og það sé ekki vænlegt til vinnings.
Um 1984 voru Simon og aðrir meðlimir hljómsveitarinnar orðnir þreyttir á því sem þeir voru að gera og tóku sér pásu. En þeir gáfu sér samt tíma til að taka þátt í Band Aid, góðgerðastarfsemi Bob Geldofs, og einnig gáfu þeir út titillag Bond-myndarinnar A View to a Kill. Simon og hljómborðsleikarinn Nick Rhodes og trommarinn Roger Taylor stofnuðu hljómsveitina Arcadia og gáfu út eina plötu árið 1985 sem er sannfeðrað afsprengi áratugarins.

Þegar Duran Duran kom saman aftur 1986, var gítarleikarinn Andy Taylor hættur og vinsældir hljómsveitarinnar tóku að dvína. Þeir urðu óvænt vinsælir aftur þegar lagið Ordinary World kom út árið 1993 en eftir það var leiðin niður á við og undir lok aldarinnar voru einungis Simon og Nick Rhodes eftir af upprunalegum meðlimum hljómsveitarinnar.
Rétt eftir aldamótin komu þó allir fimm upprunalegu meðlimirnir saman aftur og gáfu út plötu árið 2004. Sú plata varð mjög vinsæl og þeir fóru í tónleikaferðir um allan heim. Síðan þá hefur lítið farið fyrir þeim og gítarleikarinn Andy aftur hættur. Simon hefur ekki gert mikið einn síns liðs en hefur þó gefið út og tekið þátt í einstaka verkefni utan hljómsveitarinnar. Þar á meðal með Mark Ronson sem var upptökustjóri á síðustu plötu þeirra, All You Need is Now.

Áhugasamur um siglingar
Á meðan á pásu hljómsveitarinnar stóð á níunda áratugnum tók Simon þátt í seglbátakeppninni Fastnet Race. Hann sigldi bátnum Drum sem hann átti með vini sínum. Meðan á keppninni stóð lagðist báturinn á hliðina og voru Simon og aðrir sem á bátnum voru fastir undir honum í tæpan klukkutíma áður en þeim var bjargað. Þrátt fyrir slysið ákvað hann að taka þátt í annarri keppni sama ár, þar sem hann endaði í þriðja sæti. Eftir keppnina seldu þeir bátinn og var gerð kvikmynd um bátinn og keppnirnar árið 1989.
Tuttugu árum eftir slysið ákvað Simon að taka þátt í Fastnet Race-keppninni á ný og fékk Drum lánaðan frá núverandi eiganda. Sú keppni endaði heldur ekki vel þar sem vindinn lægði svo mikið að hann varð að hætta svo hann myndi ekki missa af sínu eigin tónleikaferðalagi.

Related Posts