Bill Clinton (68) hefur löngum þótt fjölþreifinn:

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur dregist inn í kynlífshneyksli Andrésar Bretaprins sem hefur verið vændur um að hafa fyrir margt löngu misnotað stúlku sem þá var undir lögaldri og kynlífsþræll auðmannsins Jeffrey Epstein.

Epstein þessi hefur ítrekað komist í kast við lögin fyrir að misnota stúlkur á unglingsaldri kynferðislega en subbuleg mál honum tengd skekja nú Buckingham-höll þar sem Virginia Roberts, sem var á yngri árum í kynlífsánauð hjá Epstein, hefur sagt prinsinn hafa misnotað sig í þrígang í boði Epsteins.

Við skoðun á tölvum og gögnum frá Epstein kom í ljós að hann var með símanúmer Bills Clinton á hraðvali auk þess sem fyrir liggur að lengi var góður kunningsskapur á milli þeirra. Clinton flaug á sínum tíma oft með einkaþotu Epsteins en árið 2005 virðist hann hafa slitið á allt samband við auðdólginn, að því er virðist í kjölfar þess að Epstein var þá í fyrsta sinn handtekinn fyrir að þiggja erótískt nudd hjá stúlku undir aldri.

HRESS: Clinton-hjónin í góðum hópi á Íslandi en Bill hefur einnig tilhneigingu til þess að vafra í vondum félagsskap.

HRESS: Clinton-hjónin í góðum hópi á Íslandi en Bill hefur einnig tilhneigingu til þess að vafra í vondum félagsskap.

Clinton var einnig góður vinur Ghislaine Maxwell, dóttur fjölmiðlamógúlsins Robert Maxwell, en hún er sökuð um að hafa verið einhvers konar mellumamma fyrir Epstein. Ghislaine var til dæmis gestur í brúðkaupi Chelsea Clinton, dóttur Bills og Hillary, árið 2010.

Það er því ekki nóg með að sukk og svínarí Epsteins hafi sett Elísabetu drottningu í uppnám heldur má ætla að Bill og Hillary sé lítt skemmt. Tengslin eru vitaskuld vandræðaleg fyrir Bill sem hefur í gegnum árin þótt eiga erfitt með að hemja sig í návist kvenna og enn eitt kynlífshneykslið er eitthvað sem Hillary kærir sig ekki um þegar hún íhugar að gera aðra atrennu að embætti forseta Bandaríkjanna.

Related Posts