Töframaðurinn Einar Mikael (28) lærir ný brögð:

 

Þátturinn Töfrahetjurnar hefur göngu sína á föstudaginn og undirbýr sjónhverfingamaðurinn Einar Mikael metnaðarfulla og fjölbreyta sýningu, bæði í sjónvarpi og á sviði.

Hókus pókus í fókus „Þetta er búið að vera mikið ævintýri í sumar, við erum öll ótrúlega stolt af þáttunum,“ segir töframaðurinn kátur og spenntur fyrir viðbrögðum við sínum eigin brögðum. Einar gerðist að auki svo djarfur að kenna ýmsum nýjum dýrum töfrabrögð. „Ég þjálfaði krumma, ref, Amazon-fugla og fleiri tegundir!,“ mælir hann. Upp í hugann kemur strax hrafninn Þór. „Hann er svakalega glysgjarn og þvílíkt gáfaður. Hægt er að kenna honum helling. Hann er að læra að tala núna og strax kominn í tvö orð á stuttum tíma; „hæ“ og „heyrðu“.“ Aðspurður út í önnur dýr sagði hann að ýmis þeirra væru vissulega krefjandi en samt aldrei annað en kostuleg.

Einar Mikael lætur hvorki tímapressu né magahnút trufla sig en á meðan hann undirbýr sjónvarpssjónarspilið er hann á fullu að æfa fyrir „Sýningu aldarinnar“ í Háskólabíói, dagana 23. og 26. október. Þangað mætir hann eldhraustur ásamt aðstoðarkonu sinni, henni Eyrúnu Önnu. Segist hann engu hafa gleymt og lofar að koma áhorfendum á óvart. „Þetta verður magnað,“ segir hann. „Sjónhverfingarnar eru á heimsmælikvarða, þar á meðal þekktasta sjónhverfing fyrr og síðar þar sem kona er söguð í sundur og meira að segja fær einn heppinn áhorfandi úr sal að fljúga í lausu lofti. Hingað til hefur bara verið hægt að sjá svona í Las Vegas.“

show

MIKIÐ ,,SJÓ“: Öllu er tjaldað til hvað sviðsmyndir og fjölbreytni varðar að sögn Einars. Spennan er allsráðandi fyrir fyrsta stóra sjónvarpsþáttinn.

Aðdáendur bíða eflaust spenntir eftir föstudagskvöldinu þegar fyrsti þátturinn verður frumsýndur. Einar er þessa stundina á fullu með teyminu að klára að klippa afganginn af efninu og í miðju ferlinu rifjar hann upp minningar úr tökunum sem voru viðburðaríkar. „Það sem upp úr stóð var atvik þegar við vorum að taka upp atriði með töfradúfunum í Bíóhöllinni þá flaug ein dúfan upp í rjáfur og við náðum henni ekki niður svo við þurftum að koma daginn eftir,“ segir hann. „Það er alltaf bíó á kvöldin; það var einmitt hryllingsmynd í sýningu um kvöldið og í miðri mynd þá flaug dúfan niður og allur salurinn fékk hjartaáfall, fullorðnir öskruðu eins og stelpur!“

Related Posts