Magnea Jónasdóttir (56) er mögnuð:

Hún hellir upp á kaffi og galdrar fram dýrindistertur fyrir gönguglaða ferðamenn sem heimsækja Reykjadal. Magnea Jónasdóttir rekur Dalakaffi sem er lítið og huggulegt kaffihús í Reykjadal í Hveragerði. Á milli uppáhellinga og kökubaksturs stundar Magnea æsilegan dans sem er að hennar sögn lífsnauðsynlegur.

magnea

DANSINN ER LÍFSNAUÐSYNLEGUR: „Vinkona mín segir að ég verði svo leiðinleg ef ég fer ekki í danstíma. Ég er alveg sannfærð um að dansinn hafi komið mér aftur til heilsu.“

Danskaffi „Vinkona mín segist heyra það á röddinni hvort að ég hafi farið í dans. Hún segir að ég verði svo leiðinleg ef ég fari ekki í danstíma,“ segir Magnea Jónasdóttir sem lætur verkin tala svo um munar.

Magnea er búsett við Reykjadal og eru örfá skref á milli heimilisins og kaffihússins. Gönguleiðin inn eftir dalnum er vinsæl og er áætlað að um 10.000 manns komi þangað á ári hverju. Hún og fjölskylda hennar stofnuðu kaffihúsið árið 2012 og hefur verið mikið að gera frá fyrsta degi.

„Við opnum á páskum og erum með opið fram í október en þess á milli tek ég á móti hópum sem vilja gera sér glaðan dag. Staðsetningin er einstök og náttúrufegurðin mikil, það er stutt hingað frá höfuðborginni og gönguleiðin er við allra hæfi. Hingað kemur fólk á öllum aldri og af öllum þjóðernum.“

Hvergerðingar er að öllu jöfnu sáttir við nálægðina við náttúruna en eru jafnframt meðvitaðir um dynti hennar en í Hveragerði skelfur jörð reglulega, afleiðingarnar eru misalvarlegar en það þekkir Magnea og hennar fólk af eigin raun.

„Við misstum húsið okkar í jarðskjálftanum 2008, það var rifið árið 2010. Við leigðum um tíma í Hveragerði fórum stutt til Reykjavíkur en komum aftur hingað, hér er best að vera. Við ákváðum að byggja hér í Reykjakoti og fluttum hús frá Borg í Grímsnesi. Þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig, ég hringdi í flutningaþjónustu á mánudegi og húsið var komið í hlað á miðvikudegi. Þetta sumar flutti ég þrjú hús, ég var komin með klippikort hjá JÁ-verki. Jarðskjálftinn opnaði sem sagt margar leiðir þrátt fyrir allt.“

Það fer ekki fram hjá neinum sem hittir Magneu að þar er orkumikil kona á ferð. Hún leggur hart að sér að íslenskum sið og er ekki fyrst til að leggjast þegar árleg flensa leggst á þjóðina. Ósérhlífnin hafði alvarlegar afleiðingar og svo fór að veturinn 2009 upplifði hún líkamlegt gjaldþrot.

„Ég fékk alvarlega heilabólgu eftir flensu og upp úr því greindist ég með sykursýki. Ég hunsaði flensuna algjörlega, lagðist þrisvar en aldrei nógu lengi til að ná henni almennilega úr mér. Ég var í svo skemmtilegu verkefni að ég gat ekki hugsað mér að liggja en það hafði alvarlegar afleiðingar. Eftir greininguna var mér ráðlagt að hafa hægt um mig í heilt ár en þeir sem þekkja mig vita að það er hægara sagt en gert. Ég hlýddi því takmarkað og gerði lítið annað en að sækja kaffihús á meðan ég var að ná mér. Ef mig langaði í gott kaffi þá brunaði ég í bæinn, settist á kaffihús og sötraði kaffi með eyrnatappa í eyrunum til að hlífa mér við áreiti. Í dag segir maðurinn minn að það sé gott að ég eigi kaffihús því hann hitti mig oftar. Það er kannski ekki tilviljun að ég eigi kaffihús. Ég er líka óttalegt kaffisnobb.“

magnea

GAMAN AÐ FARA ÚT FYRIR KASSANN: „Ég hef gaman af því að fara út fyrir kassann og ögra sjálfri mér. Ég hef dansað burlesqe og magadans í rúm tíu ár en ég hef alltaf verið dansfíkill.“

Veikindin höfðu margvíslegar afleiðingar og sykursýkin olli breytingum á þyngd og dró úr allri orku.

„Ég held sykursýkinni niðri með mataræði og ég fæ orku úr dansinum. Ég var algjör Hollýrotta hér áður fyrr, ég djammaði alveg af lífi og sál. Ég mætti í Hollywood eins oft og hægt var og dansaði niður marga hælaskó. Ég var fyrst og fremst að sækjast í það að dansa og sakna þess að það er enginn skemmtistaður fyrir gamlar Hollýskvísur eins og mig þar sem að dansinn er aðalmálið.
Ég finn að ég endurnýjast algjörlega við það að dansa. Ég byrjaði í magadansi árið 2005 en hef líka verið að dansa Beyoncé-dansa og burlesqe. Ég keyri suður í öllum veðrum og þegar mest var fór ég fjórum sinnum í viku í dans. Ég er sannfærð um að ég hafi dansað heilsuna til baka. Vinkona mín segir að það heyrist á röddinni þegar ég hef ekki dansað lengi. Fjölskylda mín er sammála því að dansinn bæti geðið og skapið, enda er ég alltaf í góðu skapi.“

magnea

UNAÐSREITUR: „Hér er best að vera, ég bý rétt við kaffihúsið og því er stutt í vinnuna.“ Magnea rekur kaffihúsið ásamt fjölskyldu sinni.

Sjáið allar myndirnr í nýjasta Séð og Heyrt!

Related Posts