Laufey Lín Jónsdóttir (17), Ari Páll Karlsson (19 ) og Helgi Valur Gunnarsson (19) tóku þátt í Vælinu og komu, sáu og sigruðu:

Vælið, söngvakeppni Verzlunarskóla Íslands, fór nýlega fram í Eldborgarsal Hörpu en keppnin er haldin í nóvember ár hvert. Keppnin er milli nemenda skólans og hlýtur sigurvegari keppninnar þann heiður að taka þátt í söngvakeppni framhaldsskólanna fyrir hönd Verzló. Laufey Lín sigraði keppnina með glæsibrag með laginu At Last sem Etta James gerði frægt. Ari Páll sló einnig í gegn í Vælinu með laginu Piano Man sem Billy Joel gerði frægt á sínum tíma, en atriðið var jafnframt valið vinsælasta atriðið. Í þriðja sæti var Helgi Valur Gunnarsson með lagið Every Breaking Wave eftir U2.

Vælið, Söngvakeppni Verslunarskóla Íslands, Laufey Lin, Ari Páll, Helgi Valur, 47. tbl. 2016, Séð & Heyrt, SH1611287796

HÆFILEIKARÍKIR VERZLINGAR: Ari Páll, Laufey Lín og Helgi Valur eru öflugar fyrirmyndir öðrum til eftirbreytni og slógu í gegn á söngvakeppninni Vælinu.

SIGURVEGARI ,,Það var æðisleg upplifun að standa uppi sem sigurvegari. Það var ekkert smágaman að fá að vera upp á sviði fyrir framan fullan sal og finna fyrir miklum stuðningi skólafélaga. Algjör draumur,“ segir Laufey Lín sem er enn í skýjunum eftir sigurinn. ,,Ég ákvað sjálf að taka þátt í keppninni. Maður heyrði alltaf sögur um stóru söngkeppnina í Verzló sem er haldin í Hörpunni í grunnskóla og var það auðvitað markmið að fá að stíga upp á svið í Vælinu þegar ég fór í Verzló.“

Vælið, Söngvakeppni Verslunarskóla Íslands, Laufey Lin, Ari Páll, Helgi Valur, 47. tbl. 2016, Séð & Heyrt, SH1611287796

FYRSTA SÆTIÐ Á VÆLINU: Sigurvegarinn, Laufey Lín er stolt af árangri sínum.

Tók þátt í Jólastjörnu Björgvins Halldórssonar

Laufey Lín hefur komið víða við og tekið þátt í nokkrum söngvakeppnum og spilað á hljóðfæri þrátt fyrir ungan aldur. ,,Fjölskyldan mín er mikið í tónlist og byrjaði ég ung að koma fram og spila á píanó og selló. Ég hef spilað einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík á selló. Ég byrjaði að syngja þegar ég var tólf ára, þá tók ég þátt í Jólastjörnu Björgvins Halldórssonar. Seinna vann ég Söngkeppni Samfés. Svo hef ég tekið þátt í ýmsum sjónvarpsþáttum. Ég komst í úrslitin í Ísland Got Talent árið 2014 þar sem ég söng og spilaði á píanó og tók ég þátt í The Voice Ísland á síðasta ári og komst í undanúrslit,“ segir Laufey Lín og brosir. Laufey Lín hefur ekki tekið þátt í söngleikjum á vegum skólans enn sem komið er. Hana hefur langað til þess en hefur ekki haft tök á því vegna tímaskorts.

Neyðarlegt augnablik í Ísland Got Talent

,,Þegar ég var í Ísland got Talent þá var ég enn þá með míkrafóninn á mér þegar ég fór af sviðinu og fór að tala um Bubba við systur mína. Það kom í sjónvarpinu en var til allra hamingju saklaust,“ segir Laufey Lín og hlær. Laufey Lín telur að hún sé komin með ágætis reynslu af því að koma fram en segir jafnframt að það megi alltaf bæta sig. Hún vonar að sigurinn í Vælinu gefi henni frekari möguleika á því að ná framabraut í sönglistinni sem og sú reynsla sem hún hefur uppskorið á sviði undanfarin ár. ,,Þetta er svakalega stór og flott keppni og margir hafa komist langt í tónlist eftir að hafa tekið þátt í Vælinu.“

Hæfileikaríkir nemendur í Verzló

Sagt hefur verið að félagslífið í Verzlunarskóla Íslands sé framúrskarandi og þeir sem hafa áhuga á leiklist, söng og dansi geti nýtt hæfileika sína vel í skólanum og Laufey Lín tekur undir það. ,,Það er algjörlega rétt. Hér eru svo margir hæfileikaríkir tónlistarmenn, dansarar og leikarar að stundum líður mér eins og sé í fame-skólanum. Það eru svo mörg tækifæri til að koma fram og sýna list sína í Verzló,“ segir Laufey Lín og stolt af skólanum sínum.

Hefðbundinn skóladagur hjá Laufeyju Lín

,,Skóladagurinn minn byrjar einfaldlega á því að koma í skólann, ganga upp stigann, fara í kennslustundir, skreppa niður í Matbúð og sjá hvað er í gangi á Marmaranum. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast á hverjum degi í nestis- og hádegishléunum. Nefndirnar innan Verzló eru mjög virkar í fá tónlistarmenn til að koma fram og skemmta í skólanum.“ Sjálf hefur Laufey Lín ekki tíma til að sitja í nefndum og ráðum en reynir að vera virkur þátttakandi félagslífinu eins og tíminn leyfir.

Draumastarfið að verða söngkona

,,Helsta áhugamál mitt er tónlist, mér finnst gaman að læra á ný hljóðfæri og semja lög. Ég stefni að því að gefa út nokkur lög í 2017, einnig er ég pínu-söngleikjanörd. Annars hef ég mikinn áhuga á dansi og að lesa. Uppáhaldsfagið mitt í skólanum er saga eins og er. En það getur verið breytilegt. Draumastarfið mitt er að verða söngkona og ég stefni að því að komast erlendis í háskóla, helst langar mig til Bandaríkjana,“ segir Laufey Lín dreymandi á svipinn.

Vælið, Söngvakeppni Verslunarskóla Íslands, Laufey Lin, Ari Páll, Helgi Valur, 47. tbl. 2016, Séð & Heyrt, SH1611287796

ANNAÐ SÆTIÐ Á VÆLINU: Ari Páll er rétt kominn á jörðina eftir keppnina og afar ánægður með sinn hlut.

Ari Páll Karlsson (19) hlaut annað sætið í Vælinu og er virkur nemendi í Verzló:

Ari Páll hreppti annað sæti í Vælinu í ár og var atriðið hans valið það vinsælasta. Hann býr í Mosfellsbæ og á sex hálfsystkini. Hann er á alþjóðabraut í Verzló og er einnig formaður Listafélags Verzló, sem setti upp Breakfast Club í skólanum núna í haust, en sýningin sló hressilega í gegn.

PIANO MAN ,,Það var frábær upplifun að vinna annað sætið í ár og segja mætti að ég sé enn í smáspennufalli,“ segir Ari Páll kampakátur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ari Páll tekur þátt í Vælinu. ,,Ég tók einnig þátt í Vælinu fyrir tveimur árum, þá með lagið Somebody To Love sem Queen samdi. Þegar kom að því að ákveða lag fyrir þetta ár kom eiginlega aðeins Piano Man, lag Billys Joels til greina og vinir mínir hvöttu mig til þess að spila á píanó og munnhörpu með.“

Enginn sviðsskrekkur

Ari Páll hefur leikið og sungið í leikritum og söngleikjum síðan hann var tíu ára gamall og hefur því öðlast töluverða reynslu á sviði. ,,Ég myndi segja að ég hafi gerst svo lánsamur að fá góða reynslu af því að koma fram og skemmta sem og að syngja. Maður öðlast ágætis reynslu af því að koma fram í leikhúsinu og lærir gríðarlega margt við að leika á sviði. Auk þess hef ég æft á píanó síðan ég var fjögurra ára gamall og þar læri maður ýmislegt.“

Karamella laumaðist inn á sviðið í Vesalingunum

Stundum gerast óvæntir atburðir á miðjum sýningum eða neyðarleg augnablik eiga sér stað. Það er engin undantekning hjá Ara Páli. ,,Á sýningu á Vesalingunum fór vinur minn óvart með nokkrar karamellur inn á svið. Í atriði þar sem hann er uppi í um 8 metra háum turni að syngja datt ein karamellan úr vasanum og flaug niður á mitt sviðið og var þar fram að hléi. Þá sagði hann mér að hann hefði laumast inn á svið og borðað hana,“ segir Ari Páll og hlær.

Hefðbundinn skóladagur hjá Ara Páli

,,Venjulegur dagur byrjar oftast með hafragraut á marmaranum sem yndislegu konurnar í matbúð útbúa fyrir okkur nemendur að kostnaðarlausu. Í hádeginu er nánast alltaf eitthvað í gangi, hvort sem það eru atriði frá nemendum, fyrirlestrar eða eitthvað annað skemmtilegt. Eftir skóla verð ég mjög oft lengi eftir í skólanum annaðhvort til þess að læra uppi á bókasafni eða sinna nemendafélagsstörfum.“ En eins og áður hefur komið fram er Ari Páll formaður listafélagsins og í stjórn nemendafélagsins og því hefur hann mörgum hnöppum að hneppa.

Draumurinn að leika og syngja

,,Tónlist og leiklist eru mín helstu áhugamál en ég hef áhuga á mjög mörgu öðru sem yrði sennilega ekki pláss fyrir færi ég að telja það upp. Einnig finnst mér flest bókleg fög skemmtileg og áhugaverð. Ef ég þyrfti að velja eitt yrði það sennilega menningarfræði, saga eða heimspeki,“ segir Ari Páll sposkur á svip. Ari Páll á sér ekkert draumastarf, því það er svo margt sem hann langar til þess að gera í framtíðinni. ,,Draumurinn yrði auðvita að geta unnið við það sem mér finnst skemmtilegasta að gera, leika og syngja. Ég er ekkert búin að ákveða hvert mig langar að stefna í framtíðinni en núna á síðasta árinu í menntaskóla fer maður að fá ýmstar hugmyndir. Misgóðar en margar.“

Vælið, Söngvakeppni Verslunarskóla Íslands, Laufey Lin, Ari Páll, Helgi Valur, 47. tbl. 2016, Séð & Heyrt, SH1611287796

ÞRIÐJA SÆTIÐ Á VÆLINU: Helgi Valur er mjög ánægður með árangurinn og finnst það mikill heiður að ná verðlaunasæti í keppninni.

Helgi Valur Gunnarsson (19) hlaut þriðja sætið í Vælinu og hefur verið virkur í félagslífi Verzló:

Helgi Valur er námsmaður, kærasti, sonur, bróðir en síðast en ekki síst Árbæingur í húð og hár og býr ásamt móður, föður og öðrum bróður sínum í Árbænum. Helgi Valur lenti í þriðja sæti í Vælinu í ár með laginu Every Breaking Wave eftir U2 og kallaði fram gæsahúð áhorfenda.

SVALUR ,,Það er heiður út af fyrir sig að komast inn í Vælið, hvað þá að lenda í sæti í svona stórri keppni þar sem svo margir hæfileikaríkir krakkar tóku þátt. Árið 2013 fór ég á Vælið sem áhorfandi og fannst þetta svakalega spennandi. Allt var svo stórt og mikið, flott show og geggjuð atriði. Ég ákvað þá að taka þátt árið eftir, eða árið 2014. Ég tók þá þátt með laginu ,,If I ain’t got you“ eftir söngkonuna Alicia Keys og það var frábær og jafnvel ólýsanleg upplifun. Í rauninni ákvað ég sjálfur að taka þátt í bæði skiptin og ástæðan fyrir því að ég tók þátt núna er sú að ég ætlaði ekki að láta svona risatækifæri og ómetanlega reynslu vera. Útkoman varð eitt magnaðasta augnblik lífs míns. Ég myndi klárlega mæla með þessu fyrir alla. Ég tók líka þátt í Vælinu árið 2014 en lenti ekki í neinu sæti þá en reynslan var ómetanleg. Einnig hef ég tekið þátt í söngleikjum Nemendamótsnefndar Verzlunarskóla Íslands síðustu þrjú ár og það stefnir í fjórða árið í röð því æfingar eru í fullum gangi fyrir söngleikinn Footloose sem verður frumsýndur í byrjun febrúar 2017.

Mótleikarinn fokkaði upp senu í miðri sýningu

Helgi Valur er búinn að öðlast töluverða reynslu á sviði og vel það. ,,Tækifærin sem Verzló býður upp á eru endalaus og reynslan sem maður öðlast þar verður ekki metin til fjár,“ segir Helgi Valur glaður í bragði. Hann hefur verið iðinn síðastliðin ár í uppfærslum og ýmisleg óvænt atvik hafa komið upp á sviði sem og á æfingum. ,,Það sem stendur upp úr eru tvö sérsök atriði. Það fyrra gerðist nú bara á æfingu en þá var ég að æfa senu fyrir Með allt á hreinu, þar sem ég var að bakka og fara með línur þegar ég steig fram af sviðinu og hrundi út í sal og öll blöðin flugu út um allt. Annað sem kemur upp í hugann er góðvinur minn og fyrrverandi mótleikari, Teitur Gissurarson, en hann hafði sérstakt lag á því að krydda sýningar og breyta atriðum og fara vísvitandi með rangar línur sem maður þurfti þá bara að spinna úr á staðnum án þess að fara út fyrir efnið. Eitt slíkt atriði stendur þó upp úr. Það var þannig að við Teitur mættumst baksviðs rétt áður en við fórum inn á svið og það eina sem hann sagði var: ,,Ég ætla að fokka þessari senu upp.“ Ég stóð eftir baksviðs og hafði ekki hugmynd um hvað honum gekk til og hvað myndi gerast í senunni þar sem við vorum bara tveir á sviðinu að sýna fyrir framan 500 manns. Þegar inn á sviðið var komið fór Teitur ekki með eina línu úr handritinu heldur bjó hann til alveg nýja senu á staðnum. Það eru svona augnablik þar sem skiptir máli að vera á tánum og þrátt fyrir þetta ódæðisverk, verð ég honum þó ævinlega þakklátur fyrir að hafa varað mig við baksviðs.“

Hefðbundinn skóladagur hjá Helga Val

,,Góður dagur byrjar á að ná stæði á Verzlóbílastæðinu. Þá ertu strax kominn langleiðina með árangursríkan dag. Því næst er það að heilsa upp á stelpurnar í Matbúð og fá hjá þeim rjúkandi heitan, nýuppáhelltan kaffibolla. Ef dagurinn byrjar svona þá er ekki fræðilegur möguleiki á að hann klikki. Svo er það bara lærdómurinn sem tekur við, jafnvel ókeypis grautur í korterinu ef þú nærð ekki að borða morgunmat fyrir skóla. Svo er það bara að bíða eftir hádegishléinu til að geta fengið Matbúðarmatinn góða. Ef maður ætlar svo að tríta sig undir lok skóladags þá er það klatti og bolli úr Matbúð, á föstudögum er það jafnvel döðlubiti, þeir eru svindl-góðir. Þetta er alla vega svona mín upplifun á fullkomnum skóladegi. Þetta þarf nefnilega ekki að vera flókið.“

Danskan í uppáhaldi

Helgi Valur hefur verið virkur í félagsstarfi skólans og látið til sín taka. ,,Bæði hef ég setið í nefndum, starfað fyrir þær og með þeim sem utanaðkomandi aðili. Það er nefnilega þannig að maður þarf ekki endilega að vera í nefnd til þess að vera virkur í félagsstarfinu. Langflestar nefndir þrífast á samvinnu og þátttöku annarra nemenda skólans.“

,,Þetta mun hljóma einkennilega í eyrum einhverra en ég hugsa að danskan beri sigur af hólmi í þeirri baráttu. Þó það sé kannski einhver brengluð mynd af dönskufaginu eftir í hausnum á mér þar sem ég kláraði minn síðasta dönskuáfanga fyrir rúmu ári síðan og þýskan tók við. Frekar slæm skipti myndi ég segja og kannski sakna ég dönskunnar vegna þess hversu illa þýskan leggst í mig.

Ætlar að lifa lífinu skemmtilega

Draumastörf Helga Vals eru að verða leikari, tónlistamaður eða kennari. ,,Mjög óhentug draumastörf þar sem þetta eru líklegast þær starfsstéttir sem koma hvað verst út í launasamanburði við aðrar stéttir. En eins og mikill lærifaðir minn sagði mér eitt sinn: ,,Ef þú finnur þér vinnu sem þér finnst skemmtileg, þá þarftu aldrei að vinna aftur.“ Helgi Valur er ekki búinn að ákveða hvað hann langar þegar hann verður stór. ,,En ég ætla að hafa gaman. Það eru hreinar línur.“

Vælið, Söngvakeppni Verslunarskóla Íslands, Laufey Lin, Ari Páll, Helgi Valur, 47. tbl. 2016, Séð & Heyrt, SH1611287796

SVÖL SAMAN: Þau Laufey Lín, Ari Páll og Helgi Valur eru svöl saman og eiga að það öll sameiginlegt að njóta sín á sviði.

Vælið, Söngvakeppni Verslunarskóla Íslands, Laufey Lin, Ari Páll, Helgi Valur, 47. tbl. 2016, Séð & Heyrt, SH1611287796

FRAMTÍÐIN ER BJÖRT: Þrjúeykið eru afar stolt af skólanum sínum og eru sammála um að hæfileikar hvers og eins fái að njóta sín.

Séð og Heyrt elskar Verzlóvæl.

Related Posts