Bíddu, eru þetta okkar myndir?

Þetta er það sem gerist þegar markaðsmenn taka lítt þekktar bíómyndir og reyna að draga úr þeim sölupunktinn á heimsvísu. Hvort sem það stangast á við sjálft innihaldið eða ekki er að sjálfsögðu aukaatriði …

 

BOND-EFTIRHERMA Á LEIK


Glæpamyndin Svartur á leik gerði allt vitlaust á sínum tíma þegar hún leit dagsins ljós og halaði tæplega 60 þúsund gestum í kvikmyndahúsin. Margt þótti bera af í henni á sínum tíma: frammistaða Damons Younger, fáklædd María Birta, sena með kynsvalli og ýmis annar gauragangur. Það sem myndin verður seint nefnd fyrir annars vegar, eru sprengingar, byssubardagar og bílaeltingaleikir. Íslensku kynningarplakötin fyrir myndina hafa greinilega ekki þótt nógu safarík til að trekkja að erlendis, þar sem ýmsar ólíkar týpur af plakötum hafa fundist víða. Á einu þeirra sést óprúttinn nagli með útréttar byssur sem kom ekki einu sinni fyrir í kvikmyndinni. Sum staðar ber hún heitið Black‘s Game og annars staðar (t.d. í Japan) Outlaw. Eitthvað er nú þó verið að villa fyrir áhorfendumum innihaldið. Er þetta allt í einu orðin hasarmynd?

 


 

INGVAR OG KRUKKURNAR

Varla er það mikið leyndarmál að hinn stórvinsæli sakamálatryllir Baltasars Kormáks, Mýrin, beri heitið Jar City á erlendri grundu. Aftur á móti kemur það á óvart hvernig breska hulstrinu er háttað. Sést þarna grimmilegur Ingvar Sigurðsson með afskorna hönd í krukku í forgrunninum. Björn Hlynur og Ágústa Eva eru hvergi finnanleg. Ætli það sé verið að gefa í skyn að Ingvar sé kannski morðinginn?

 

 

 

 


KULDAHROLLUR MEÐ KJÁNAHROLLI

Hrollvekja Reynis Lyngdal, Frost, frá árinu 2012 hlaut misgóðar viðtökur í besta falli og dræma aðsókn í bíó. Þegar leið að því að dreifa myndinni á heimsvísu hafa markaðsdeildir eitthvað tekið sig saman og reynt að pakka svellkalda floppinu í óhugnanlegri umbúðir. Verst er að kápan vekur upp fleiri loforð heldur en afraksturinn stendur undir.

 

 

 

 


 

SPJÓTIÐ SEM SLÁTRAR

Ekki eru til margar íslenskar kvikmyndir sem bera eingöngu erlenda titla, en ein sú mynd, Reykjavík Whale Watching Massacre, hlaut kaldhæðnislega nýjan titil þegar kom að því að gefa gripinn út á DVD í Evrópu. Fékk hún þá allt í einu heitið Harpoon, sem vekur upp álíka stórt spurningarmerki og ákvörðunin að skella nafni Gunnars Hansen á kápuna. Helgi Björns á nú annað skilið, Gunnar átti ekki nema nokkurra mínútna skjátíma í þessu hroðaverki.

 

 

 


 

UPP MEÐ HENDUR

Fyrir nokkrum árum síðan hlaut spennumyndin Reykjavík-Rotterdam andlitslyftingu í Hollywood undir nafninu Contraband. Þá ákvað Baltasar Kormákur að endurgera mynd Óskars Jónassonar og kynna fyrir heiminum sömu sögu með þekktari andlitum og á stærri striga. Frummyndin hefur þó ekki náð að festa sér í sessi almennilega, þó plakötin hafi reynt sitt albesta til að sýna fram á það að fólki væri hótað lífláti með byssum í myndinni. Hver má eiga það vil sjálfan sig hvort nafnið er svalara: „Reykjavík-Rotterdam“ eða „Illegal Traffic“.

 

 

TEXTI: TÓMAS VALGEIRSSON

Related Posts