Fiskur

SLEGIÐ Í GEGN: Félagarnir Hafsteinn og Grímur eru ánægðir með viðtökurnar.

Hafsteinn Hafsteinsson (39) er þakklátur fyrir nýtt líf og sterkara hjarta.

Hafsteinn Hafsteinsson var við dauðans dyr en vissi ekki af því. Hafsteini brá því heldur betur í brún þegar leyndur hjartagalli uppgötvaðist í skoðun hjá Hjartavernd. Læknarnir gáfu honum níu til ellefu mánuði eftir ólifaða.

Stórt hjarta „Hjartað var við það að springa í bókstaflegri merkingu. Ég hef verið í íþróttum allt mitt líf og taldi mig í góðu formi og mér datt bara ekki í hug að hjartað væri einungis á 60% keyrslu,“ segir Hafsteinn sem fór í stóra hjartaaðgerð á síðasta ári en hefur nú náð sér að fullu.
„Ég er bara eins og nýr maður, ég fékk nýja hjartloku og svo þurfti að stytta ósæðina, hjartað hafði færst til, alveg magnað að standa í þessum sporum á mínum aldri, ekki orðin fertugur.‘‘

Hafsteinn og eiginkona hans opnuðu nýlega fiskverslun í Hafnarfirði á besta stað í bænum.
,,Við sáum að þetta pláss var laust, við hliðina á Bónus og Vínbúðinni, og ákváðum að slá til. Við sérhæfum okkur í gómsætum fiskréttum en slíkt var í takmörkuðu úrvali hér í bæ.“

Hafsteinn hefur verið kallaður fiskikóngurinn úr Garðbæ. „Það er bara einn fiskikóngur og það er ekki ég! Hafnfirðingar eru enn sárir Stjörnumönnum fyrir að vinna Íslandsmeistaratitilinn og kalla mig, gamla Stjörnumanninn, fiskiprinsessuna en það er allt í góðu.“

Hjónin eru í skýjunum með viðtökurnar. „Þetta er bara geggjað, það var greinilega þörf á svona verslun, það kláraðist næstum allt úr búðinni á fyrsta degi.“
Þakkar Hjartavernd lífsgjöfina. „Ég hvet alla til að huga að hjartanu, það er sko ekkert að borga nokkra þúsundkalla fyrir skoðun ef það verður til þess að bjarga lífi manns. Ég var heppinn að fá ekki rauða spjaldið í þetta sinn, bara gult.“

 

Related Posts