Ellý Ármanns (44) klagar Mörtu Maríu (38):

Ellý Ármanns, sem hefur verið á fljúgandi siglingu með vef sinn Fréttanetið, er komin upp á kant við Mörtu Maríu, vinkonu sína sem stjórnar Smartlandi á mbl.is. Ellý sakar Mörtu um að hafa endurbirt tvær fréttir af Fréttanetinu á Smartlandi án þess að geta uppruna þeirra.

Fréttirnar eru af sérsviði Mörtu Maríu, fasteignum, og fjalla um sölu Bjarkar Guðmundsdóttur á sumarbústað sínum á Þingvöllum og sölu á húsi Hönnu Birnu Björnsdóttur og Ingólfs Helgasonar við Elliðavatn.

„Hvað get ég sagt Smartland skrifar tvær fréttir af Fréttanetið án þess að geta þess. Bæði sumarbústaður Bjarkar og hús Hönnu Birnu við Elliðavatn. Báðar fréttir með mest lesnu fréttum á mbl en þess ekki getið að þær eru páskafréttir af Fréttanetinu, “ skrifar Ellý á Facebook. „Leiðinlegt þegar stóru miðlarnir taka fréttir frá þeim litlu án þess að geta þeirra. Ég er frekar leið yfir svona vinnubrögðum en hvað get ég svo sum gert annað en að brosa og vanda mig í því sem ég geri.“

Marta María svara að vonum fyrir sig og hafnar því að hún éti upp fréttir frá Ellýju enda með puttann á fasteignapúlsinum og hefur flutt ótal fasteignafréttir á vef sínum og segja má að fasteignamarkaðurinn sé hennar heimavöllur: „Veistu það Ellý mín að Smartland hefur alltaf verið með fréttir af fasteignakaupum og hefur það ekkert með Fréttanetið að gera.“

Ellý og Marta hafa þekkst lengi og verið meðlimir í öflugum kvennaklúbbi ásamt Björku Eiðsdóttur, ritstjóra MAN, Tobbu Marínós, Erlu Hlynsdóttur, á Fréttatímanum, og fleiri fjölmiðlakvenna þannig að ætla má að það verði hasar á næsta hittingi þeirra.

Ellý lét ekki staðar numið þarna og hefur sent Haraldi Johannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, bréf þar sem hún lýsir furðu sinni á vinnubrögðunum og fer fram á að þau verði endurskoðuð.

Related Posts