Hrasaði á sviði í Las Vegas og skaddaðist á ökkla:

Poppstjarnan Britney Spears hefur aflýst tveimur af tónleikum sínum í Las Vegas um helgina eftir að hún hrasaði á sviðinu þar í fyrrakvöld og slasaðist á ökkla.

Á myndbandi sem birt hefur verið á vefsíðunni TMZ má sjá þegar Britney hrasar og biður áhorfendur afsökunar á því. Hún hélt síðan tónleikunum áfram en haltraði um sviðið.

Í tilkynningu frá talsmanni hennar í gærdag segir að poppstjarnan hafi slasast á ökkla við fallið og að hún hafi aflýst tveimur næstu tónleikum um helgina að læknisráði. Sjálf segir Britney í twitterfærslu að hún hafi óttast meiðslin um stund en að hún sé í lagi og muni ná sér.

Britney er með samning við spilavítið Planet Hollywood Resort & Casino í Las Vegas um að koma þar fram 50 sinnum á þessu ári með tónleika/sýningu sína en þeir ganga undir nafninu Piece Of Me.

Related Posts