Vilborg Halldórsdóttir (57) orkubolti á besta aldri:

Vilborg Halldórsdóttir hefur lagt undir sig Iðnó ásamt stórum hópi sviðslistakvenna sem eru allar komnar yfir fimmtugt.Þær hafa staðið fyrir reglulegum uppákomum á mánudögum frá því í haust og hefur uppátækið notið mikilla vinsælda.

Vilborg Halldórsdóttir

LÆTUR EKKERT STOPPA SIG: Vilborg er kraftmikil og kemur hlutunum í verk.

Föngulegar „Við erum listakonur á besta aldri með mikla reynslu og orku til að skapa.

Möguleikar fyrir konur eftir því sem þær verða eldri minnka, karlmenn verða silfurrefir og það þykir mjög smart en við einhverjar silfurskottur sem eiga helst ekki að sjást,“ segir Vilborg og leggur mikla áherslu á mál sitt.

„Þær Hlín Agnarsdóttir og Edda Björgvinsdóttir ýttu verkefninu úr vör og það hefur farið fram úr okkar björtustu vonum. Og það er ekki síst Margréti Rósu, staðarhaldaranum í Iðnó, að þakka. Hún tók okkur opnum örmum og það gerir okkur kleift að vera með þessa dagskrá.“

vilborg

ÞOKKAFULLAR OG FÖNGULEGAR: Þessi glæsilegi hópur tók sig saman og flutti dagskrá um ljóð Steinunnar Sigurðardóttur. Hver annarri fallegri: Vilborg Halldórsdóttir, Þórunn Magnea Magnúsdóttir, Salvör Aradóttir, Þórey Sigþórsdóttir, Rósa Guðný Þórsdóttir, Bryndís Petra Bragadóttir, Guðlaug María Bjarnadóttir, Lilja Þórisdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Arnhildur Valgarðsdóttir og Jóhanna Þórhallsdóttir.

 

Konur sem eldast með stíl
„Það er mikil vakning á meðal listakvenna um allan heim, það hefur hallað á konur í sviðlistum lengi og ekki bara hér á landi heldur víða. Og það sem er svo skemmtilegt við þetta er að við gerum það sem okkur langar mest að gera, við höfum flutt okkar eigin ljóð, vorum með gjörning sem byggðist á ljóðum Steinunnar Sigurðardóttur. Fram undan eru ekki síður skemmtileg verkefni. Við verðum með dagskrá um nöfnu mína Vilborgu Dagbjartsdóttur núna í mars og með vorinu verður dagskrá um Nínu Björk Árnadóttur svo í haust munum við flytja ræður frægra kvenna, hver með sínu nefi. Og við erum ekki með þurran ljóðaupplestur, þetta er skapandi flæði og við lofum mikilli skemmtun.“

Þær hafa slegið í gegn og eru hæstánægðar með viðtökurnar.

„Við gerum það sem við viljum og látum ekki segja okkur hvort við pössum í einhver fyrirfram ákveðinn hlutverk eða ekki. Við höfum velt því fyrir okkur að leika allar einræðurnar sem við höfum. Mig langar til dæmis að leika Ríkharð þriðja, ég er viss um að ég verð flott í því hlutverki.
Þetta eru svo flottar konur í þessum hópi og hafa svo margt fram að færa, þær hafa reynslu sína og formæðra í farteskinu.“

 

Vilborg Halldórsdóttir

GLETTIN OG GEFANDI: Vilborg er mikið náttúrubarn og nálgast allt lifandi af virðingu.

Er bæði forseti og fjallkona

Vilborg starfar sem leiðsögumaður og hefur gert í nokkur ár. Hún flengist með ferðamenn um landið og kynnir sögu þess og menningu bæði á ítölsku og ensku.

„Leiðsögumannahlutverkið er virkilega mikilvægt, ég segi að ég sé bæði fjallkona og forseti í senn. Það er mikið ábyrgðarstarf að kynna landið sitt og verður að gerast með faglegum hætti. Ferðamennirnir vita flestir að náttúran hér er einstök en verða hissa á því hve fjölbreytt menningin er. Ég er ekki feimin við að benda ferðamönnum á að kaupa ekki norsk plaströll sem minjagripi og eru framleidd í Kína, héðan eiga ferðamenn að taka með sér góðar minningar en ekki fullar töskur af fjöldaframleiddu drasli,“ segir Vilborg jafnákveðin og fyrr, kraftmikil kona sem liggur ekki á skoðunum sínum.

Related Posts