Spennan yfir samræðum í heita pottinum magnast í hvert sinn sem ég geri mér ferð í laugarnar. Spurningar áhugasamra um ástarlíf mitt hrynja enn af vörum pottverja og finnst mér ég ekki geta valdið þeim vonbrigðum. Ég finn fyrir þrýstingi um að koma með æsispennandi sögur af mögnuðum stefnumótum og stórskemmtilegum samræðum við fluggáfaða og fjallmyndarlega menn.

Ég er nokkuð viss um að sannleikurinn sé ekki það sem pottverjar vilja heyra. Sögur af köttum og skítugum kattasandi, biluðum þurrkara, börnum og daglegu brasi þeirra eru ekki eins heillandi og krassandi stefnumótabrall.

Og svo gerðist það. Glettinn pottverji stóðst ekki mátið þegar ég kastaði mæðinni í lauginni um daginn. „Jæja, ertu byrjuð að deita?“ Stöllur mínar í pottinum sprungu úr hlátri en í augum þeirra mátti greina eftirvæntingu, það sá ég gleraugnalaus.

„Hvað segirðu Ásta, hvernig er markaðurinn, er eitthvað vit í þessu.“ Þar sem ég hef ekki gert vísindalega markaðskönnun á framboðinu þá var ekki mikið um marktæk svör.

„Tja, það fer nú örugglega bara eftir að hverju maður er að leita, býst ég við, ég hef ekki gert markvissa úttekt á þessu.“

Niðurstaða pottverja var sú að ég ætti að skella mér í rannsóknarvinnu og skipa pottverja sem rýnihóp.

Undir heitri sturtunni, en ekki hvar, hugsaði ég um íslenska karlmanninn. Hver er hann? Hvað er hann? Því meira sem ég hugsaði um hann því sannfærðari varð ég um að hann væri bara alveg hreint frábær. En það er ekki sagt nógu oft.

Ég er þreytt á umræðunni um að annað kynið hitt og hitt kynið þetta. Ég er strákamamma og finn fyrir neikvæðri umræðu í garð karlmanna. Þeir eru oft úthrópaðir í fjölmiðlum sem nauðgarar og kvenhatarar.

Ungir karlmenn eiga undir högg að sækja, þeir sem flosna upp úr vinnu og námi eiga erfitt með að fóta sig aftur. Ungir karlmenn eru líklegri til að falla fyrir eigin hendi en aðrir og deyja í slysum.

Mikið vildi ég óska þess að samfélagsumræðan væri ekki svona heiftug. Karlar eru ekki verri en konur, það er ekki sjálfgefin niðurstaða.

Ég vil ekki að synir mínir alist upp við að heyra talað niður til þeirra af því að þeir eru karlkyns.

Hvers eiga íslenskir karlmenn að gjalda – þeir eru frábærir í alvörunni. Elska þá alla.

Gleðileg jól.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts