DORRIT FUNDIN

Dorrit Moussaieff (64) mætti í hippadressi hjá Íslenska dansflokknum:

 

Forsetafrúin, Dorrit Moussaieff, hefur lítið sést á Íslandi undanfarið og Ólafur Ragnar Grímsson hefur síðan í sumar sótt ýmsa viðburði einn síns liðs. Fjarvera Dorritar varð til þess að þrálátar kjaftasögur um skilnað á Bessastöðum hafa geisað í samfélaginu. Dorrit stakk upp í allar Leitis-Gróur landsins þegar hún mætti með forsetanum á frumsýningu hjá Íslenska dansflokknum í Borgarleikhúsinu.

 

Hjónabandssæla Dorrit Moussaieff vakti athygli frumsýningargesta hjá Íslenska dansflokknum í Borgarleikhúsinu þegar hún mætti í fylgd eiginmannsins, Ólafs Ragnars Grímssonar. Það er svo sem ekki í frásögur færandi að Dorrit veki athygli enda er forsetafrúin einhver magnaðasti senuþjófur sem skotið hefur upp kollinum í íslensku samkvæmis- og þjóðlífi um langt árabil.

Dorrit er annáluð fyrir glæsileika, frjálslega framkomu og dirfsku í fatavali. Klæðanaður hennar í Borgarleikhúsinu fangaði athygli margra enda stakk hún skemmtilega í stúf við formfastan eiginmanninn sem var í hefðbundnum jakkafötum. Dorrit var í snjóþvegnum gallabuxum sem áttu sína gullöld á níunda áratugnum en útvítt sniðið bergmálaði blómum skreyttan hippatíma hinna frjálsu ásta.

Belti Dorritar og vígaleg sylgjan hefðu sómt sér vel utan um mitti sýrugoðsins Jims Morrison í The Doors og skyrtukragi forsetafrúarinnar minnti ekki síður á þá grófu blúndukraga sem gægðust undan leðurjakka popparans sáluga. Þennan líflega og skemmtilega klæðnað batt Dorrit svo saman með glæsilegri íslenskri lopapeysu. Alltaf einstaklega smekkvís hún Dorrit og gætir þess ætíð að flétta rótgróna þjóðlega þætti úr íslenskri menningu saman við alþjóðlegt yfirbragð sitt.

Að þessu sinni var það þó ekki klæðnaðurinn eða frjálslegt fasið sem fékk aðra frumsýningargesti til að staldra við og stara á forsetafrúna. Hún hefur nefnilega lítið sést í fylgd með Ólafi Ragnari síðustu mánuði og illar tungur hafa teygt sig um þjóðfélagið og inn á samfélagsmiðlana þar sem mikið hefur verið slúðrað um að forsetahjónin séu skilin að skiptum. Dorrit hafi yfirgefið Bessastaði og haldi til á heimavelli sínum í London.

Með glæsilegri innkomu sinni í salarkynni Borgarleikhússins hefur Dorrit væntanlega tunguskorið kjaftakerlingar beggja kynja í bili enda var ekki annað að sjá á Ólafi Ragnari og henni en að allt léki í lyndi.

 

Related Posts