Stangveiðimenn byrjuðu að bleyta færi eftir veturinn 1. apríl en ég læknaðist blessunarlega af vorveiðidellunni fyrir mörgum árum. Fram að því hafði ég alltaf byrjað veiðar fyrsta dag vertíðarinnar oftast með frekar döprum árangri, enda fiskurinn enn hálffrosinn í ánum.

 

Árið sem ég hætti að stunda vorveiði mætti ég stundvíslega við upphafi vertíðar á bakka Sogsins og það var kalt en stillt veður. Hitinn rétt ofan við frostmark og snjór á bökkunum. Spennan var engu að síður í hámarki enda var ég búinn að bíða lengi eftir þessum degi. Eftir að hafa tekið nokkur köst frá landi taldi ég mig sjá hreyfingu í vatnsborðinu talsvert lengra úti í ánni, eða nánast við bakkann hinum megin. Áin var um 50 metra breið á þessum stað og mér gekk erfiðlega að koma agninu fyrir fiskinn. Ég óð því aðeins lengra út í ána en dreif samt ekki nógu langt. Ég var kominn með „blod paa tanden“ og vissi að ég næði fiskinum ef ég kastaði bara aðeins lengra. Græðgin fékk mig til að taka tvö skref í viðbót en straumur fljótsins var þungur þar sem ég stóð með vatnið upp í mitti.

 

Ég hugðist fikra mig aðeins til baka en þá spólaðist mölin undan fótunum á mér og ég fékk ekki við neitt ráðið. Straumurinn þreif mig með sér og ég barst lengra og lengra út í frostkalt fljótið þangað til aðeins höfuðið á mér stóð upp úr vatninu. Mér voru allar bjargir bannaðar og ég vissi að þetta var búið. Það er undarleg tilfinning að standa frammi fyrir dauðanum og hafa ekki séns á að gera neitt í málinu. Mér fannst lífið í hæsta máta ósanngjarnt að leggja þetta á konuna mína sem misst hafði bróður sinn fyrir aldur fram nokkrum árum áður. Staða mín var alveg fáránleg. Var þetta líf mitt eftir allt? Rosalega var það tilgangslaust og ég komið fáu í verk. Þetta var gjörsamlega út í hött.

 

Skarpir lesendur átta sig líklega á að ég drukknaði ekki þennan dag því mér til undrunar lenti ég á grynningu neðar í ánni og gat staulast í land. Ég var reynslunni ríkari og hafði í fyrsta og eina skiptið á ævinni upplifað endalokin og tilfinninguna að vera dauðlegur. Læknaði það mig af græðginni? Nei. Lifi ég hvern dag til fulls líkt og hann sé einstakur? Nei. Hvað lærði ég þá á þessu? Líklega lítið líkt og persónur og leikendur í fréttum síðustu viku. Við erum víst bara mannleg. Ef til vill vonlausir fávitar.

Loftur Atli Eiríksson

Related Posts