Tanya Dimitrova (45) og vinkonur dansa með hárkollur í glimmerleggings:
Tanya Dimitrova er orkubolti og dansdíva sem stjórnar danshópnum Tanya og Zumba-dívurnar.  Í hópnum er konur á öllum aldri sem eiga það sameiginlegt að hafa gaman af dansi og eru tilbúnar að koma fram á sviði og gleðja aðra með fjörugum danssporum.
 

Drottningar „Allar konur geta lært að dansa. Samhæfing og þokki í dansinum kemur með æfingunni en er ekki meðfæddur eiginleiki. Það hefur verið vísindalega sannað að regluleg ástundun dans er fyrirbyggjandi gegn öldrunarsjúkdómum eins og Alzheimer. Svo að dans gerir öllum gott,“ segir Tanya sem geislar af orku.

Það er ekki öllum gefið að standa á sviði og dansa fyrir áhorfendur. En Tanya og Zumba-dívurnar hafa verið að troða upp víðs vegar síðustu fimm árin.

Geggjuð útrás
„Ég stofnaði sýningarhópinn árið 2010 með konum sem voru hjá mér í Zumba-tímum. Konurnar  eru allar áhugadansarar og fá útrás fyrir dansáhugann í þessum hóp. Við höfum verið með fjölmörg skemmtiatriði, við ýmis tækifæri, í Kvennahlaupinu, á Menningarnótt, 17. júní og um jólin vorum við með jóladansdagskrá í Jólaþorpinu í Hafnarfirði. Alls staðar þar sem við höfum verið með skemmtiatriði er okkur tekið fagnandi. Og sömu aðilar hafa verið að bóka okkur aftur og aftur og það er mikil viðurkenning.“

tanya7

STÍFAR ÆFINGAR: Tanya og dansdívurnar leggja hart að sér fyrir sýningar og æfa stíft.

tanya1

SÍDANSANDI: Tanya hefur æft dans frá þriggja ára aldri, hún hefur kennt dans og líkamsrækt í 26 ár og er alltaf jafnfjörug.

Zumba gegn myrkri
Zumba-dans nýtur mikilla vinsælda og virðist fara vel í íslensku þjóðina.
„Zumba er skemmtilegt æfingakerfi og hefur góð áhrif á iðkendur, sérstaklega hér á Íslandi þegar veturinn er langur, dimmur og kaldur, sem getur  verið niðurdrepandi. Að dansa við fjöruga  tónlist fyllir hjartað af sól og hlýju. Þar að auki snýst Zumba ekki eingöngu um latin-dans, það inniheldur einnig aðra dansstíla, eins og diskó, magadans, Bollywood, hipphopp og fleira og þess vegna er þetta mjög fjölbreytt.“

Strangur kennari
„Ég er fædd og uppalin í Sofiu, Búlgaríu, og hef æft klassískan dans og djassballett frá þriggja ára aldri. Ég var með rússneska kennara, aginn þar var mikill og aldrei mátti væla. Við vorum öll lamin með priki á hnéð ef það var ekki alveg læst. Ég tók svo atvinnudansréttindi þegar ég var 18 ára gömul með fyrstu einkunn. Í gegnum árin hef ég kennt ýmis fitness-danskerfi, eins og Body Jam frá Nýja-Sjálandi til dæmis og öll Zumba-kerfin núna, svona í takt við tískusveiflurnar hverju sinni.“

Duglegar dívur
„Til að byrja með voru dívurnar mínar mjög feimnar og höfðu aldrei stígið á svið áður til að dansa. En nú hafa þær dansað á sviði í fimm ár og fyrir hverja sýningu  er bara tilhlökkun og mikið gleði, aldrei kvíði. Þetta er mjög frelsandi og gefandi. Við erum með svo fjölbreytt atriði, við erum líka með Burlesque-danssýningarhóp og magadanssýningarhóp. Eitthvað fyrir alla.
Við höfum verið að dansa í einkaveislum og við eigum til atriði sem hentar til dæmis í brúðkaup, við erum klárar í að koma fram við nánast hvaða tækifæri sem er. En við bókum okkur ekki sem skemmtiatriði fyrir eina manneskju eingöngu, sem sagt, við erum ekki „einkadansarar,“ segir Tanya skellihlæjandi.

tanya2

ÓFEIMNAR Á SVIÐI: Dívurnar koma fram við margvísleg tækifæri, næst munu þær fagna sumarkomu á sumardaginn fyrsta í Hafnarfirði.

Related Posts