Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir hefur heillað landann í nokkur ár með sönghæfileikum sínum. Hún er stórgóður tónlistarmaður, útvarpskona og fyrst og fremst frábær móðir. Þórunn Antonía svarar spurningum vikunnar.

MÉR FINNST GAMAN AÐ … hlæja, lesa, skrifa, syngja, semja, teikna, vera ein og vera umkringd fólkinu mínu og læra nýja hluti um sjálfa mig, lífið og listir.

 

SÍÐASTA KVÖLDMÁLTÍÐIN? Má ég panta af Gló? Eða einhvern alvörumexíkóskan mat með ferskum chili-pipar og cilantro og guacamole, svo vil ég fá heila könnu af margarítu fyrst við erum að enda þetta partí.

 

BRENND EÐA GRAFIN? Brennd að víkingasið í ljósaskiptum þar sem báturinn brennur og hverfur inn í sjóndeildarhringinn.

 

HVAÐ FÆRÐU ÞÉR Á PYLSUNA? Ég borða ekki pulsur! Frændi minn fékk einu sinni plástur í pulsunni sinni og ég fékk andlegt ofnæmi fyrir pulsum eftir það. Svo eru þær líka svo saltar, saltað kjöt er ekki gott fyrir neinn.

 

FACEBOOK EÐA TWITTER? Facebook/Instagram svalar mínum samfélagsmiðlaþorsta.

 

HVAR LÆTURÐU KLIPPA ÞIG? Nú, auðvitað hjá henni Steinunni Ósk á Senter.

 

HVAÐ GERIRÐU MILLI 5 OG 7 Á DAGINN? Ýmislegt, vinur minn, ég geri stundum tónlist eða fer í sund, panta mat á veitingahúsi eða plata einhvern annan til að elda og á gæðastundir með litlu snúllunni minni sem er tveggja ára og sólin í alheimi mínum.

 

HVAÐ ERTU MEÐ Í VINSTRI VASANUM? Lærið á mér undir smávegis af efni.

 

BJÓR EÐA HVÍTVÍN? Bjór. Hvítvín er ekki gott á bragðið og fólk verður snarruglað af því að drekka það, sérstaklega konur. Það er eitthvað við sýrustigið í hvítvíninu sem fer oft illa í konur og miðast við hvar í tíðahringnum þær eru. Ég held mig frá þeim óþverra.

 

UPPÁHALDSÚTVARPSMAÐUR? Ósk Gunnars og Sigrún Sig úr Þrjár í fötu.

 

HVER STJÓRNAR SJÓNVARPSFJARSTÝRINGUNNI Á HEIMILINU? Barnið mitt felur hana þannig að hún er fjarstýringastjórinn sem er með hana í krónískum feluleik.

 

HVERNIG VAR FYRSTI KOSSINN? Slímugur, það var á diskóteki í Tónabæ eftir vangadans. Hann bað mig um koss og kom svo „full force“ með tunguna inn og bað mig um að byrja með sér … Ég mumblaði já og átti að hitta hann daginn eftir klukkan 4 fyrir utan Tónabæ. Ég brákaði á mér hnéskelina við að opna hurð á hana og komst aldrei. Það kvöld fékk ég símtal frá móðir drengsins sem sagði mér að hann hefði komið heim grátandi og hún sagði mér upp fyrir hann í símann. Þungu fargi var af mér létt.

 

HVAÐA LEYNDA HÆFILEIKA HEFUR ÞÚ? Ég er mjög berdreymin.

SKEMMTILEG: Þórunn Antonía svarar spurningum vikunnar. Mynd/Jin-woo Prensena

SKEMMTILEG: Þórunn Antonía svarar spurningum vikunnar. Mynd/Jin-woo Prensena

Í HVERJU FINNST ÞÉR BEST AÐ SOFA? Ég sef í nærbuxum og bol nema í heitu landi.

 

HVER VÆRI TITILL ÆVISÖGU ÞINNAR? Ég greiddi mér með gaffli væri fyrsta bindi, annað væri Úr öskunni í feldinn, þriðja Frá böggi til grafar.

 

HVER ER DRAUMABÍLLINN? Mig vantar einmitt bíl akkúrat núna því ég er að læra að keyra hjá indælis ökukennara sem heitir Grímur, ég mæli með honum. Þannig að draumabíllinn væri helst bara ókeypis og það myndi ekki skemma að hann væri gylltur eða Volvo, ég er mjög hrifin af svona Volvoum sem halda að þeir séu kadilakkar. Svona 70´s lúkk.

 

FYRSTA STARFIÐ? Fyrir utan að selja vínylplöturnar hans pabba, passaði ég þríbura þegar ég var 11 ára. Þau voru yndisleg og heita Díana, Dagný og Geir Grétar. Ég myndi ekki þekkja þau í sjón í dag en mamma þeirra hefur ekkert breyst.

 

FLOTTASTA KIRKJA Á ÍSLANDI ER … Hólakirkja er mjög falleg, annars held ég að ég hljóti að hafa verið norn eða heiðingi í fyrra lífi því að ég á það til að verða pínu sár að hér séu kirkjur frekar en einhver mögnuð útskorin líkneski af norrænu guðunum. Ég finn þessa tilfinningu sérstaklega sterkt þegar ég fer í okkar elstu kirkjur og þá blossar upp smá reiði að hér hafi bara komið einhverjir ribbaldar og siðað okkur til. Ætli það sé ekki uppreisnarseggurinn í mér. Svo heiti ég líka Þórunn, sú sem ann guðinum Þór, móðir mín heitir Sjöfn og dóttir mín Freyja…

 

LANDSPÍTALI VIÐ HRINGBRAUT? Hann þarfnast endurbóta og það strax, Ég er team Kári Stefánsson og vil að við krefjumst þess að heilbrigðiskerfi okkar verði endurreist, en á þessum spítala á ég einnig fallegustu augnablik lífs míns þar sem ég fékk að líta dóttir mína augum í fyrsta skiptið.

 

FALLEGASTI STAÐUR Á LANDINU? Hvar sem sjórinn mætir landi, ég elska að vera nálægt sjónum. Svo finnst mér Siglufjörður einstaklega fallegur staður enda er móðir mín þaðan.

 

HVAÐA RÉTT ERTU BEST Í AÐ ELDA? Ég baka vandræðalega mikið af vöfflum. Elda hafragraut á morgnana sem verða að vöfflum seinnipartinn, vöfflur eru sárlega vanmetinn fæðuflokkur. Dúndrandi hollar ef maður gerir þær rétt með nóg að hollum fitum eins og kókosolíu og hörfræjarolíu og glútenlausu hveiti.

 

HVAÐA OFURKRAFT VÆRIR ÞÚ TIL Í AÐ VERA MEÐ? Að láta alla sem eru siðblindir fá samkennd, þá væru engin stríð, þá væru engin morð eða glæpir gegn börnum. Ef ég gæti myndi ég vilja hugga allan heiminn. Hann þarf á því að halda. Við mannfólkið erum eining ekki hópar sem troðið er í kassa og dæmt af uppruna eða útliti. Ein ást.

 

GIST Í FANGAKLEFA? Já, já, ég stóð mig vel sem vandræðaunglingur þegar ég var yngri og gerði mitt besta til að skapa sem mestan usla.

 

STURTA EÐA BAÐ? Helst bara bæði, ég elska að vera í vatni og helst fara í bað á hverjum degi, sérstaklega á veturna.

 

HVAÐA SÖGU SEGJA FORELDRAR ÞÍNIR ENDURTEKIÐ AF ÞÉR? Pabbi minn segir mjög oft söguna af mér þegar ég fékk að velja mér hvað sem er í búðinni í afmælis- eða jólagjöf. Ég var um það bil þriggja ára … ég gekk um búðina alla og ég tek það fram að þetta var stór verslun með leikfangadeild en ég vildi stóran pakka af dúnmjúkum bleikum klósettpappír. Fannst hann svo fallegur á litinn.

 

HVAÐA BÓK EÐA KVIKMYND FÉKK ÞIG SÍÐAST TIL AÐ TÁRAST? Ég tárast daglega yfir fréttum af ástandinu í Aleppo á Sýrlandi og fyllist vanmætti að geta ekki gert eitthvað. Ég tárast ekki mikið yfir bíómyndum því ég horfi mest á mafíósa-, raðmorðingja- eða fjöldamorðingjamyndir. En ég grét yfir My girl þegar ég var lítil, ég man það.

 

ERTU MEÐ EINHVERJA FÓBÍU? Já, ég er hrædd við fugla. Því smærri og örari, því meira fríka þeir mig út. En ég er hrifin af örnum, fálkum og hröfnum.

 

HVER ER BESTA ÁKVÖRÐUN SEM ÞÚ HEFUR TEKIÐ? Að ákveða að vera eins góð mamma og hugsast getur, þá er ég ekki að tala um einhverja fullkomna steríótýpu, heldur elska þessa litlu stúlku sem ég á af öllu hjarta og þakka fyrir á hverjum degi að ég fái að vera mamma hennar.

 

FURÐULEGASTI MATUR SEM ÞÚ HEFUR BORÐAÐ? Ég borðaði einu sinni pínulítið finkuegg af því að ég hélt að það væri súkkulaðiegg. Ég heyri skelina enn þá brotna undan tönnunum í mér. Þetta var mjög vandræðalegt en ég var í páskaheimsókn hjá foreldrum vina minna í Bretlandi. Þau voru með fuglabúr úti í garði og finkan þeirra hafi ekki komið með egg í óratíma en ég fékk eggið því ég var gestur. Það voru páskar og því setti pabbi vinar míns eggið í litla skál og færði mér til þess að skoða það … en nei, nei, ég bara stakk því upp í mig og þurfti að spýta því út úr mér fyrir framan alla fjölskylduna. Þau tala enn þá um þetta og hlæja.

 

NEYÐARLEGASTA ATVIK SEM ÞÚ HEFUR LENT Í? Fyrir utan þetta sem ég var að segja frá, er það ábyggilega atvikið þegar ég var skilin eftir á síðum stuttermabol og stígvélum af hljómsveitarrútu á bensínstöð eftir að hafa spilað á Reading Festival. Ég nennti ekki að klæða mig í buxur því ég var farin að sofa og hoppaði bara út úr rútunni, eldsnöggt að kaupa eitthvað inni. Þegar ég kom svo út var rútan farin og enginn svaraði í símann. Það var líka rigning og ég settist á blautan bekk þannig að það leit út eins og ég hefði pissað á mig. Þeir sóttu mig að lokum og við fórum á Leeds Festival. Þá höfðu allar hljómsveitirnar sem voru að spila frétt af þessu og Jack White fannst þetta afskaplega fyndið. Mér fannst þetta líka mjög fyndið og finnst enn … fyrir utan að ég fékk lungnabólgu.

 

KLUKKAN HVAÐ FERÐU Á FÆTUR? Um átta til að koma dóttur minni af stað í skólann en ég hef svo gaman að henni að við endum oft að dúlla okkur eitthvað og svo kem ég með hana seint. Stundum vakna ég seinna, stundum fyrr.

 

ICELANDAIR EÐA WOW? Ég flýg alltaf með Wow þessa dagana en einnig finnst mér fyrirtaks þjónusta hjá Icelandair.

 

LEIGIRÐU EÐA ÁTTU? Ég á yndislega íbúð í Vesturbænum.

 

HVAÐA BÓK ER Á NÁTTBORÐINU? Engin, því ég er svo nýflutt inn að ég var bara að smella þessu náttborði saman. Helst væri ég til í einhverja spennusögu eða fallega ljóðabók. Ég elska ljóð og sögur.

 

DAGBLAÐ EÐA NET Á MORGNANA? Net, ég er ekki ein af þeim sem finnst bleksverta heillandi á þunnum pappír.

 

HVER ER FYRSTA ENDURMINNING ÞÍN? Ég á svo margar fallegar, af mömmu og pabba og ömmu og afa Ég man sérstaklega eftir að kúra uppi í rúmi með mömmu og Badda bróður, hann er bara 14 mánuðum eldri en ég og við erum og vorum mjög náin öll saman. Ég man eftir köldum morgnum þar sem mamma var að fara í Fósturskólann og koma okkur tveimur í bílinn og hún gerði alltaf allt að ævintýri.

 

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts