Leikarinn Tómas Lemarquis (37) á hvíta tjaldinu með Captain America:

 

Aldrei er leiðinlegt þegar íslenskir leikarar skjóta óvænt upp kollinum með stórstjörnum á hvíta tjaldinu. Aðkoma leikarans Tómasar Lemarquis að spennumyndinni Snowpiercer hefur farið fram hjá mörgum landsmönnum en á meðan Þorvaldur Davíð gerir sig kláran til að deila römmum með Drakúla hefur Tómas sjálfur átt nokkuð sterk misseri vestanhafs. Hjá mörgum er hann kunnugur undir nafninu Nói albínói.


Fyrr á árinu var Tómas fjörugur á skjánum ásamt Kevin Costner í hasartryllinum 3 Days to Kill en í Snowpiercer, sem er framleidd í Suður-Kóreu og hefur verið að moka til sín lofi á heimsvísu, fer hann með lítið en mikilvægt hlutverk, nefndur þar „Egghaus“. Ekki er það heldur óviðeigandi titill í samhengi myndarinnar. Vélbyssa og eggjadreifingar um borð í sérkennilegri lest er hans aðalmál í þessu tilfelli. Gerist hann svo heppinn að deila þarna litlum senum á móti stórleikaranum Chris Evans (Captain America) og Tildu Swinton svo einhverjir séu nefndir.

Snowpiercer fékk ekki bíódreifingu hér á klakanum en frumsýnd var hún nýlega á VOD-leigunni. Ekki væri svo amaleg hugmynd að kíkja á gripinn þar.

Related Posts