Þórður Örn Guðmundsson (67) kátur á bakkanum:

Hann er sídansandi og lætur sér ekki nægja að dansa á dansgólfi, heldur líka í sundi. Þórður Örn Guðmundsson sundlaugarvörður kennir zumba-dans í Sundlaug Kópavogs sem nýtur mikilla vinsælda undir blikkandi diskóljósum í takt við tónlistina.

Busl „Ég tók réttindi sem aqua zumba-kennari árið 2012 og hef gripið í að kenna af og til síðan. Aqua zumba er alveg hreint frábær hreyfing og hentar öllum. Vatnið eykur mótstöðu við hreyfinguna og þannig fá iðkendur meira út úr æfingunni. Tónlistin er mjög skemmtileg og fjörug og svo erum við með diskóljós sem blikka í takt við hana, þannig að þetta verður sannkallað partí,“ segir Þórður sem starfar sem sundlaugarvörður í Sundlaug Kópavogs.

Sund er án efa ein vinsælasta afþreying Íslendinga. Fólk á öllum aldri stundar sundlaugarnar reglulega. Sumir komast ekki lengra en í pottana en aðrir iðka sund sem sína helstu líkamsrækt. Sundlaugarnar njóta mikilla vinsælda á meðal ferðamanna sem eiga oft í vandræðum með að fylgja þeim reglum sem gilda á sundstöðum.

„Ferðamenn eiga oft erfitt með að hlýða reglum um notkun síma í sundklefanum og svo er eilíf barátta við að koma þeim í sturtu áður en þeir fara út í laug. Það er stundum öskrað á okkur en við höfum heimild til að reka fólk upp úr ef það fylgir ekki reglunum.“

Með dansdellu

Þórður er ákafur zumba-dansari og nýtir hvert tækifæri sem hann fær til að dansa.

„Ég er með dansdellu og var í Kramhúsinu í gamla daga í afródansi og tangó. Ég æfði samkvæmisdansa hjá Sigurði Hákonar og hef verið í salsa og flestu sem ég kemst í. Núna er það zumba sem er aðalmálið, það er alltaf gaman í zumba, þetta er eilíft partí og endalaust fjör. Það skemmtilegasta er að allir geta verið með, það skiptir engu máli hvað maður er gamall, snýst bara um gleðina,“ segir Þórður og hvetur alla til að kíkja í sund, ekki bara til að synda, heldur líka til að dansa.

þórður sundlaugavörður zumba, dans, vinna,

MEÐ ALLT Á HREINU: Þórður hefur starfað sem sundlaugarvörður í Sundlaug Kópavogs í nokkur ár. „Ég missti vinnuna í hruninu en ég var áður hjá BYKO. Þegar ég sá þetta auglýst ákvað ég að sækja um og hér er ég sáttur.“

Séð og Heyrt – líka í sundi!

 

 

 

Related Posts