Jón Óttar Ólafsson (40) er löggan sem var með Embætti sérstaks saksóknara á hælunum:

 

Jón Óttar Ólafsson steig fram sem glæpasagnahöfundur í fyrra með skáldsögunni Hlustað. Í bókinni byggði Jón Óttar á víðtækri reynslu sinni en hann er doktor í afbrotafræðum, hefur starfað hjá lögreglunni, í fjárfestingabanka og hjá Embætti sérstaks saksóknara. Fyrir tveimur árum kærði vinnuveitandi hans, Embætti sérstaks saksóknara, hann fyrir brot á þagnarskyldu í starfi. Reynsla Jóns Óttars setur ákveðið mark á skáldskap hans og á næstu vikum kemur framhaldið af Hlustað út og þar syrtir enn frekar í álinn hjá aðalpersónunni.

HUNDELTUR: Jón Óttar náði að halda ró sinni þegar sérstakur saksóknari, fyrrverandi yfirmaður hans, snerist gegn honum og kærði fyrir brot í starfi.

HUNDELTUR:
Jón Óttar náði að halda ró sinni þegar sérstakur saksóknari, fyrrverandi yfirmaður hans, snerist gegn honum og kærði fyrir brot í starfi.

Glöggur Jón Óttar Ólafsson hefur verið í eldlínunni undanfarið og bar sérstakan saksóknara nýlega þungum sökum í viðtali í Fréttablaðinu. Hann vakti athygli á meintum ólöglegum hlerunum embættisins á símtölum lögmanna og skjólstæðinga þeirra. Fyrir tveimur árum kærði Sérstakur hann til ríkissaksóknara fyrir brot á þagnarskyldu í starfi en kærunni var vísað frá.

„Ég var kærður fyrir tveimur árum en það mál fór á annan veg en þeir áttu von á og mér finnst rétt að leggja þetta inn í umræðuna,“ segir Jón Óttar. Í fyrra sendi hann frá sér sína fyrstu sakamálasögu, Hlustað, sem hefði mátt fá meiri athygli, ekki síst þar sem í henni lýsir hann ítarlega hversu auðvelt lögregla á með að hlera samtöl fólks án sérstakra heimilda.

„Ég var nú reyndar svolítið hissa á að Hlustað skyldi ekki vekja meiri umræðu um hleranir og að fólk spyrði sig ekki að því hvort þetta gæti virkilega verið svona. Að með því að opna eitt pdf-skjal í tölvupósti sé hægt að hlera síma hvers sem er. Það er grundvallargalli í kerfinu og alveg ómögulegt að fylgjast með því hvort lögreglan hlusti ólöglega eða ekki.“

Sérstaða Hlustað var einmitt fyrst og fremst fólgin í yfirgripsmikilli og haldgóðri þekkingu höfundarins á rannsóknum sakamála og þá ekki síst efnahagsbrota og reynslubanki Jóns Óttars er ekki ónýtur þegar kemur að því að skrifa reyfara þar sem morð, fíkniefnaviðskipti, aflandseyjasvindl með milljarða, lögreglan og Embætti sérstaks saksóknara koma við sögu.

Framhald Hlustað er væntanlegt þar sem áfram segir af hremmingum rannsóknarlögreglumannsins Davíðs sem eltir nú útrásarfé út um víða veröld. „Bankasagan heldur áfram úr síðustu bók en að megninu til er þetta sjálfstæð saga. En Davíð er enn að elta peningana og lendir í enn meiri vandræðum núna.“

Davíð lendir upp á kannt við yfirmenn sína hjá lögreglunni og sjálfur hefur Jón Óttar fengið sinn skerf af átökum við yfirboðara sína. Hann vill þó ekki meina að persónuleg reynsla hans vegi endilega mjög þungt í skáldskap hans. „Þetta er líka bara klassísk aðferð til þess að búa til spennu. Davíð er ekkert sérstaklega vinsæll meðal yfirmanna sinna í þessum bókum og í þeirri nýju lendir hann í yfirgengilegum vandræðum.“ Eins og höfundurinn hefur gert en báðir hafa þeir Jón Óttar og Davíð rekið sig á að samtryggingin í kerfinu og efstu lögum er mikil.

„Það tekur á að vera rannsakaður og fá á sig ákæru en þetta venst alveg ótrúlega og hasarinn núna hefur engin áhrif á mig,“ segir Jón Óttar þegar hann er spurður hvernig gangi að einbeita sér að skrifum á meðan maður er sjálfur til rannsóknar. „Ég vinn líka sjálfstætt á daginn og sinni einkamálum viðskiptavina minna á þessu sviði og næ að einbeita mér að því að leysa vandamál bæði í raunveruleikanum og skáldskapnum.“

Related Posts