Einhverju sinni varð setningin „meira er minna“ allsráðandi í tískuheiminum. Hún gekk út það að mikið skraut væri ekki endilega það sama og að vera smart og smekklegur, að einfaldleikinn væri bestur. Ekki tóku allir heilshugar undir þessa staðhæfingu og töldu að hún ýtti undir andstöðu gegn fallegum hlutum og yki fordóma gagnvart heimilum sem væru mikið skreytt með persónulegum munum; gamli blómavasinn hennar ömmu þótti ekki lengur smart, var skipt út fyrir nýjan vasa úr hönnunarbúð. Skyndilega urðu heimili manna púkaleg vegna mávastellsins sem gekk í erfðir frá gömlum frænkum. En þegar þessi setning er skoðuð nánar þá hefur hún meiri skírskotun og dýpri merkingu en einungis til tísku og blómavasa.

Þegar lífið fer á hvolf og svo virðist sem einhver ræni frá manni tímanum og tækifærin til að setjast niður og njóta augnabliksins hverfa, þá finnur maður sterkt hversu mikil sannindi felast í setningunni, minna er meira.

Stundum er lífið á ofurhraða og svo virðist sem dagarnir séu hraðspólaðir og engin leið er til að stöðva lætin sem því fylgja. Á þannig dögum sakna ég þess að flokka þvott í rólegheitunum, hlusta á útvarpið og sötra kaffi með.
Einfaldir dagar eru dýrmætir og þeir eru of sjaldan metnir að verðleikum, fyrr en við missum þá vegna ofsaaksturs tilverunnar. Slökum á í dag, róum okkur niður, fögnum því einfalda, og kannski það sem mikilvægast er, finnum einfaldleikann í hinu flókna.

Stingum nefinu út um dyragættina og öndum að okkur vorinu, fögnum því, sleppum því að kvarta.
Vorið þarf ekki að koma með látum, það tekur þann tíma sem það þarf. Sleppum heimtufrekjunni. Njótum samveru með ættingjum okkar, hlustum á þá, leyfum rödd þeirra að heyrast. Okkar skoðanir eru ekki alltaf réttari en annarra.

Það er alveg magnað hve mikil gleði getur falist í því að maula kexköku og hlusta eftir eigin andardrætti, njóta augnabliksins. Það kemur aldrei aftur og sérhvert er dýrmætt og einstakt.
Minna getur virkilega verið mest í lífinu.

 

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts