Vinkona mín reyndi að láta birta ósk sína um frestun á fertugsafmælinu sínu í Lögbirtingablaðinu en fékk synjun. Hún þurfti því að gangast við því að verða fertug, sem var að hennar mati ótímabært með öllu. Hún komst samt þokkalega frá þeim ósköpum að eiga afmæli og lifir enn.

Þessi sama vinkona hélt í höndina á mér þegar ég varð fertug en þá vorum við staddar á frekar subbulegum bar í þýsku borginni Dusseldorf að lepja eitursterka kokteila eftir að hafa fylgst með Vinum Sjonna rúlla upp forkeppninni í Eurovision. Já, ég hélt nefnilega upp á fertugsafmælið mitt með því að fara á Söngvakeppnina, algjörlega frábær leið til að flýja raunveruleikann sem elti mig uppi í formi nýs tugar. En þegar á hólminn var komið var ekkert tiltökumál að verða fertug.

Ég fann ekki fyrir neinum sérstökum breytingum, ég byrjaði hvort sem er að grána þegar ég var 18 ára, þannig að ég var orðin vön. Hef notað gleraugu frá barnsaldri þannig að það var ekkert nýtt að ég sæi illa. Ég hef sjaldan verið í betra líkamlegu formi en einmitt þegar ég varð fertug, þannig að tugurinn sá beit ekki mjög fast í mig.

Á mér óx hvorki horn né hali þannig á heildina litið held ég að ég hafi nú bara sloppið nokkuð vel frá þessum ósköpum, en það er langt, langt, langt síðan að þetta var. Nú er öldin önnur, eða réttara sagt nýr tugur hálfnaður.

„Ef menn vissu bara hvað þú ert gömul, Ásta, þá er ég ekki viss um að þér yrði boðið út að borða. Díses, þú ert að verða 45 ára, ert bara að missa af lestinni.“

Anda inn, anda út, loka augunum telja upp á tíu, svitabað (alveg eðlilegt, ekki þið vitið), ekki myrða viðkomandi, taka þessu bara með brosi. „Já, svo að þér finnst það, já.“

Oft ratast kjöftugum satt orð á munn og það var í þessu tilfelli. Ég er í nettu panikkkasti vegna yfirvofandi afmælis sem mun eiga sér stað á sama degi og síðustu 44 ár, lítið breyst í því. Og það færist nær og nær. Er þarna rétt handan við hornið og fátt hægt að gera við því. Jafnvel þó að ég sleppi því að halda upp á daginn þá lýgur kennitalan ekki. Helvítis kennitalan kemur alltaf upp um mann.

Það er svo margt sem ég á eftir að gera og ég verð sextug eftir smá og svo áttræð og þá er þetta bara búið!

Er ekki hægt að ýta á pásu? Af hverju líður lífið áfram á svona miklum hraða? Það eru bara nokkur ár síðan að ég kláraði stúdentinn.

Ég er að hugsa um að reyna þetta með Lögbirtingablaðið kannski gengur mér betur en vinkonu minni.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts