Já, lífið getur stundum verið snúið og leikurinn ekki alltaf manni í hag. Það er ekki alltaf hægt að halda hreinu. Stundum dæmir lífið rangstöðu.
Þrátt fyrir frábært lið og keppnisskap þá getur stemningin í klefanum verið döpur og smitast út á völlinn og skyndilega er liðið komið í bullandi fallbaráttu. Sama hversu hátt maður öskrar dómaraskandall þá er rauða spjaldið komið á loft.
Þrátt fyrir góðan vilja til að bjarga á línunni þá lekur boltinn stundum út af og innkastið missir marks. Hvað skal þá gera? Játa sig sigraðan eða senda nýjan leikmann inn á völlinn og jafnvel reka þjálfarann.

01 fors
Lífið er ekki bara leikur, það er hörð keppni þar sem leikið er upp á hvert mark. Það skiptir máli að lesa leikinn rétt og stilla upp í varnarvegg þegar mest liggur við.
Þegar liðið er komið í botnbaráttu þá er jafnvel kominn tími til að skipta um félagslið eða sætta sig við að spila í annarri deild.

En hey – lífið er samt ekki bara tár, bros og takkaskór. Sættum okkur við niðurstöðuna, dveljum ekki á varamannabekknum eða húkum í klefanum. Hendum gallanum í þvott, reimum á okkur nýja skó og örkum út á völlinn og rífum keppnisskapið í gang.

KOMA SVO – tæklum tilveruna með stæl, látum ekki dæma á okkur víti. Leikgleðin skiptir öllu máli og er rétta leiðin til að spila til sigurs. Áfram við.
Gerum lífið skemmtilegra – saman eða sundur – líkt og Séð og Heyrt gerir á hverjum degi.

 

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir
-Spánýtt og sjóðheitt blað kemur í verslanir í fyrramálið_

Related Posts