Binni blómasali (71) gefst ekki upp:

Búið er að loka Blómaverkstæði Binna á horni Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis þar sem Hendrik Berndsen rak vinsæla verslun með blóm og gjafavöru í hartnær 30 ár. Allt hefur sinn tíma en Binni blómasali er ekki hættur.

IMG_1081

VANDVIRKNI: Vel skal vanda það sem lengi skal standa.

Í blóma „Á meðan heilsan er í lagi hjá okkur hjónunum, börnum og barnabörnum verður allt annað hjóm,“ segir Binni sem heldur áfram starfsemi sinni að hluta á litlu verkstæði uppi í Árbæ þar sem áður var apótek. Þar fékk hann fimmtán fermetra verkstæði þar sem hann getur sinnt gömlum viðskiptavinum varðandi blómaskreytingar í brúðkaup og annað.

„Ég er búinn að vera í þessum blómabransa í 60 ár, fæddist inn í hann, þar sem áður hét Blóm og ávextir, þannig að það er dálítið merkilegt að byrja nú upp á nýtt. Reyndar upplifi ég mig sem ungan mann á áttræðisaldri sem er að byrja upp á nýtt,“ segir Binni sem stendur vaktina eins og áður með eiginkonu sinni, Ástu Kristjánsdóttur.

Að sjálfsögðu sér Binni eftir miðbænum nú þegar hann starfar í Árbænum en ekki verður við allt ráðið:

„Miðbærinn er að deyja sem verslunarstaður smærri kaupmanna. Þar er að gerast það sama og á Spáni þegar búðir með vindsængur og bolta ýttu öðrum og eldri kaupmönnum til hliðar. Nú eru bara lundabúðir í miðbæ Reykjavíkur,“ segir Binni hress, þrátt fyrir allt, og ef einhvern vantar þjónustu með blóm og skreytingar þá er auðvelt að hringja í Binna í síma 561 30 30.

IMG_1091

PÖNTUN: Tekið á móti pöntun í erli dagsins.

Related Posts