Íslendinginn Adam Bauer (25) langar að leysa málin:

 

Adam AdamAdam Bauer er með vísindadellu. Hann var í Sprengjugengi Háskólans og hefur komið við sögu hjá Ævari vísindamanni. Hann var að læra lífefnafræði þegar áhugi hans á réttarvísindum vaknaði. Sjónvarpsraðmorðinginn Dexter átti sinn þátt í því og nú er Adam kominn til Kaliforníu að læra að leysa sakamál með vísindalegum aðferðum.

 

Klár Adam Bauer er sá fyrsti sem útskrifaðist sem lífefna- og sameindalíffræðingur frá Háskóla Íslands. Vísindi hafa alla tíð verið honum hugleikin og þegar hann var í Háskólanum kviknaði áhugi hans á að læra réttarvísindi. Hann dreif sig til Kaliforníu í mastersnám í þeim fræðum í UC Davis-háskólanum.

„Þegar ég var í lífefnafræðinni hélt Björgvin Sigurðsson, yfirmaður tæknideildar lögreglunnar, fyrirlestur í Háskólanum. Hann kveikti rosalegan áhuga hjá mér, þannig að ég byrjaði að skoða skóla og svo er ég bara allt í einu kominn út og byrjaður að læra „forensic science“, eða réttarvísindi,“ segir Adam.

Blóðslettur

Adam ætlar að leggja áherslu á vettvangsvinnu, á braut sem kennd er við „criminalistics“. „Þetta gengur út á að safna sýnum en vinnan ræðst af því í hverju ég sérhæfi mig. Morðum, nauðgunum, eldsvoðum og svo er blóðslettugreining, blood spatter analysis, einnig í boði.“ Raðmorðinginn vinsæli Dexter rannsakaði einmitt blóðslettur í samnefndum sjónvarpsþáttum og er ekki alveg saklaus af því að hafa ýtt Adam út á þessa braut.

„Stjórnandi námsbrautarinnar heitir Christopher Hopkins. Hann vann fyrir FBI í 25 ár og mun kenna mér á námskeiði sem ég er mjög spenntur fyrir og heitir „Homicide investigation“. Þar verða morð sviðsett og síðan fer allur dagurinn í að upplýsa málið og mæta fyrir rétti þar sem lögfræðinemar reyna að spyrja mann spjörunum úr sem sérfræðivitni.“

Fyrsti Íslendingurinn

Adam AdamAðeins 20% þeirra sem sóttu um mastersnámið komust inn og Adam er fyrsti Íslendingurinn sem tekur þetta nám í UC Davis. „Foreldrar mínir búa í Santa Clara, sem er rétt fyrir utan San Francisco, aðeins tæpum tveimur tímum frá mér, þannig að það var alveg fullkomið að komast þarna inn og vera nálægt þeim.“

Almenningur hefur helst kynnst réttarvísindum í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum eins og CSI en slíkt efni heillar fræðimanninn ekki. „Ég horfi rosalega mikið á þættina Solved og Forensic Files, þætti sem byggja á raunverulegum málum. Þar er talað við rannsakendur og ættingja fórnarlamba og farið yfir hvernig mál þróuðust og hvernig þau voru leyst. Ég hef meira gaman af því en CSI þar sem allt er uppblásið og einfaldað í tætlur. En ég fylgdist að sjálfsögðu með Dexter, hann hefur líka örugglega haft sín áhrif á að áhugi minn kviknaði á að læra þetta. Þegar ég sá hvernig ég gæti farið með vísindin og vísindabakgrunn minn í eitthvað svona.“ Adam segir blóðslettufræðin mjög merkileg og heillandi. „Hvernig droparnir eru og hvernig þeir breiðast út en það fer allt eftir högginu.“

Fá morð á Íslandi

Adam segist ekki vita hvað taki við að námi loknu. „Það er spurningin. Eins og er er voðalega lítið í gangi í þessu heima og flest sýni send til Noregs þannig að þetta er mikið til aðeins grunnvinna á Íslandi. Ég vil, sérstaklega þegar ég er búinn að sérhæfa mig, geta unnið af alvöru og klárað málin. Þannig að það væri náttúrlega heillandi að vera áfram hérna úti í Bandaríkjunum. Hér er líka meira að gera þótt auðvitað sé gott að það er ekki brjálað að gera í morðum á Íslandi.“

Related Posts