Ég er orðinn 28 ára, húrra fyrir því. Það fer óðum að nálgast barneignir hjá mér og minni ástkonu, ef allt gengur eftir. Börn eru upp til hópa frekar skemmtileg og því hef ég litlar áhyggjur af þeim. Ég hef unnið með börnum á öllum aldri í mörg, mörg ár. En hvað ef ég hef rangt fyrir mér og þetta sé ótrúlega mikið vesen?

Ég horfi til vina minna sem margir hverjir eru komnir með börn og hugsa: „Iss, ég get þetta alveg,“ en stundum er ég ekki viss. Helsta ástæða þess er að ég er frekar að hugsa um barnið sem félaga og það er mögulega röng hugsun. Mig vantar manneskju sem hefur áhuga á sömu hlutum og ég og ef kvikmyndir og sjónvarpsþættir hafa kennt mér eitthvað þá er það það að börn eiga til að sýna mikinn mótþróa þegar kemur að slíku uppeldi þegar þau verða táningar. Kannski ég ali barnið upp á engu nema vísindum og það sýni þá mótþróa og verði listamaður, alveg eins og ég.

Það getur ekki klikkað.

 

Annars eru margir hlutir sem mig langar til að upplifa með barninu mínu.

Ég vil fara með barnið í Kringluna, týna því og láta kalla mig upp með skömm í hljóðkerfinu.

Ég vil kenna barninu að keyra en treysta því svo ekki fyrir bílnum mínum þegar það er komið með bílpróf.

Ég vil bíða óþolinmóður með barninu eftir lækni á Slysó eftir að barnið handleggsbrotnaði á N1-mótinu á Akureyri.

Ég vil grípa það við drykkju, undir lögaldri, og skamma það smá meðan ég flissa inni í mér.

Ég vil hjálpa því með heimanámið og komast að því að ég man ekkert hvernig á að diffra.

Ég vil vakna þunnur á laugardegi, labba inn í eldhús og vera vandræðalega heilsað af 16-20 ára gamalli manneskju sem ég hef aldrei séð áður að borða kornflexið mitt.

Kannski ætti ég að ráðfæra mig við kærustu mína fyrst.

Brynjar Birgisson

Related Posts