Danshöfundurinn Sigríður Soffía Níelsdóttir (31) nýtur lífsins:

Síðastliðin ár hefur danshöfundurinn og dansarinn Sigga Soffía, eins og hún vill  láta kalla sig, fært okkur stór verk á borð við flugeldasýningarnar á Menningarnótt og opnunarsviðsverk Listahátíðar, Svartar fjaðrir í Þjóðleikhúsinu. Nýjasta dansverk hennar, FUBAR, var frumsýnt á dögunum og hefur vakið mikla athygli. En Sigga Soffía útskrifaðist með BA-gráðu í samtímadansi frá Listaháskóla Íslands en var í skiptinámi í Sirkuskólanum ESAC í Brussel og hefur verið áberandi í íslenski menningarlífi undanfarin ár.

Sigga Soffía

LISTRÆNT: Andlit FUBAR, nýjasta dansverkið hennar Siggu Soffíu.

 

Tjáning FUBAR er dansverk unnið í samvinnu við Jónas Sen tónlistarmann sem er með frumsamda tónlist í verkinu og Helga Má Kristinssyni myndlistarmann og búningar eru hannaðir af tískuhönnuðinum Hildi Yeoman.

„Við erum búin að vinna í þessu verki síðustu sex mánuðina. Það er blanda af allskyns dansi, söng og smá sögustund,“ segir Sigga Soffía, eins og hún er jafnan kölluð, og hvetur okkur til að fara í Gamla bíó, jafnvel til að sjá dansverk í fyrsta sinn.

„Alls verða sýningar sex í Gamla bíói í Reykjavík. Svo verður haldið út á land en sýningar verða í Frystiklefanum Rifi, Sláturhúsinu Egilstöðum, á Patreksfirði og Edinborgarhúsinu á Ísafirði svo eitthvað sé nefnt. Mig langaði að gera aðeins meira úr þessu kvöldi og fá fleiri listamenn til liðs við mig svo á hverju kvöldi verður listamannaspjall og lifandi jazz. Það verður boðið upp á spjall leitt af listamönnum frá mismunandi greinum við listræna aðstandendur sýningarinnar inni á sviðinu svo fólk getur fengið sér drykk, hlustað á jazz eða hlustað á umræður um list á sviðinu,“ segir Sigga Soffía spennt og full tilhlökkunar. Þessi kraftmikli listamaður hefur þarna skapað verk til að miðla persónulegum upplifunum og tilfinningum úr sínu persónulega lífi og sem dansari í magnað sólóverk.

Sigga Soffía

MAGNAÐ: Einstök fegurð blasti við í verkinu Himinninn kristallast og hér dansar Sigga Soffía af innlifun.

 

Flugeldum skotið upp í takt við tónlistina

Sigga Soffía er í draumastarfinu og hún er höfundur nokkurra verka sem þegar hafa verið sýnd. Flugeldasýningin Töfrar árið 2014 er sú sem er henni minnistæðust.

„Þá var ég með strengjasveit sem spilaði Cantus in memoriam of Benjamin Britten undir stjórn Harðar Áskelssonar. Þar spilaði strengjasveit og flugeldum var skotið upp í takt við klukknaslag í tónlistinni. Þar að auki hringdu 32 kirkjur um allt land kirkjuklukkum í takt við verkið sem var spilað á Arnarhóli. Það var algjörlega dásamleg upplifun að heyra í öllum bjöllunum. Þetta lag eftir Arvo Pärt sem er eistneskt tónskáld er í miklu uppáhaldi svo að sjá þetta allt fara saman, flugeldana og þessa guðdómlegu tónlist, var algjör gæsahúð fyrir mig. Þetta var samt á sama tíma algjörlega erfiðasta samhæfingarmál sem ég hef upplifað á dansferlinum. Það var hins vegar frábært að sjá þetta allt ganga upp,“ segir Sigga Soffía stolt. Einnig stóð Sigga Soffía fyrir verkinu Svartar fjaðrir.

„Svartar fjaðrir eru í uppáhaldi, það var fyrsta stóra framleiðslan sem ég vann, með æðislegum leikhóp. Það var ekkert smávegis skemmtilegt að mæta í vinnuna og vera frá níu til fimm með þessum frábæra hóp.“

Sigga Soffía

FEGURÐ: Sigga Soffía bregður sér í hin ýmsu tjáningarform.

Á erlendri grundu

Sigga hefur ekki einungis starfað hér á landi heldur einnig erlendis. „Ég túraði með dansflokknum Shalala, flokki Ernu Ómarsdóttur, frá 2009 til 2012, mest í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki og Spáni. Ég söng í óperu í Frakklandi, Red Waters eftir Barða Jóhannsson og Keren Ann. Einnig dansaði ég í verkinu H, AN INCIDENT eftir belgíska leikstjórann Kris Verdonk, síðan samdi ég verk fyrir pólskan dansflokk sem var sýnt í Bytom, Varsjá, Reykjavík og á fleiri stöðum.“

Sigga Soffía

FÁGUN: Sigga Soffía með eina af dúfunum sem kom fram í verkinu Shulem. Það var sýnt í Hallgrímskirkju árið 2013 en 15 dúfur tóku þátt í verkinu sem var hið glæsilegasta.

Fjölskyldan og vinnan aðaláhugamálið

Sigga og dansinn fara saman eins og flís við rass en hún er fjölskyldukona og líður vel í faðmi fjölskyldunnar.

„Fjölskyldan og vinnan eru mín áhugamál og ég reyni eftir bestu getu að samtvinna fjölskyldulífið og vinnuna. Ég reyni mikið að finna jafnvægi á þessu tvennu, það gengur reyndar misvel. Ég fæ samviskubit ef ég er dugleg í vinnunni og ver ekki nægum tíma með dóttur minni, og ef ég er mikið með dóttur minni er ég stressuð yfir því hvað ég vanræki vinnuna. En þetta er allt að þokast í rétta átt eftir að hún byrjaði á leikskóla,“ segir Sigga Soffía en hún og maðurinn hennar, Marinó Thorlacius ljósmyndari, eiga saman dótturina Ísold Freyju Thorlacius og stjúpdóttir Siggu Soffíu er Emma Thorlacius sem Marinó átti fyrir.

Sigga Soffía

SAMLEIKUR: Stelpurnar í verki Ernu Ómarsdóttur. „Teach us to outgrow our madness.“

Hefðbundinn vinnudagur hjá Siggu Sofíu:

  • 07.00 Dóttir mín, 2 ára, vekur okkur foreldrana með gífurlegri gleði og æsingi. Borðum morgunmat og komum henni í leikskólann.
  • 08.00 Fer niður á dansverkstæði þar sem ég leigi stúdíó, drekk 3 bolla af sterku kaffi. Set á einhverja góða tónlist og hita upp. Dansa til klukkan eitt.
  • 13.00 Borða hádegismat á Borðinu, fæ mér guðdómlegan kanilsnúð hjá þeim eða hindberjakökuna.
  • 14.00 Fer aftur niður á dansverkstæði, dansa til 15.45.
  • 16.00 Sækja á leikskóla, reyni að klára að senda nokkur e-mail (sem gengur aldrei þar sem litla vill leika og er ekki til í að deila athyglinni með tölvunni).
  • 19.00 Maðurinn minn kemur við í búðinni og kaupir eitthvað næs til að elda eða núna á álagstímum er take-away á Borðinu ansi vinsælt.
  • 21.00 Ég sofna oft óvart þegar ég er að svæfa dóttur mína svo minn dagur er bara búinn snemma þessa dagana.

 

 

Sigga Soffía

ÓAÐFINNANLEG: Sigga Soffía er magnaður listamaður og vekur athygli í hvert skipti sem hún kemur fram.

Sigga Soffía

VATN: Sigga Soffía í vatni í stuttmyndinni Requiem en myndina tók maður hennar, Marinó Thorlacius.

Sigga Soffía

GLÆSILEIKI: Úr verkinu Shulem í Hallgrímskirkju með túlkun og innlifun dúfnanna.

ÿØÿá nExif

DULÚÐ: Glæsilegur listamaður hún Sigga Soffía sem nær að koma upplifun sinni á framfæri gegnum dans og hreyfingar.

Séð og Heyrt dansar.

Related Posts