Hrönn Sigurðardóttir (38) er ein sú allra hraustasta:

Hrönn Sigurðardóttir er margfaldur meistari í vaxtarrækt og Ólympíu-fitness. Hún er ein af allra hraustustu konum landsins, tveggja barna móðir, hefur tekið þátt og unnið til verðlauna á mótum erlendis og endaði meðal annars í þriðja sæti á stærsta fitness-móti heims, Arnold Classic.

Fitness

ÓTRÚLEGA HRAUST: Það fer ekki fram hjá nokkrum manni að Hrönn er í dúndurformi enda er vinnan á bak við þennan líkama mikil.

Sterk „Ég byrjaði árið 2006 í vaxtarrækt og hef ekki litið til baka síðan,“ segir Hrönn sem er margfaldur Íslands- og bikarmeistari.

„Heiðrún systir mín byrjaði í fitness löngu á undan mér, hún er líka margfaldur meistari. Ég aðstoðaði hana  á sínum tíma og svo byrjaði ég sjálf að æfa 2005. Ég hafði aldrei lyft lóði áður en einhvern veginn liggur þetta voðalega vel fyrir okkur systrum. Þetta er bara okkar sport, við ástundum heilbrigðan lífstil og æfum mikið.“

Íslendingar standa sig vel

Eins og í svo mörgu öðru standa Íslendingar sig vel í fitness og vaxtarrækt. Hrönn segir þó erfitt að bera saman erlenda og íslenska keppendur.

„Í mars á þessu ári tók ég þátt í stærsta fitness-móti heims, Arnold Classic, og þar fara 330.000 manns í gegn. Þetta er algjör íþróttaveisla og þar náði ég þriðja sæti í mínum flokki sem er auðvitað algjörlega frábært.

Það er erfitt að bera saman Íslendinga og erlenda keppendur. Við erum aðeins öðruvísi keppendur, það er eins og erlendu keppendurnir gangi aðeins lengra. Við Íslendingar stöndum okkur samt mjög vel,“ segir Hrönn en hún keppir í vaxtarrækt sem er töluvert frábrugðin fitness.

„Vaxtarræktin snýst meira um að vera massaðari og skornari. Við keppum ekki á hælum og þetta er aðeins hrárra. Það eru öðruvísi og fleiri pósur. Vaxtarrækt var miklu stærri en búið er að minnka flokkinn aðeins og hann heitir nú Ólympíu-fitness. Í gamla daga var farið eftir þyngd en nú er farið eftir hæð.“

GÓÐ SAMAN: Hrönn og þjálfarinn hennar, Konráð Valur, vinna vel saman.

GÓÐ SAMAN: Hrönn og þjálfarinn hennar, Konráð Valur, vinna vel saman.

Ekki með vöðvafíkn

Mörgum sem horfa á vaxtarræktarfólk finnst vöðvadýrkunin vera komin upp úr öllu valdi. Fyrir Hrönn er þetta lífsstíll og vöðvafíknin er ekki til staðar. Hún líti öðruvísi út á sviði en í daglegu lífi þar sem brúnkukrem og ákveðnar pósur ýkja hlutina mjög.

„Ég er alls ekki þannig að ég vilji stöðugt stækka, ég er meira að leitast eftir samræmi. Maður þarf ekki endilega að vera sem stærstur í vaxtarrækt heldur er samræmið mikilvægast. Þetta er ekki einhver vöðvadýrkun hjá mér heldur snýst um að vera kvenleg og samsvara mér vel,“ segir Hrönn.

„Þegar maður er á sviði að pósa lítur maður kannski svolítið hræðilega út. Þessar pósur sem við gerum eru hannaðar til að fá vöðvana til að njóta sín sem mest. Ég er bara mjög venjuleg kona þegar ég er í bol. Ég hef alveg séð mynd af sjálfri mér að pósa og hugsað bara vó!“ segir Hrönn og hlær.

„Þetta er lífstíll. Það hefur verið mikið um neikvæða umfjöllun í kringum fitness því fólk fer stundum í þetta á röngum forsendum. Ég borða hollt allt árið og þetta er bara heilbrigður lífstíll. Ég fæ hins vegar eingöngu jákvæða gagnrýni, það drullar enginn yfir mig. Ég er með marga fylgjendur á Snapchat og fæ bara jákvæð ummæli frá þeim,“ segir Hrönn og fyrir þá sem vilja fylgjast með henni á snappinu er notandanafnið hronnsig.

Missir sig aldrei

Flestir sem stunda vaxtarrækt og fitness eiga sinn nammidag. Hrönn tekur sína nammidaga en hefur aldrei misst sig, ekki einu sinni yfir jólin.

„Ég hef aldrei misst mig yfir jólin, ég léttist yfirleitt um jólin ef eitthvað er. Mér finnast kökur og ís alveg dásamlega gott og elska nammi. Þetta snýst bara um að borða rétt. Ég hætti ekkert að æfa um jólin, þetta er bara mjög eðlilegt líf. Ég tek góðan nammidag einu sinni í viku og borða fullt af nammi og ruslfæði en svo fer ég aftur í holla fæðið. Hins vegar ef mig langar allt í einu í eitthvað nammi eða ís þá bara fæ ég mér það,“ segir Hrönn sem er hvergi nærri hætt í vaxtarrækt.

„Ég get verið í þessu eins lengi og ég vil. Það keppti ein 56 ára um helgina, þetta er bara spurning um það hversu duglegur maður er.“

FREMST MEÐAL JAFNINGJA: Hrönn sýndi strákunum réttu pósurnar.

FREMST MEÐAL JAFNINGJA: Hrönn sýndi strákunum réttu pósurnar.

Fitness

HÖRKUKROPPAR: Fitness-stelpurnar eru svo sannarlega í hörkuformi.

Fitness

DUGNAÐUR: Stelpurnar hafa eytt ófáum tímum í ræktinni og lóðin sem hafa fengið á baukinn eru mörg.

Séð og Heyrt mætir í ræktina.

Related Posts