Kristín Huld Þorvaldsdóttir (41) verkefnastjóri, Laufey Agnarsdóttir (43) arkitekt og Sesselja Ómarsdóttir (41), lyfjafræðingur og prófessor, æfa allar kraftlyftingar á Nesinu:

Íslandsmót í kraftlyftingum fór fram í HERTZ-höllinni en stöðugt fleiri konur taka þátt í mótum sem þessu. Áhugi á kraftlyftingum virðist vera að aukast og margir spyrja sig af hverju konur velji að æfa kraftlyftingar. Þær Kristín, Laufey og Sesselja tóku allar þátt í mótinu og eru ánægðar með árangurinn.

STERKAR Kraftlyftingar er íþrótt sem hentar öllum, óháð kyni og aldri, og er í sókn í dag. „Við byrjuðum í einkaþjálfun hjá Ingimundi Björgvinssyni í World Class á Seltjarnarnesi þar sem okkur langaði að lyfta lóðum og komast í gott form. Hjá honum kynntumst við klassískum kraftlyftingum og það má segja að áhugi okkar á þeim hafi aukist jafnt og þétt. Við erum farnar að keppa í þessari skemmtilegu íþrótt sem reynir mikið á styrk, tækni og kjark,“ segja þær stöllur Kristín, Sesselja og Laufey. Laufey hefur stundað kraftlyftingar frá árinu 2012 en Kristín og Sesselja hafa æft í tæp tvö ár. „Í þjálfun hjá Ingimundi er fjölmennur hópur af skemmtilegu fólki á öllum aldri og við hlökkum til að mæta á hverja einustu æfingu. Þetta er frábær félagsskapur,“ segja þær allar í kór. En Sesselja æfði sund af miklum móð sem barn og unglingur en Kristín og Laufey hafa stundað almenna líkamsrækt í gegnum tíðina.

æfingar, íþróttir, konur, kraftlyftingar, Séð & Heyrt, sterkar, SH1610065561

FLOTTAR KONUR: Þær eru bæði sterkar og klárar þessar kraftlyftingakonur og kunna svo sannarlega að bregða á leik. Tilbúnar fyrir stöngina.

Betri árangur næst með hollu mataræði

Allar hugsa þær vel um mataræðið í dag og leggja metnað sinn í það. „Til þess að ná betri árangri í íþróttinni er mikilvægt að borða hollan og góðan mat. Auk þess drekkum við æfingadrykkinn Formúlu á meðan á æfingum stendur. Við fylgjum ekki einhverju fyrirfram ákveðnu matarprógrammi en leggjum áherslu á að mataræðið sé sem hreinast,“ segir Kristín og bendir á að þær allar skrái jafnframt niður allt sem þær borða í matardagbókina í MyFitnesspal og þannig geta þær veitt hver annarri stuðning og skammast ef einhver svindlar.

 

Keppnisskapið til staðar

„Við æfum nokkrum sinnum í viku í nokkra tíma í senn með það að markmiði að ná árangri.“ Þær stöllur kepptu allar á Íslandsmótinu í klassískum kraftlyftingum um síðastliðna helgi. Sesselja og Kristín kepptu á sínu fyrsta móti í mars á þessu ári en Laufey býr hins vegar yfir mikilli keppnisreynslu. Hún hefur til að mynda keppt á tveimur heimsmeistaramótum og náði 3. sæti í flokki Master 1 (40-49 ára) í bæði skiptin.

æfingar, íþróttir, konur, kraftlyftingar, Séð & Heyrt, sterkar, SH1610065561

HRESSAR: Gleðin er ávallt í fyrirrúmi hjá þeim Laufeyju, Kristínu og Sesselju. Þær njóta félagsskapar hver annarrar og það er mikil hvatning fyrir þær að vera saman í lyftingunum.

 

Kraftlyftingar viðhalda góðu líkamlegu formi

„Líkamlegur og andlegur ávinningur af styrktarþjálfun, eins og t.d. kraftlyftingum, er mikill. Þjálfunin byggir undir framtíðina og viðheldur góðu líkamlegu formi. Þá dregur hún úr líkum á beinþynningu og vöðvatap,“ segir Kristín galvösk. „Styrkurinn og úthaldið sem maður byggir upp hjálpar til í hinum ýmsu verkefnum sem maður tekur sér fyrir hendur. Það er mikill misskilningur að konur verði of massaðar og karlmannlegar í útliti af því að stunda kraftlyftingar. Það tekur langan tíma að byggja upp vöðvamassa og það þarf að hafa mikið fyrir því að viðhalda honum,“ segir Kristín og brosir.

æfingar, íþróttir, konur, kraftlyftingar, Séð & Heyrt, sterkar, SH1610065561

Breytt forgangsröðun

Allar eru þær sammála um að reglulegar æfingar í kraftlyftingum hafi áhrif á lífsstíl þeirra. „Forgangsröðunin hefur breyst, við erum farnar að borða hollari mat, missum helst ekki úr æfingu og eru æfingarnar þar með markvissari. Það er svo gaman að setja sér markmið, vinna hörðum höndum að því að ná þeim og gleðjast svo þegar vel gengur,“ segja þær og eru glaðar með félagsskapinn í lyftingunum.

Kraftalyftingakonur á Nesinu

SAMHELDNAR: Kristín og Sesselja mættar saman í ræktina, tilbúnar í slaginn.

Séð og Heyrt fer í ræktina.

Related Posts