Orsakir þessa vandamáls geta verið og eru líklega nokkrar. Til dæmis sú staðreynd að þrátt fyrir að vera ágætlega gáfum gædd, þá var ég orðin tíu ára þegar ég lærði loksins á klukku. Þegar sá hamingjudagur datt í hús, þá gat ég lagt pappírsúrinu, sem pabbi hafði teiknað af stakri snilld og klippt úr pappa, þar sem tvær eldspýtur voru vísar, og fékk mitt fyrsta alvöru úr. Orsökin getur líka verið sú að ég held einfaldlega að ég sé alltaf fljótari að græja mig en ég er, ég er til dæmis hálfnuð að setja á mig maskarann, þegar kemur ding á Facebook sem ég og athyglisbresturinn verðum að tékka á og fyrr en ég veit af er ég búin að like-a status frá Justin Bieber, kommenta hjá tólf vinum, senda kökuuppskrift til vinkonu og pota í þrjá karlmenn.

Það hefur oft virkað vel að segja fólki bara strax að ég sé tímatýnd og óstundvísi sé galli hjá mér, sem ég vonandi bæti upp með kostum mínum. Vinir mínir nokkrir hafa síðan brugðið á það snilldarráð að sækja mig bara þegar við erum að fara eitthvað, þá er ég tilbúin þegar ég er sótt í stað þess að mæta ein á staðinn allt of seint. Besta lausnin að mínu mati er auðvitað klárlega sú að samferðamenn mínir myndu allir færa sig á mitt tímabelti, bara win-win fyrir alla. En það er nú kannski til frekar mikils mælst, og að öllu gríni slepptu þá er líklega besta lausnin sú að horfast í augu við eigin galla og laga helvítið. Byrja mun fyrr að hafa mig til en ég geri í dag, leggja mun fyrr af stað en ég geri í dag og svo framvegis, þá líklega næ ég á endanum að mæta á tilsettum tíma eða fyrir hann, en ekki alltaf langsíðust. En svo er kannski spurning hvort lausnin felist í mottóinu hennar Berglindar vinkonu: Betra er að vera sein og sæt en fljót og ljót?

Tíminn flýgur, höfum gaman.

Kær kveðja, Ragna ragna@dv.is

Related Posts