Hvað sagði öndin þegar henni var boðið út á pall?
„Að verönd eða ekki verönd.“

 

Þessi gerðist á Reykjavíkurflugvelli en flugi til Vestmannaeyja hafði verið aflýst á síðustu stundu og farþegarnir voru komnir út í vél. Það átti að endurgreiða miðana og myndaðist löng röð við gjaldkeraborðið þar sem ung og óreynd stúlka í sumarafleysingu var við störf. Maður sem var ekki nógu fljótur til lenti aftast í röðinni og var ekki sáttur og gekk upp að stúlkunni og sagði: „Mér bráðliggur á, geturðu ekki einfaldlega borgað mér hérna strax?“ Stúlkan svaraði: „Þú þarft að fara í röðina alveg eins og allir hinir.“ Maðurinn firrtist við og svaraði: „Heyrðu, vinan, veistu ekki hver ég er?“
„Nei,“ sagði unga stúlkan, „en bíddu aðeins.“ Hún tók míkrafón og kallaði upp: „Hérna er maður sem veit ekki hver hann er. Er einhver sem þekkir hann?“

 

Axel var að byrja á nýjum vinnustað sem var í eigu fjölskyldu sem vann öll saman. Eftir að hafa fengið leiðsögn um vinnustaðinn hjá Siggu framkvæmdastjóra þá var kominn kaffitími. Sigga ákvað að kynna Axel fyrir öllum starfsmönnunum. „Þetta er Fróðmar, bróðir Halldísar. Arnbjörn er pabbi hans. Svo er Kristgeir tengdasonur hans og svo er ég systir hans. Er þetta ekki alveg ljóst, Axel?“
„Jú, jú. En hver er Hans?“

 

Drukkinn maður hringdi í lögregluna til þess að tilkynna að þjófar hefðu brotist inn í bílinn hans. „Þeir hafa stolið mælaborðinu, stýrinu, bremsunni, kúplingunni og meira að segja bensíngjöfinni!“ hrópaði hann. Lögreglan var orðlaus og ákvað að senda strax mann á staðinn en áður en sá var kominn út úr dyrunum var hringt í annað sinn og sama röddin var í símanum: „Ég afturkalla beiðnina!“ sagði sá drukkni. „Ég settist óvart í aftursætið!“

 

Fangarnir voru að rífast og fangavörðurinn kom þar að.
„Nú vil ég fá ró í klefann. Ef þið hættið ekki að rífast hendi ég ykkur út.“

 

Friðrik lögregluþjónn átti að vera á næturvakt en var leystur snemma af hólmi og var kominn heim klukkan tvö um nóttina, fjórum tímum áður en vaktin átti að vera búin. Friðrik vildi ekki vekja konuna sína svo að hann afklæddist í myrkrinu, læddist inn í svefnherbergið og ætlaði að skríða upp í rúm þegar konan hans settist syfjuleg upp og sagði: „Friðrik, elskan, ertu til í að skjótast út í apótek og kaupa paratabs, ég er með svo svakalegan hausverk?“
„ Auðvitað, ástin mín,“ sagði Friðrik, staulaðist í gegnum herbergið, klæddi sig og hentist út í apótek.
Þegar þangað var komið leit apótekarinn hissa á hann og spurði: „Fyrirgefðu, en ert þú ekki lögga? Þú heitir Friðrik, er það ekki?“
„Jú,“ svaraði Friðrik.
„Af hverju í ósköpunum ertu klæddur í slökkviliðsbúning?“

„Ég þekki stelpu sem er tvíburi.“
„Er oft ruglast á þeim?“
„Nei, því bróðir hennar er með skegg.“

 

Ung og falleg kona var á leið heim úr verslunarferð í útlöndum. Hún spurði prestinn sem sat við hliðina á henni í vélinni hvort hann gæti mögulega gert sér greiða.
„Að sjálfsögðu, barnið mitt,“ sagði klerkurinn, „hvað get ég gert fyrir þig?“
„Sko, ég keypti rándýra hárþurrku í útlöndum og ég er hrædd um að ég verði stoppuð í tollinum,“ sagði konan. „Er nokkur leið að þú farir með hárblásarann í gegnum tollinn? Þú gætir til að mynda geymt hann undir hempunni.“
„Ég vil endilega aðstoða þig, vina mín, en ég mun hins vegar ekki ljúga fyrir þig,“ sagði presturinn.
Eftir að vélin var lent og þau komu að tollinum fór presturinn á undan. Tollvörðurinn stöðvaði prestinn og spurði hann hvort hann væri með eitthvað sem gera þyrfti grein fyrir.
„Ég er ekki með neitt slíkt frá mitti og upp úr,“ sagði presturinn.
„Hvað ertu með neðan beltis?“ spurði tollvörðurinn.
„Þar er ég með magnað tæki sem er hannað til að gagnast konum, en er enn sem komið er ónotað.“

 

Jói og Siggi voru bestu vinir, Jói var framherji og Siggi góður í marki. Alla ævi hafði fótboltinn bundið þá saman en þeir spiluðu með sömu liðum og svo fóru þeir saman á leiki þegar þeir urðu eldri. Dag nokkurn dó Jói og fór upp til himna.
Eina nótt heyrði Siggi rödd sem minnti hann á Jóa. Hann hélt að hann væri að dreyma en jú, þetta var Jói. „Hvernig er svo lífið á himnum, er fótbolti þar?“ spurði Siggi.
„Ég er með góðar og slæmar fréttir fyrir þig,“ svaraði Jói.
„Nú, hverjar eru góðu fréttirnar?“ spurði Siggi.
„Það er svo sannarlega fótbolti á himnum, við getum spilað allan sólarhringinn og þurfum ekkert að hafa áhyggjur af meiðslum og maður er eins og þegar maður var upp á sitt besta,“ sagði Jói.
„Frábært,“ sagði Siggi. „Hverjar geta þá verið slæmu fréttirnar?“
„Jú,“ sagði Jói. „Þú verður í markinu á morgun.“

Related Posts