Í gegnum árin hefur sú hefð skapast að fjölskylda mín fer í frí til Spánar, Tenerife eða bara eitthvað þar sem er sól og hiti. Saman fer öll fjölskyldan í viku eða tvær til að pústa aðeins og komast burt frá kuldanum hér á Íslandi. Það er algjörlega nauðsynlegt að komast aðeins í burtu frá öllu áreitinu og spranga um á sundfötunum við sundlaugarbakkann, drekka Corona á ströndinni og synda um í heitum sjónum.

Svona fjölskylduferðir eru oft planaðar langt fram í tímann. Það þarf að huga að því að allir komist með og svo þarf að panta þægilegt hótel. Þetta er hin fullkomna fjölskyldustund.

Í síðustu sjö skipti sem fjölskylda mín hefur farið í frí til sólarlanda hef ég haft það náðugt heima hjá mér. Þessi hefð sem ég talaði um í byrjun, og hefur verið í meira en fimm ár, snýst nefnilega um það að aldrei hef ég farið með.

14de51206eca408919374362065553be

Einni minningu mun ég eflaust aldrei gleyma. Ég var að keyra um og ákvað að hringja í mömmu og spyrja hvað væri í matinn. Ég bý einn þannig að það er fínt að geta stokkið í mat til mömmu endrum og sinnum. Þegar mamma svaraði og ég var búinn að spyrja hvað yrði í matinn fékk ég einfalt svar frá minni elskulegu móður: ,,Í matinn? Við erum uppi í Leifsstöð.” Ég man eftir því að mamma spurði þáverandi eiginmann sinn: ,,Lést þú ekki Garðar vita?” og eftir langa vandræðalega þögn, þar sem ég get best ímyndað mér að fyrrum stjúppabbi minn hafi staðið fyrir framan mömmu með vandræðalegan svip, kom svar frá mömmu: ,,Ég legg inn á þig fyrir mat.”

Páskarnir sem nú voru að líða voru öðruvísi en áður í þeim skilningi að ég var einn um páskana þar sem fjölskylda mín móðurmegin fór öll til Tenerife. Sá sem les þetta gæti hugsað að ég hefði nú kannski getað farið í mat til pabba en ég komst að því á páskasunnudag að pabbi og hans fjölskylda hefðu líka farið til Tenerife. Ég var því aleinn heima.

Ástæðan fyrir því að ég hef aldrei komist með er eflaust sú að ég spila handbolta í efstu deild og því ómögulegt að stökkva í frí á miðju tímabili. Þegar ferðirnar til sólarlanda án mín eru samt orðnar sjö, já þær eru sjö, ég taldi, þá mætti fjölskylda mín fara að huga að því að finna betri tíma en þegar handboltatímabilið er í fullum gangi til að fara í frí.

Á meðan þau slaka á í sólbaði með einn ískaldan Mojito, fá ,,special price for you my friend” díla alveg hægri vinstri þá sit ég heima hjá mér með páskaegg og ég sem borða ekki einu sinni páskaegg.

 

Garðar B. Sigurjónsson 

Related Posts