Anna Björk Eðvarðsdóttir (58) er kraftaverkakona:

Anna Björk fékk annað tækifæri í lífinu, henni var skyndilega kippt út úr tilverunni og var vart hugað líf. Hún fékk bráðaheilahimnubólgu. Eiginmaður hennar, Guðjón Magnússon arkitekt, veiktist einnig. Þau hjónin vita hve lífið er dýrmætt og kunna sannarlega að njóta þess. Sýn hennar á lífið og forgangsröðun er gjörbreytt.

ENDURFÆÐING  „Fyrir liðlega fimmtán árum endurfæddist ég á Borgarspítalanum. Ég heyrði mann kalla á mig mjög ákveðinni röddu, sem kom úr fjarska, að ég yrði að fara að vakna. Það væru þrjár litlar stúlkur sem þyrftu að fara að fá mömmu sína til baka. Ég opnaði augun og sá eins og í rörsýn ókunnugan mann standa við fótagaflinn á rúminu sem ég lá í. Ég sá að þetta var læknir og hann átti röddina sem var að tala svona ákveðið við mig. Smátt og smátt á næstu dögum fór mynd af því, hvers vegna ég var á gjörgæslunni að púslast saman,“ segir Anna Björk alvarleg á svipinn.

38. tbl. 2016, Anna Björk Eðvarðsdóttir, heilablæðing, lífsgleði, SH1610124410

GRIÐASTAÐURINN: Vinnuaðstaða hennar Önnu Bjarkar þar sem hún nýtur þess að vinna efnivið sinn, ljósmyndirnar og þar sem hún heldur úti matarblogginu.

Var ekki hugað líf
Anna Björk hafði fengið bráða heilahimnubólgu og var með punktabæðingar um allan líkamann og öll lífsmörk að hverfa. Líffærin voru flest að hætta að starfa, súrefnisgjöfin komin í 85% og farið að undirbúa Guðjón, eiginmann hennar, að hún myndi ekki hafa það af. „Þegar uppgötvaðist hvað var að mér, var heimilið sett í sóttkví í sólarhring og öllum gefið pensilín. Það skelfilega í þessu var að Guðjón var líka með sama sjúkdóm en ekki punktablæðingar. Vinstri fóturinn á honum var svo bólginn að hann var eins og bryggjustólpi. Það var ekki fyrr en á þriðja degi, þegar hann sat yfir mér, að læknarnir fóru að spá í hvað væri að hjá honum,“ segir Anna Björk en Guðjón var síðan sendur niður á bráðamóttöku þar sem kom í ljós að hann var líka með heilahimnubólgu. Hann neitaði að láta leggja sig inn, vildi ekki þurfa að leggja það á stelpurnar en læknarnir sögðu honum að þá ætti hann á hættu að missa fótinn. „Hann var lagður inn í tólf daga og var á massívum lyfjakúr í æð og fór á milli hæða í hjólastól til að sitja yfir mér eins og hann gat. Fjölskyldan var okkur stoð og stytta í öllum þessum hremmingum, það er ómetanlegt að eiga góða að. En, á meðan hann var svona veikur sjálfur, barðist hann fyrir mig og var öflugur málsvari minn við læknana og hjúkrunarfólkið. Því þó svo við eigum góða og færa lækna og hjúkrunarfólk, þarf sá veiki að hafa einhvern sem talar hans máli og passar upp á að allt hugsanlegt sé gert. Á það reyndi svo sannarlega hjá mér. Hann þurfti að beita sér verulega fyrir mína hönd, án hans væri ég sjálfsagt ekki hér í dag. Engu að síður reyndust þeir sem komu að bata mínum alveg frábærlega, yndislegt fólk sem var flest nærgætið og hvetjandi, frábært fólk sem á allan heiður skilið og þakklæti. Ég trúi líka á mátt bænarinnar og er sannfærð um að allir bænahóparnir sem báðu fyrir mér og okkur fjölskyldunni gerðu ómetanlegt gagn til að koma okkur í gegnum þessa erfiðu tíma.“

38. tbl. 2016, Anna Björk Eðvarðsdóttir, heilablæðing, lífsgleði, SH1610124410

MATARÁSTIN: Anna Björk unnir sér afar vel í eldhúsinu og elskar að framreiða ljúffenga rétti sem gleðja bæði augu og bragðlauka.

Hversdagslegir hlutir orðnir hátíðlegir hlutir
,,Það er óhugnanlegt að vakna til veruleika þar sem allt sem þú þekktir og gekkst að sem vísu er breytt, ekkert er eins og það var. Ég man að ég hugsaði um það, þegar ég lá ósjálfbjarga í rúminu á gjörgæslunni, tengd við ótal pípandi mónitora og með slöngur þræddar í mig sem dældu lyfjum og vökva, hvað það væri nú barasta gaman að geta burstað tennurnar sjálf, eða gert hversdagslega hluti, eins og að ryksuga. Ég þurfti að læra allt upp á nýtt, að ganga, standa í fæturna og gera allt þetta hversdagslega sem maður er ekkert spenntur fyrir eða pælir í þegar allt er í standi,“ segir Anna Björk. En hún hét því að vanvirða ekki lífgjöfina og „heppnina“ að vera ekki stórsködduð eftir veikindin, eins og svo margir eru eða komast ekki lifandi frá, og gefa allt sem hún ætti í að komast sem fyrst á fætur og síðan að lifa lífinu lifandi. „Því ósjálfrátt, þegar þú hefur horfst í augu við dauðann og hverfulleika lífsins, breytist viðhorf þitt. Þú veist að ekkert er sjálfsagt og allt sem þú telur „normal“ getur horfið á augabragði. Ég lærði að elska einfaldleikann í lífinu og hversdagsleikann, þegar ekkert er um að vera annað en daglegt amstur. Það veitir mér ótrúlega mikla hamingju, gleði og traust. Hvunndagsmánudagar eru hamingjudagar hjá mér, allt umfram það er eins og ilmandi krydd í lífið, aukabónus.“

Anna Björk Heilakona

ÁSTIN Í LÍFI ÖNNU BJARKAR: Hjónin saman á góðri stundu og þau kunna svo sannarlega að njóta augnabliksins.

Hafði djúpstæð áhrif á dæturnar
Hjá Önnu Björk tók við bataferli sem reyndi á. „Ég gleymi því aldrei þegar ég var bundin föst á bretti í fyrsta sinn til að hjálpa mér við að setjast upp í fyrsta sinn, það var hræðilegt, mig flökraði svo og svimaði. Það þurfti að græða upp sárin sem húðblæðingarnar skildu eftir, mörg djúp og ljót, og svo kom í ljós að heyrnin á öðru eyranu var skert og liðirnir ekki eins og þeir áttu að vera. Svimi, einbeitingarskortur, máttleysi og hræðsla við það hvort ég treysti mér aftur út í lífið, sem eitthvað varð að gera í til að laga,“ segir Anna Björk en eftir mánaðarlegu á sjúkrahúsi tók við endurhæfing á Grensásdeildinni. Að henni lokinni var Anna Björk útskrifuð og hélt heim. „Það tók stöðuga og mikla vinnu í 2 ár að verða eins og mér fannst ég ætti að mér að vera. Allt hafði þetta djúpstæð áhrif á dætur okkar. Það er ekki lítið áfall fyrir barnssálina að standa frammi fyrir því að hugsanlega getir þú misst foreldra þína í einni svipan. En við höfum verið lánssöm að geta unnið okkur í gegnum þetta allt, saman.“

Tilveran fer á hvolf og lífsreynslan breytir sýn manns á lífið
„Vissulega breytir svona lífsreynsla manni, sýn manns á lífið, og tilveran fer á hvolf. Maður skilur það ekki fyrr en maður upplifir það sjálfur hvað til dæmis enduhæfing þýðir í raun. Þetta er mesta hörkuvinna sem ég hef lent í og það þurfa svo margir aðilar að koma að málinu fyrir utan mann sjálfan svo það er eins gott að standa sig. Ég er svo þakklát öllu því fólki sem hvatti mig hlýlega en ákveðið áfram, bæði á Grensás og Landspítalanum. Frábært fólk sem vinnur kraftaverk á hverjum degi. Ég hef náð mér mjög vel eftir veikindin. Mér dettur ekki í hug að spá í það, þó svo heyrnin sé að hluta skert á öðru eyranu, gigt í höndunum og liðirnir geti verið til ama stundum. Það væri vanþakklæti og skiptir engu máli, ég hef lært að lifa fram hjá því og það er ekkert sem ég læt stoppa mig í að lifa lífinu af fullum krafti. Ég þarf að passa upp á að vera ávallt í góðu líkamlegu formi sem ég geri með því að stunda líkamsrækt og lyfta lóðum hjá Hjalta Úrsus í Mosfellsbænum og allskonar útivist. Ef ég slæ slöku við finn ég fyrir því, það er eins og með svo margt annað að það er undir mér sjálfri komið að vera dugleg því þá nýt ég mestu lífsgæðanna. Ég ríð út, sigli á skútu, tek ljósmyndir, spila golf og geri allt sem mér finnst skemmtilegt, ögrandi og gefandi. Ég er ekki viss um að ég mundi gera þetta allt ef ég væri ekki reynslunni ríkari.“

Lifa lífinu lifandi

,,Niðurstaðan eftir þessa reynslu er sú að oft koma bestu gjafirnar í ljótum umbúðum. Það á við um mig. Ég tók við lífgjöfinni með báðum höndum og hef lifað betur, upplifað meira og hugsað betur um mig og mína en ég gerði áður. Ég hef meiri trú á eigin getu og nýt einföldu stundanna í lífinu sem eru fullar af kyrrð og sátt. Að lifa ekki í eftirsjá yfir glötuðum tækifærum, heldur nýta þau og njóta, þegar þau gefast.“
Hestamennska og matarást

Hjónin Anna Björk og Guðjón hafa átt hesta í mörg ár og riðu Guðjón og dæturnar mikið út. „Ég var hins vegar hrædd við hesta og fór aldrei á bak fyrr en eftir veikindin. Ég nefnilega uppgötvaði eftir þessa lífsreynslu að ég er miklu þolnari, kjarkmeiri, duglegri og ákveðnari en mig grunaði. Ég gefst ekki upp, það kenndu veikindin mér. Til dæmsi þá reykti ég en er sem betur fer laus við það í dag. Áhugi fyrir mat hefur fylgt mér lengi. Ég fór að blogga um mat og matargerð af því að það er eitthvað sem mig hafði langað til að gera lengi, áður en ég lagði í að byrja. Það tekur því ekki að að draga lappirnar. Mér finnst matargerð vera skemmtilegt form tjáningar og sköpunar, hvort sem hún er listræn eða huglæg getur hún til dæmis verið ástarjátning.

Anna Björk Heilakona

HESTAHVÍSLARINN: Loksins nýtur Anna Björk þess að þjóta á fáki sínum, Sjóði frá Hamraendum, út í náttúrunni, óhrædd, lífsreynslunni ríkari.

Matarblogg með listrænni tjáningu

Anna Björk byrjaði með matarblogg og er iðin að setja inn myndir og uppskriftir sem laða að. „Upp úr blogginu kviknaði áhugi á ljósmyndun. Ég hef ekki lært neitt formlega en fikta mig áfram. Það hjálpaði mikið að ég hafði farið á nokkur námskeið í málun í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar. Þar lærði ég ýmislegt um liti, form, hlutföll og myndmótun sem var mjög skemmtilegt. En málið er bara að fikta og prófa. Mér finnst gaman að mynda náttúruna í öllum sínum fjölbreytileika. Ég legg fugla í einelti, sit fyrir þeim, eða eltist við skordýr og steina með linsunni,“ segir Anna Björk og skellir upp úr. „Guðjón er að vatnslita, svo þessi áhugamál okkar gefa okkur tilefni til að leggja land undir fót og fara út um allt til að mynda og mála. Við gerum mikið af því að pakka góðu nesti í körfu og fara í svoleiðis túra. Við eigum nokkra uppáhaldsstaði sem við heimsækjum oft, þótt það sé að verða erfiðara að vera í næði úti í náttúrunni vegna ferðamanna. Svo á ég mér eitt sérstakt uppáhaldsmyndefni og það er litli dóttursonurinn. Hann er mér óþrjótandi uppspretta myndefnis. Það er svo sérstakt að upplifa það að vera orðin amma og fá að fylgjast með þroska nýja lífsins sem kom í heiminn. Að vera amma er ást eins og engin önnur.“

Anna Björk Heilakona

LJÓSMYNDARINN: Hin fjölhæfa eiginkona, móðir og amma á bak við linsuna í náttúruskoðun.

Anna Björk Heilakona

FAGURKERINN: Búin að útbúa pikknikk á ströndinni.

Sælla að gefa en þiggja – Barnaspítalinn í hjartastað

Þau hjónin njóta þess að vera til og Anna Björk er ólýsanlega þakklát fyrir að hafa fengið annað tækifæri, aukatíma og að láta hann skipta máli. „Starfið í Hringnum er meðal annars mín leið til að láta allt það góða sem ég naut á leiðinni til heilsu aftur ganga áfram til þeirra sem eiga erfitt. Vinkona mín kynnti mig fyrir Hringsstarfinu á sínum tíma og mér fannst þetta kjörinn vettvangur fyrir mig til að láta eitthvað gott af mér leiða. Það sem mér fannst skipta svo miklu máli er að það er engin yfirbygging eða dýrt skrifstofuhald hjá félaginu. Allur kostnaður við rekstur félagsins er greiddur af félagsgjöldum okkar svo það sem safnast rennur beint til góðra mála. Barnaspítalinn stendur hjarta okkar næst, þó svo við styrkjum marga aðra aðila á hverju ári. Börnin okkar eru jú það dýrmætasta sem við eigum, eru framtíð samfélagsins, svo það er aldrei nóg að gert,“ segir Anna Björk. ,,Hringurinn hefur veitt 64 milljónir í ýmsa styrki það sem af er þessu ári, við erum mjög stoltar af því. Þó svo að það sé unnið allt árið í sumum nefndum þá er núna að byrja annasamasti tími ársins hjá okkur. Undirbúningur fyrir stærstu fjáraflanir ársins, basarinn, söluna á jólakortum, jólakaffið og jólahappdrættið, svo við erum allar að vinna á fullu. Það er svo skemmileg hefð hjá mörgum fjölskyldum að koma ár eftir ár í jólakaffið, skemmtileg byrjun á aðventunni og leyfa krökkunum að kaupa happdrættismiða. Hann er óborganlegur svipurinn á krökkunum þegar við afhendum þeim vinningana. Hringurinn á marga góða að í samfélaginu, einstaklinga og fyrirtæki sem styðja okkur dyggilega og erum við mjög þakklátar fyrir það. Þörfin er stöðug því það þarf alltaf að endurnýja tæki og tól, eða kaupa ný. Læknar og allt starfsfólk Barnaspítalans er mjög metnaðarfullt fyrir hönd skjólstæðinga sinna og vilja að þeir njóti þess allra besta og nýjasta sem er í boði á hverjum tíma og að sem allra best fari um þá og aðstandendur þeirra þegar þeir þurfa að nota þjónustu Barnaspítalans. Allt kostar það mikð fé og er Hringurinn stærsti og dyggasti stuðningsaðilinn.“

38. tbl. 2016, Anna Björk Eðvarðsdóttir, heilablæðing, lífsgleði, SH1610124410

HEIMILIÐ ÞAR SEM HJARTAÐ SLÆR: Anna Björk nýtur þess að nostra við heimilið og fjölskylduna, hún kann að njóta hverdagsleikans og veit að hann er ekki sjálfsagður hlutur.

38. tbl. 2016, Anna Björk Eðvarðsdóttir, heilablæðing, lífsgleði, SH1610124410

HAMINGJUSÖM OG GEISLANDI: Anna Björk geislar af hamingju og er þakklát fyrir lífið í dag.

Séð og Heyrt – viðtöl við einstaklinga sem hafa reynt margt.

Related Posts