Allt frá fjórða áratugnum hafa dansmyndir notið mikilla vinsælda og svo virðist sem ný dansmynd komi út á tveggja ára fresti. Ólíkt söngvamyndum, þar sem söngurinn hefur ekki bein áhrif á söguþráðinn og persónurnar syngja bara í tíma og ótíma, þá fjalla dansmyndir um dans og iðkendur hans: ástríðuna, kröfurnar og streðið. Hér eru nokkrar klassískar dansmyndir sem gaman er að horfa á aftur og aftur.

Bíómyndir, dansmyndir

 

Step Up

Tyler Gage er „street“-dansari í frístundum sem er gert að afplána samfélagsþjónustu í dansskóla eftir að hafa unnið þar skemmdarverk ásamt félögum sínum. Í fyrstu skúrar hann aðeins gólfin en þegar upprennandi dansari, Nora, missir dansfélaga sinn nokkrum vikum fyrir stóra keppni er Tyler fenginn til að koma í hans stað. Þrátt fyrir að vera algjörar andstæður tekst þeim að læra hvort af öðru og verða ástfangin í leiðinni. Fjölmargar Step Up-myndir hafa fylgt í kjölfarið en þessi fyrsta er best.

 

 

Center StageBíómyndir, dansmyndir

Tólf upprennandi ballettdansarar frá ýmsum stigum þjóðfélagsins hefja nám í American Ballet Academy í New York í von um að komast að hjá dansflokknum í lok árs. Jody hefur ástríðuna en ekki réttu líkamsbygginguna né nógu góða tækni. Maureen er hins vegar með tæknina á hreinu og á framtíðina fyrir sér en er orðin langþreytt á dansinum. Eva hefur alla burði til að verða aðalballerína en er með allt á hornum sér og rífur kjaft við kennarana. Þær reyna, ásamt karldönsurunum, að takast á við kröfurnar og rembast við að komast í sem best hlutverk í lokasýningunni.

 

 

Black SwanBíómyndir, dansmyndir

Nina er dansari í New York City-ballettinum og allt hennar líf snýst um ballettdans. Þegar listræni stjórnandinn ákveður að skipta út aðalballerínunni í opnunarstykki vetrarins, Svanavatninu, þá er Nina fyrsti kostur í hlutverkið. Nýr dansari, Lily, veitir henni þó harða samkeppni. Nina passar fullkomlega í hlutverk hvíta svansins en Lilly er fullkomin í hlutverk svarta svansins. Frábær mynd þar sem ótrúleg dansatriði tvinnast saman við magnaðan söguþráð með tryllisívafi.

 

 

Swing TimeBíómyndir, dansmyndir

Fred Astaire leikur Lucky Garnett sem leggur stund á bæði dans og fjárhættuspil af kappi. Hann er trúlofaður hinni fögru Margaret Watson en hefur sínar efasemdir um brúðkaupið og hjónabandið sem verður til þess að hætt er við athöfnina. Tilvonandi tengdafaðir hans segir honum að hann geti fengið annað tækifæri ef hann geti þénað tuttugu og fimm þúsund dollara svo Lucky heldur til New York til að freista gæfunnar. Þar hittir hann hinn heillandi danskennara Penny Carroll, sem leikin er af Ginger Rogers, og þá breytist margt.

 

 

FootlooseBíómyndir, dansmyndir

Ren McCormack flytur frá stórborginni Chicago til smábæjar í miðríkjunum. Eins og það sé ekki nógu slæmt þá kemst hann að því að yfirvöld bæjarins hafa bannað rokk og dans. Hann á erfitt með aðlagast samfélaginu en nær engu að síður að vinna hylli aðalskvísu bæjarins, Ariel, sem er jafnmikill uppreisnarseggur og hann. Saman reyna þau að hrista upp í fólkinu og halda alvöruball en prestur bæjarins og faðir Ariel reynir að standa í vegi þeirra.

 

 

Saturday Night FeverBíómyndir, dansmyndir

Líf Tony Manero er ekki upp á marga fiska en hann vinnur í málningarvöruverslun og býr enn í foreldrahúsum í Brooklyn. Hann lifir fyrir helgarnar því þá fer hann ásamt vinum sínum á klúbbinn og dansar diskódans. Þegar tilkynnt er um stóra danskeppni á staðnum ákveður hann að slá til og fær hina fögru Stephanie til að keppa með sér, þrátt fyrir að hún hafi sínar efasemdir. Þau æfa saman öllum stundum en eins og oft vill verða þá verða þau fljótt ástfangin.

 

 

Dirty DancingBíómyndir, dansmyndir

Frances „Baby“ Houseman fer með fjölskyldu sinni í sumarfrí til Catskills-fjalla í New York-fylki. Hún hefur alist upp við góð efni og allir búast við að hún geri allt sem búist er við af góðum stelpum. Öllum að óvörum verður Baby hins vegar ástfangin af danskennara dvalarstaðarins, Johnny, sem á gerólíkan bakgrunn. Þau byrja að dansa saman, gegn vilja föður hennar, staðráðin í því að sigra í lokahæfileikakeppni sumarsins. Fræga lyftan undir lokin svíkur engan.

Related Posts