Eins og ég beið spennt eftir sumrinu þá er ég jafnfegin að því sé senn að ljúka því það merkir bara eitt í mínum huga, krækiber. Ég verð að viðurkenna að ég er krækiberjafíkill. Sú fíkn á sér engin takmörk. Ég er virkilega tilbúin til að leggja sitthvað á mig til að krækja í ávöxtinn góða.

Ég var svo lánsöm sem barn að alast upp í grennd við hraun og aðrar náttúruperlur og því átti ég auðvelt með að komast í ber á haustin en í barnsminningunni var allt krökkt af berjum. Og þá voru nú jólin, maður minn. Ég hreinlega lagðist á beit og var berjablá í margar vikur.

Mér til mikillar gleði hafa ekki allir smekk fyrir krækiberjum, fleiri virðast vera hrifnari af bláberjum, það gleður ávallt mitt litla krækiberjahjarta hve fáir hafa sama smekk og ég. Meira fyrir mig.

Á meðan aðrir huga að veðurspá sumarsins og býsnast yfir fáum sólardögum, því það setur strik í sólbaðsreikninginn þeirra, þá engist ég um af áhyggjum yfir því að sólarleysið muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir litlu dísætu krækiberin sem ég býð í ofvæni eftir allt sumarið.

Í gönguferðum lít ég ekki til fjalla heldur kíki eftir grænjöxlum, ákalla náttúruna og bið um góða uppskeru.

Mér til mikils léttis, á sama tíma og hálf þjóðin lék listir sínar í útilegum sá ég skýrasta merki þess að góð tíð væri í vændum. Drit – fagurblátt – lenti á bílhúddinu. Sjaldan hef ég glaðst yfir jafneinföldu og litlu, loksins loksins, blátt drit. Nú skal vömbin troðin af yndislegum svörtum C-vítamín gjöfum. Ég mun dvelja í hrauninu á beit innan um símígandi ferðamenn og berjast um bitann við köngulær sem vísa manni á réttan stað.

Komdu fagnandi, haust, ég mun taka á móti þér berjablá og brosa hringinn og láta undan krækiberjafíkninni eins og enginn væri morgundagurinn. Laumast á leynistað og liggja þar á beit í felulitunum og fara heim þegar ég hef klárað hverja einustu þúfu.

Ef uppskeran bregst þetta árið þá skunda ég á Laugaveginn og kem við í Vísi, sem selur ekki bara dýrindis karamellur og súkkulaði heldur krækiber í tonnavís. Fyrir það ætti að veita þeim fálkaorðu.

Gleðilega uppskeru.

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts