Jóna María Norðdahl (48) situr og saumar:
Jóna María lét gamlan draum rætast hún tók ákvörðun um að henda sér í djúpu laugina og sér ekki eftir því. Fyrirtæki hennar hefur vaxið á ógnarhraða, hún hannar og sníður fatnað fyrir konur og rekur verkstæði og verslun í Bæjarlindinni í Kópavogi. Margar konur kannast við hönnun hennar en hún selur vörur sínar undir eigin nafni.

„Ég lærði klæðskerann í Iðnskólanum og er sérhæfð í kjólasaum, þegar ég var barn dreymdi mig um að verða fatahönnuður og nú hefur það ræst,“ segir Jóna María Norðdahl sem er hæstánægð með viðtökurnar.

Það er ekki á færi hvers sem er að setjast niður og sníða föt sem passa og fara vel. Sumir hafa fengið þessa hæfileika í vöggugjöf og það á við um Jónu Maríu.

„Ég byrjaði að búa til mín eigin snið sem krakki og það var aldrei vandamál fyrir mig, ég fékk þessa hæfileika í vöggugjöf. Ég saumaði úr öllu sem ég komst í og urðu skyrtur pabba míns oft fyrir valinu. Ég litaði lök og sneið og saumaði mér flíkur úr þeim. Þannig að það má segja að þetta hafi verið skrifað í skýin.“

frumkvöðlar, Jóna María íslensk hönnun, Séð & Heyrt, Viðtal, 35. tbl. 2015, Viðtal, SH1509023184

STENDUR MEÐ SJÁLFRI SÉR: Jóna María hefur byggt upp fyrirtæki sitt af einskærum dugnaði og eljusemi.

Austurlensk áhrif
„Foreldrar mínur bjuggu í Amman í Jórdaníu þegar þau voru ung og komu heim með menningu og húsmuni sem voru egypskir. Þannig að mitt heimili og matarmenning var öðruvísi að stóru leyti. Ég ferðaðist mjög mikið með foreldrum mínum. Allt þetta hefur áhrif á mig í minni sköpun. Ég heillast mikið af litum og mynstri, þó að efnisval stjórnist að mestu leyti á því sem er í boði.
Ég læt prjóna peysuefni fyrir mig hérlendis og er með nýjar peysur væntanlegar sem ég er mjög spennt fyrir.

Hönnun Jónu Maríu er fjölbreytt og er sniðin að þörfum kvenna. Íslenskar konur eru duglegar að styrkja innlenda hönnun og eru greinilega ánægðar með það sem í boði er.
„Ég er í flæðinu eins og flestallir hönnuðir eru. Hugmyndirnar eru stanslausar í kollinum á mér og ég er alltaf að hanna hvar og hvenær sem er. Ég hugsa mest út frá mér, hvað heillar mig og hvað mig langar í. Ég hef aldrei passað vel í fatnað sem er seldur í keðjuverslunum. Fatnaður sem ég hanna er klassískur og með smáglamúr, dagfatnaður sem auðvelt er að dressa upp sem kvöldfatnað. Íslenskar konur eru kröfuharðar, þær vilja góð efni og þægileg snið. Þær eru jafnframt þakklátir kúnnar og tryggar. Ég er með stóran hóp traustra viðskiptavina sem sækja til mín aftur og aftur.“

jónam

EINFALT OG KLASSÍSKT: Hönnun Jónu Maríu hentar bæði sem dagfatnaður og kvöldfatnaður.

Leið til árangurs
„Vinkona mín var með verslun á Laugaveginum með íslenska hönnun og hún var búin að spyrja mig nokkuð oft hvort ég vildi koma og vera með sér, þannig að haustið 2012 sló ég til og þá varð fyrsta vetrarlínan mín til. Ég flutti svo reksturinn úr kjallaranum heima og svo var það í fyrrahaust sem við opnuðum hér í Bæjarlindinni. Í dag erum við tólf sem vinnum hjá fyrirtækinu. Ég man að eitt kvöld er ég stóð heima við eldhúsvaskinn þá varð ég fyrir ákveðinni uppljómun, ég hugsaði með mér hvað ég væri eiginlega að gera. Ég tók u-beygju og fór að vinna eins og skepna. Vaknaði eldsnemma á morgnana og vann langt fram á kvöld. Ég gaf heimilisverkunum frí og lét aðra um að elda, styrkti Nings og fleiri góð fyrirtæki á kvöldmatartíma. Ég á uppkomin börn og það var lag að koma þessu í gang. Og hér er ég í dag. Með stórt fyrirtæki, ég starfa við það sem mér þykir skemmtilegast og það eru algjör forréttindi, ég hreinlega elska vinnuna mína,“ segir Jóna María sem býður allar konur velkomnar til að líta inn hjá sér og hvetur þær jafnframt til að láta drauma sína rætast.

Related Posts