SH-1438-85-20887-200x300Þegar horft er til afreka Jim Morrison, Janis Joplin, Jimi Hendrix og Kurt Cobain má ætla að hæfileg lengd mannsævinnar sé 27 ár. Á þeim aldri yfirgaf allt þetta ágætis fólk þennan heim og var á þessum skamma tíma búið að afreka nóg til þess að halda nöfnum þeirra á lofti um ókomna tíð. Og hafa ótrúleg áhrif á líf og þankagang minni spámanna.

Þegar ég var unglingur vann ég með rúnum ristum, lúnum og bitrum verkamönnum sem byrjuðu að þræla fyrir lifibrauðinu fyrir fermingu. Ég var að vísu byrjaður að vinna fyrir plötunum mínum, kókinu og Prins Pólóinu sem síðasti reiðhjólasendillinn í Reykjavík tólf ára og gat dundað mér í gegnum mennta- og háskóla með því að dæla bensíni um helgar.

En ég gat menntað mig, slíkt stóð mínum gömlu vinnufélögum aldrei til boða. Þeir urðu að verða fullorðnir á barnsaldri á meðan ég nýt þess munaðar að geta látið eins og barn á fullorðinsaldri.

Þegar pabbi minn var 25 ára fannst mér hann vera fullorðinn karlmaður. Mér hefur alltaf fundist pabbi minn vera fullorðinn en börnunum  mínum finnst ég stundum vera meiri krakki en þau. Enda býð ég spenntari eftir sumum bíómyndum en þau og eyði meiri tíma í nördabúðinni Nexus en öll ómegðin samanlögð.

Meðvitaður um að ég er eftirbátur fyrri kynslóða hugga ég mig við gamlan frasa um að þeir séu mikilmenni sem í ellinni varðveiti barnið í hjarta sínu. Og horfi svo á Star Wars í milljónasta skipti til þess að tengja við sjö ára krakkann innra með mér.

Samt er kannski ekki von á öðru en að allt stefni í óefni þegar mín kynslóð og þær sem á eftir koma þráast endalaust við og neita að fullorðnast. Börn eru í eðli sínu frekjur og vilja fá allt strax. Helst fyrir ekki neitt þannig að fram undan er hrun á hrun ofan.

Og með hvaða ósköpum endar þetta svo þegar hin skelfilega krúttkynslóð fer að fjölga sér á fullu? Séu ég og mínir líkar enn unglingar á fimmtugsaldri hvað verður þá um manneskjur sem aldar eru upp af bleyjubörnum í tweed-jökkum og öðrum furðufatnaði, með vonlausan tónlistarsmekk?

Sennilega munu komandi kynslóðir svífa um eins og fóstrið í 2001: A Space Odyssey. En þá kannski næst loksins jafnvægi, vegna þess að fljúgandi fóstur með naflastrenginn tengdan við alheiminn gera varla mikið af sér.

 

Þórarinn Þórarinsson

Related Posts