Sérkennilegi og öri hæfileikamaðurinn Quentin Tarantino er flestum vel kunnugur fyrir leikstjórnarhæfileika sína. Hann er hvað þekktastur fyrir að blanda saman grófu ofbeldi og húmor en þróaði kvikmyndastíl sinn á óhefðbundinn máta.

 

Quentin Jerome Tarantino fæddist í Knoxville, Tennessee, þann 27. mars fyrir fimmtíu árum síðan. Faðir hans, Tony Tarantino, var leikari og áhugatónlistarmaður en móðir hans, Connie McHugh, var hjúkrunarfræðingur. Genablanda Quentins er fjölbreytt en faðir hans er af ítölskum ættum en móðir hans var af írskum og Cherooke-indíánaættum. Quentin var alinn upp af móður sinni en foreldrar hans skildu áður en hann fæddist. Hann á yngri hálfbróðurinn Ron. Þegar Quentin var tveggja ára flutti hann til Torrance í Kaliforníu og síðar í Harbor City-hverfið í Los Angeles. Hann stundaði nám í Fleming Junior High School í Lomita og kynntist þar leiklistinni. Quentin tók aðeins eitt ár í menntaskóla en hætti til að fara í leiklistarnám við James Best Acting School. Það nám hélt þó ekki athygli hans og eftir tvö ár hætti hann en lagði mikla áherslu á það að hann ætlaði að halda sambandi við alla leiklistarvini sína.

 

Fyrsta filman skemmdist í bruna

Quentin lærði iðn sín að mestu þegar hann vann sem afgreiðslumaður á myndbandaleigu en ekki í kvikmyndaskóla eins og fyrri kynslóðir bandarískra kvikmyndagerðarmanna. Þar ræddi hann kvikmyndir af miklum eldmóð við vin sinn, Roger Avary, sem deildi þessum mikla kvikmyndaáhuga með honum. Quentin veitti því sérstaka athygli hvaða kvikmyndir fólk var helst að velja og hefur vitnað í þetta framferði sitt sem ákveðinn innblástur að leikstjórnarferli sínum.

„Þegar fólk spyr mig hvort ég hafi farið í kvikmyndaskóla neita ég því og segi því að ég hafi farið í kvikmyndir.“

Quentin byrjaði feril sinn sem leikari en stærsta hlutverk hans var í einum þætti af The Golden Girls þar sem hann lék Elvis-eftirhermu.

Quentin skrifaði kvikmyndahandrit, ásamt félaga sínum, Craig Hamann, árið 1984. Quentin varð mjög upptekinn af þessu verkefni sem hann á endanum leikstýrði. Myndin, sem fékk heitið My Best Friend´s Birthday, var tekin á 16 mm filmu og stóðu tökur yfir næstu fjögur árin. Félagarnir léku báðir í myndinni, ásamt nokkrum félögum þeirra af myndbandaleigunni og úr leiklistartímum. Upprunalega filma myndarinnar var 70 mínútur að lengd en upp kom bruni á lokastigi myndvinnslunnar sem varð til þess að aðeins 36 mínútur „lifðu af“. Kvikmyndin hefur aldrei verið gefin út en hefur verið sýnd á þó nokkrum kvikmyndahátíðum. Sumir af leikurum myndarinnar hafa birst í öðrum verkefnum Quentins sem er þekktur fyrir að nota sömu leikarana aftur. Vert er að minnast á það að kvikmyndahandritið átti eftir að verða undirstaða kvikmyndarinnar True Romance.

 

Hnyttin samtöl og öfgakennt ofbeldi

Quentin skapaði sér sérstöðu sem leikstjóri nær samstundis þegar hann kom fram á sjónarsviðið árið 1992 með fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd, Reservoir Dogs. Kvikmyndin, sem var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni, sló strax í gegn og fékk jákvæð viðbrögð frá gagnrýnendum. Reservoir Dogs átti eftir að setja tóninn fyrir komandi verk Quentins en kvikmyndastíl hans mætti lýsa sem djarfri blöndu af poppmenningu og listrænum kvikmyndum.

Verk hans hafa aðallega verið spennutryllar sem hægt er að auðkenna á afar klókum samtalsflækjum og öfgakenndu ofbeldi og þannig var hans fyrsti smellur svo sannarlega. Í kjölfar þessarar velgengni fékk hann tilboð að leikstýra ýmsum verkefnum, eins og Speed og Men In Black. Hann hafnaði þeim og fór þess í stað til Amsterdam til að vinna að handriti sínu að Pulp Fiction sem kom út árið 1994. Kvikmyndin var tilnefnd til sjö Óskarsverðlauna, þar á meðal sem besta kvikmyndin. Hún vann þó aðeins ein þeirra en Quentin fékk Óskarsverðlaun fyrir besta frumsamda kvikmyndahandritið en verðlaunum deildi hann með Roger Avary. Hann fékk einnig Gullpálmann og ætti þetta að teljast ágætisbyrjun hjá kappanum.

Næsta mynd hans var Four Rooms sem var virðingarvottur hans til eins af þáttum Alfreds Hitchcock sem Steve McQueen lék í. Kvikmyndin, sem fékk slaka dóma, var samstarfsverkefni Quentins og þriggja annarra kvikmyndagerðarmanna. Þeirra á meðal var Robert Rodriguez en hann leikstýrði kvikmyndinni From Dusk Till Dawn sem Quentin skrifaði handritið að, ásamt því að leika í henni. Síðasta kvikmyndin sem Quentin gerði á tíunda áratugnum var Jackie Brown en hún var annar virðingarvottur en nú að ákveðinni gerð kvikmynda sem kallaðar voru „blaxploitation“ kvikmyndir. Þeim kvikmyndum var á sínum tíma beint að áhorfendum af ákveðnum kynþætti en línurnar á milli kynþátta sem horfðu á þær dofnuðu fljótt.

 

Uma Thurman heilladísin hans

Kvikmyndir Quentins héldu áfram að vera gífurlega blóðugar en hnyttnar næsta áratuginn og ber þar helst að nefna Kill Bill-myndirnar tvær. Quentin leitaði innblásturs í kvikmyndastíla eins og Wuxia (kínverskar bardagalistir), Jidaigeki (japanskar period-kvikmyndir), spagettívestra og ítalskar hryllingsmyndir. Quentin var meðleikstjóri í tveimur kvikmyndum með Robert Rodriguez en það voru þær Sin City og Grindhouse. Árið 2009 var gott fyrir buddu Quentins en þá kom út mynd hans Inglorous Bastard en sú mynd varð gróðvænlegasta kvikmynd hans, enda fór hún beint í fyrsta sæti yfir vinsælustu myndirnar um heim allan.

Síðasta kvikmynd Quentins var Django Unchained og fyrir hana hreppti hann Óskarsverðlaun fyrir besta frumsamda handritið. En þó að kvikmyndir Quentins fái ekki alltaf góða dóma þá skiptir það ekki höfuðmáli. Ef þær fá slaka dóma þá myndast fljótt ákveðinn dýrkendahópur í kringum hana og ef hún fær góða dóma þá verður hún yfirleitt hlaðin verðlaunum fyrr en varir.

Quentin, sem er barnlaus, hefur verið orðaður við nokkrar hæfileikakonur, eins og Miru Sorvino, Sofiu Coppola, Julie Dreyfus og Kathy Griffin. Sögusagnir voru uppi um að hann hefði átt í ástarsambandi við Umu Thurman en hann hefur viðurkennt að hún sé andagiftin hans en að eðli sambands þeirra sé eingöngu platónskt.

Næsta mynd höfðingjans ber heitið The Hateful Eight og lítur dagsins ljós í vetur á þessu ári.

Related Posts