Sigríður Arnardóttir (50) sjónvarpskona er síung:

Sigríður Arnardóttir fjölmiðlakona er aldrei kölluð annað en Sirrý, hún hefur verið heimilisvinur þjóðarinnar í 30 ár, bæði á skjánum og í útvarpi. Sirrý fagnaði fimmtugsafmælinu sínu síðasta sumar, hún er kraftmikil og fellur sjaldan verk úr hendi. Nýlega fór hún af stað með þáttinn Bankað upp á sem er sýndur á sjónvarpstöðinni Hringbraut.

Bank bank „Þessi hugmynd að banka upp á hjá þekktu fólki og giska á hver býr þar er ekki ný af nálinni. Ég var á sínum tíma með skollaleik í þættinum mínum Fólk með Sirrý og þar sló Árni Pétur leikari í gegn þegar hann var að giska. En nú er ég með heilan þátt sem er virkilega spennandi,“ segir sjónvarpskonan Sirrý sem frumsýndi þátt sinn á Hringbraut fyrir skömmu.

Í þættinum fer Sirrý með leikara í heimsókn sem giskar á hver býr inni á heimilinu. Rithöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir var heimsótt í fyrsta þætti og það var leikarinn Björgvin Frans sem fékk það hlutverk að giska á íbúann og hann sló rækilega í gegn í því hlutverki.

ÿØÿà

BANKAÐ UPP Á: Björgvin Frans leikari, Sirrý og Steingrímur heimsóttu Yrsu Sigurðardóttur rithöfund í fyrsta þættinum.

„Hann var einstaklega skemmtilegur og lifandi og flinkur að giska. Í næsta þætti munum við heimsækja þjóðþekkta manneskju sem er mjög prívat og þá verður það Gunnar Hansson leikari sem tekur að sér að giska á rétta manneskju. Steingrímur Þórðarson myndatökumaður vinnur þættina með mér. Áhorfendur eru forvitnir og ég veit um marga sem sátu í sófanum heima og kepptust við að giska á það hver ætti heima hjá Yrsu. Fólk er forvitið um annað fólk í jákvæðum skilningi, fólk er alltaf að máta sig hvert við annað.“

 

Ekkert breytingaskeið

„Ég er orðin fimmtug og það er enginn aldur í dag. Það er ekki eins og maður sé kominn með annan fótinn ofan í gröfina, mér finnst ég enn vera þrítug. Ég held að fólk skynji sig alltaf eins, sama hvað ártalið segir.“

Umræða um aldur og breytingaskeið kvenna er orðin mun opnari nú en hún var áður en þó örlar enn á fordómum þegar þetta málefni kemur upp.

„Ég fjallaði um breytingaskeiðið í þættinum mínum Fólk með Sirrý og fékk aðeins í magann þegar að ég heyrði um allt það sem getur gengið á. Mér finnst eðlilegt að konur kynni sér hvað gerist í líkamanum á þessu tímabili ævinnar og þekki einkennin. Það neikvæða hins vegar í umræðunni um þetta málefni er að konur fá stundum að heyra leiðinlegar athugasemdir eins og: „Hún hlýtur að vera á breytingaskeiðinu þessi.“ Mér er það til efs að karla fái sams konar athugasemdir. Þeir ganga líka í gegnum breytingar á þessum tímabili ævinnar, það er misjafnt hvað það leggst þungt á fólk og ekkert til að fordæma.“

05. tbl. 2016, Fólk með Sirrý, SH1602042104, Sirrý Arnardóttir

UPPTEKIN: Sirrý er kraftmikil og hefur í ýmsu að snúast og er í óða önn að undirbúa Fólk með Sirrý sem hefst aftur í byrjun mars.

Fólk er frábært
Sirrý hefur í fjölmörg ár verið með þáttinn sinn Fólk með Sirrý en hann er væntanlegur aftur á skjáinn í byrjun mars. Í þættinum ræðir hún allt milli himins og jarðar sem viðkemur lífi venjulegs fólks og það er fjölmargt sem þarf að ræða.

„Mér hefur alltaf þótt fólk forvitnilegt og hef áhuga á að heyra hvernig það kemst í gegnum ýmsa erfiðleika í lífinu. Fólk er svo frábært, ég fæ aldrei leið á að kynnast lífi þess og heyra sögurnar þeirra. Ég hef verið í þessum bransa frá því að ég var tvítug og er hér enn.“

Sirrý hefur komið víða við og unnið á flestum fjölmiðlum landsins, hún er því hafsjór af þekkingu og reynslu. Hún miðlar nú þekkingu sinni í Háskólanum á Bifröst.“ Ég kenni fjölmiðlafærni einu sinni í viku, það er gefandi og skemmtilegt að kenna, ég fæ sjálf svo mikið til baka,“ segir Sirrý sem er rokin til að banka upp á.

sirrý

KOMIÐ VÍÐA: Sirrý hefur áhuga á fólki, bæði heima og heiman. Hér er hún í góðum félagsskap við gerð söfnunarþátts fyrir UNICEF en tökur fórum fram í Naíróbí.

Related Posts