Ég ákvað að skella mér niðrí bæ á miðvikudaginn ásamt vinum mínum. Við skelltum okkur á Enska barinn og pöntuðum okkur einn bjór. Það var ekkert sérstakt í gangi, enda miðvikudagur, og því var planið aldrei annað en að fá sér í mesta lagi þrjá bjóra og spjalla saman. Það endaði ekki þannig.

Einhvern veginn enduðum við óvart allir á flöskuborði. Hvað er flöskuborð? Jú það er þegar þú kaupir þér líter af vodka, oftast Smirnoff sem kostar 7.499 krónur í ríkinu, nokkra Red Bull eða eitthvert gos og borgar litlar fjörutíu þúsund krónur fyrir. Þetta hljómar geðveikislega, ég veit allt um það. Það kemur kannski spánskt fyrir sjónir margra þegar ég skrifa að við höfum óvart endað á flöskuborði en það er samt satt, þetta var alveg óvart.

Þannig er mál með vexti að þar sem við sitjum saman, spjöllum og sötrum einn kaldann, ákveður danskur hermaður að setjast hjá okkur. Hann er vel í glasi en nær þó að æla því út úr sér að hann sé Dani og í fríi frá hernum þessa stundina. Það næsta sem ég veit er að barþjónninn kemur með flösku af Smirnoff-vodka, klaka, glös og gos á borðið okkar. Við spyrjum strax hver hefði pantað öll þessi ósköp á miðvikudegi en svarið lá í augum uppi.redbull-alcohol

Þessi danski hermaður hafði ákveðið með sjálfum sér að það væri eflaust góð hugmynd að spreða fjörutíu þúsund krónum í fimm íslenska stráka sem hann hafði aldrei séð áður. Við spurðum manninn af hverju hann hafi keypt fyrir okkur flöskuna en aldrei fengum við almennilegt svar. Hann muldraði eitthvað á dönsku og sneri sér svo að öðru. Það síðasta sem við heyrðum frá þessum manni var; „Dansk, flask, godt, tak,“ og svo gekk hann út.

Nú voru góð ráð dýr. Saman sátum við fimm, með heilan líter af vodka og klukkan korter gengin í eitt. Það lokaði sem sagt eftir 45 mínútur og það var í raun bara eitt í stöðunni. Við þurftum að drekka þennan vodka.

Þegar einhver réttir þér flösku og gengur í burtu er ekkert annað í boði en að drekka. Mig minnir þó að þessi hugsun sé nefnd eitthvað ákveðið, kemur ekki upp í hugann akkúrat núna. Saman sátum við þá í hring og sulluðum þessari flösku í okkur. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef farið á fyllerí á miðvikudegi, það er ef miðvikudagurinn er ekki frídagur, en eflaust ekki í síðasta skipti. Það mun þó ekki koma fyrir aftur á næstunni að ég skelli mér á flöskuborð og mæti í vinnuna daginn eftir. Fimmtudagar eru oftast frábærir en þessi var erfiður.

Í Ófærð var talað um að helvítis Færeyingurinn hafi verið hættulegur en sá átti ekki roð í minn danska kauða. Daninn kom fimm ungum og gröðum karlmönnum í erfiða stöðu. Eigum við að taka sénsinn á að klára þessa flösku, skoða hvað bærinn hefur upp á að bjóða á þessu miðvikudagskvöldi og eiga erfiðan fimmtudag fyrir höndum eða ekki. Svarið var einfalt …

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts