Jóhannes Haukur (37) situr fyrir svörum:

Jóhannes Haukur Jóhannesson, leikari og fjölskyldufaðir í Laugardalnum, leikur aðalhlutverkið í kvikmyndinni Ég man þig sem er nú sýnd í kvikmyndahúsum um land allt. Myndin byggir á samnefndri bók eftir Yrsu Sigurðardóttur. Jóhannes Haukur svarar spurningum vikunnar.

FÆDDUR OG UPPALINN? Ég er fæddur árið 1980 og uppalinn í Hafnarfirði en með viðkomu í Færeyjum og Árbænum. Móðir mín, sem er færeysk, flutti með mig til Færeyja 1987 og við vorum þar til 1990. Þegar við komum heim bjuggum við í Árbænum í tvö ár áður en við fórum svo aftur í Fjörðinn.

MÉR FINNST GAMAN AÐ… Ég er nú svo lánsamur að vinnan mín er jafnframt áhugamálið mitt. Svo finnst mér fjölskyldan mín ansi skemmtileg. Svarið er því að vinna og að gera eitthvað með fjölskyldunni, skiptir ekki endilega máli hvað það er.

SÍÐASTA KVÖLDMÁLTÍÐIN? Ég vona að það sé langt í þá kvöldstund, en hún væri ákjósanlegust heima við. Ég myndi vilja svívirðilegt magn af grísarifjum og hráfæðiskökuna sem konan mín gerir í eftirrétt. Eftir það má nóttin koma.

BRENNDUR EÐA GRAFINN? Brenndur, mér finnst algjör óþarfi að vera að taka of mikið pláss í dauðanum.

HVAÐ GERIRÐU MILLI KL. 17–19? Það er fjölskyldutími. Á þessum tíma eru börnin þrjú komin heim. Við förum yfir atburði dagsins, gerum eitthvað skemmtilegt og undirbúum kvöldmatinn.

SAMFÉLAGSMIÐLAR EÐA DAGBLÖÐIN? Ég snerti varla á pappírsblöðunum lengur, þetta er allt á netinu. Samfélagsmiðlarnir eru þá ágætir, því þar eru aðrir búnir að pikka út og deila því sem er áhugavert. Ég forðast þó að ræða málin á samfélagsmiðlum. Það skilar engu. Betra að ræða við fólk í eigin persónu.

HVAÐ ERTU MEÐ Í VINSTRI VASANUM? Ekki neitt. Örlitla ló. Það er allt og sumt.

BJÓR EÐA HVÍTVÍN? Helst bara kaffi. En ef ég þyrfti að velja, þá frekar bjór, og þá frekar dökkan.

HVER STJÓRNAR FJARSTÝRINGUNNI Á ÞÍNU HEIMILI? Þessi spurning á nú varla við lengur í nútímasamfélagi. Það eru svo mörg tæki og tól til afþreyingar að þetta er aldrei bitbein. Allavega ekki hjá okkur. Það eru tvö sjónvörp, tvær spjaldtölvur, fartölva og tveir snjallsímar á heimilinu. Vandinn er miklu frekar að takmarka notkun þessara tækja.

HVERNIG VAR FYRSTI KOSSINN? Hann var stuttur. Ég man að mér þótti ekki mikið til þess koma að fá slef úr öðrum upp í mig og hálfpartinn kúgaðist. Það rjátlaðist nú fljótt af manni.

HVER VÆRI TITILL ÆVISÖGU ÞINNAR? Ég verð að leyfa öðrum að ákveða það. Vonandi eitthvað jákvætt.

HVER ER DRAUMABÍLLINN? Ég er blessunarlega alveg laus við einhvern fetisma varðandi bifreiðar. Það er frekar að ég kjósi praktíska hluti er þetta varðar. Ég myndi vilja hafa hann sjö sæta með sterkri grind og að hann væri rafknúinn.

FYRSTA STARFIÐ? Það var blaðaútburður fyrir DV. Þá fór maður alltaf eftir skóla en helgarblaðið átti að berast fyrir klukkan 07.00 á laugardagsmorgun. Það var ansi erfitt að standa við það. Ansi hreint.

FALLEGASTI STAÐUR Á LANDINU? Hálendið. Við sjáum það ekki oft en ég hef einu sinni gengið Laugaveginn og einu sinni flogið í þyrlu yfir hálendinu á leið til Vatnajökuls. Hálendið hefur að geyma ótrúlega fegurð sem ég vissi ekki að væri þarna.

HVAÐA OFURKRAFT VÆRIR ÞÚ TIL Í AÐ VERA MEÐ? Ég myndi vilja vera eins og kærleiksbirnirnir. Vera með svona merki á maganum og geta sent út massífan kærleika frá því.

GIST Í FANGAKLEFA? Það hef ég ekki gert og geri vonandi aldrei.

STURTA EÐA BAÐ? Sturta, ég vil ekki eyða tíma í þetta.

HÚÐFLÚR EÐA EKKI? Ég er ekki með neitt húðflúr og ætla að halda því þannig. Það getur verið fyrir manni í leikarastarfinu.

HVAÐA LEYNDA HÆFILEIKA HEFUR ÞÚ? Ég hef reynt að flagga öllu sem ég get og kann. Er ekki mikið í því að reyna að leyna einhverju ef ég tel mig geta gert það sómasamlega.

HVAÐ FÉKK ÞIG TIL AÐ TÁRAST SÍÐAST? Þegar ég sá tvö eldri börnin mín syngja saman á tónleikum. Þá táraðist ég eilítið. Það gerist oft í tengslum við krakkana. Í hvert sinn sem ég sé þau vaxa sem manneskjur og einstaklingar.

FYRIRMYND Í LÍFINU? Það er ekki einhver ein manneskja heldur margir sem ég lít upp til. Það er fjöldi fólks sem hefur ákveðna eiginleika sem ég vil tileinka mér og reyni það.

HVAÐA SÖGU SEGJA FORELDRAR ÞÍNIR ENDURTEKIÐ AF ÞÉR? Mamma segir börnunum mínum mikið um prakkarastrik sem ég gerði sem barn. Þeim finnst ógurlega gaman að heyra af því þegar pabbi þeirra pissaði á bak við herbergishurðina sína, bara til að sjá hverjar afleiðingarnar yrðu.

ERTU MEÐ EINHVERJA FÓBÍU? Ekkert ákveðið sem mér dettur í hug. Ég er temmilega ragur við að prófa hluti sem mér finnst vera hættulegir og er ekki áhættusækinn. Ég mun til dæmis aldrei nokkurn tímann fara í fallhlífarstökk. Ég sé ekki tilganginn og þrái ekki þessa spennu. Frekar vil ég vera með fæturna á jörðinni.

HVER ER BESTA ÁKVÖRÐUN SEM ÞÚ HEFUR TEKIÐ? Mín mesta gæfa í lífinu hefur verið öðrum að þakka, eða fyrir tilstilli ákvarðana annarra. En kannski mín ákvörðun að þora að leyfa öðrum að ráða. Kannski á ég eftir að taka mína bestu ákvörðun. Ég reyni þá að vera viðbúinn.

FURÐULEGASTI MATUR SEM ÞÚ HEFUR BORÐAÐ? Það fer nú eftir því hvernig maður skilgreinir furðulegt. Í augum flestra útlendinga sem ég hitti er hvalkjötið stórskrítið. En það sem hefur verið mér mest framandi af því sem ég hef lagt mér til munns, er lamadýr. En það fékk ég á ferðum mínum um Bólivíu árið 2008.

HVAÐ ER NEYÐARLEGASTA ATVIK SEM ÞÚ HEFUR LENT Í? Það fer aldrei á prent. Ég og þeir sem voru viðstaddir munum þetta og geymum.

KLUKKAN HVAÐ FERÐU Á FÆTUR? Klukkan sjö alla morgna. Alla andskotans morgna. Það er ekki annað í boði með þrjú börn. En það venst. Og stundum skiptumst við á, við hjónin, og annað okkar fær að sofa út um helgar. Það er æðislegt. Þegar ég er erlendis í vinnu og á frídaga þá ligg ég í rúminu eins lengi og ég get. Helst til að verða hádegi.

LEIGIRÐU EÐA ÁTTU? Við hjónin eigum fasteign í Laugardalnum. Við keyptum okkar fyrstu íbúð í hlíðunum árið 2007 og fluttum svo í stærra húsnæði árið 2012.

HVAÐA BÓK ER Á NÁTTBORÐINU? The command to look eftir William Mortensen. Áhugaverð bók um myndmál.

MEÐ HVERJUM LÍFS EÐA LIÐNUM MYNDIR ÞÚ VILJA VERJA EINNI KVÖLDSTUND? Þeir dauðu mega hvíla sig en ég er til í að hitta Tarantino í eina kvöldstund.

HVER ER FYRSTA ENDURMINNING ÞÍN? Ég er sennilega fjögurra ára, úti að leika mér á Hjallabrautinni í Hafnarfirði. Fullt af krökkum og rosalega gaman. Það er vetur. Við erum að búa til snjókarl og kúlan er orðin á stærð við okkur.

LÍFSMOTTÓ? Ekki segja neitt um einhvern sem þú treystir þér ekki til að segja beint við viðkomandi.

UPPÁHALDSÚTVARPSMAÐUR/STÖÐ? Á virkum dögum eru það Frosti og Máni í Harmageddon á X-inu og svo Rúnar og Logi í Bakaríinu á Bylgjunni á laugardögum.

UPPÁHALDSMATUR/DRYKKUR? Egg og kaffi alla daga. Klikkar ekki.

UPPÁHALDSTÓNLISTARMAÐUR/HLJÓMSVEIT? Ég verð að nefna Sigur Rós. Ég get hlustað endalaust á það band. Bítlarnir hafa líka alltaf verið í uppáhaldi mér. Þeir bara einfaldlega gerðu þetta allt rétt á sínum tíma og engum hefur tekist að toppa þá. Ég varð mjög spenntur fyrir hljómsveitinni Kula Shaker um aldamótin og taldi arftaka þeirra loksins vera komna fram á sjónarsviðið. En svo var ekki, bara ein plata og ekkert meir. En þessi eina plata þeirra er frábær!

UPPÁHALDSKVIKMYND/SJÓNVARPSÞÆTTIR? The English Patient er uppáhaldsbíómyndin mín. Svo bíð ég nú spenntur eftir þriðju seríu af Silicon Valley.

UPPÁHALDSBÓK? Ég á mér enga uppáhaldsbók, því miður.

UPPÁHALDSSTJÓRNMÁLAMAÐUR? Jón Gnarr. Hann endurskilgreindi stjórnmálin.

Related Posts