Kvikmyndahús geta stundum verið ógurlega yfirþyrmandi fyrir ung börn ef vitlaust er valið. „Uppeldisbíómyndir“ geta verið mikilvægar og merkilegar fyrir hvaða krakka sem er, hvort sem það eru þessar rétt völdu eða þær sem óvart er dottið niður á. Fer þeim skiptum fjölgandi hjá mér með árunum þar sem ég set spurningarmerki við það hvers vegna í ósköpunum foreldrar kynna sér ekki oftar fyrir fram hvaða efni mun bomba sínum hávaða fyrir framan börnin í fjölmenna myrkrinu á margra hæða tjaldi.

Bæði lendi ég í því sjálfur og heyri hinar ótrúlegustu sögur af því að fólk hafi óvart skottast  með krakka, varla eldri en 6 ára, að sjá eitthvað sem vanalega vekur upp fastan undrunarsvip, allt frá myndum eins og The Wolf of Wall Street (grínlaust!), Noah, Bad Neighbors, og ýmislegt þar á milli, sennilega eina Die Hard-mynd eða tvær. Ég segi þetta því mín fyrsta upplifun var kannski allt annað en sú skynsamlegasta.

Árið var 1992, ég ekki nema fimm ára, og bróðir minn eldri hafði sannfært móður mína um að væri í lagi að draga mig á nýjustu Batman-myndina á þeim tíma, líklegast vegna þess að aragrúa af leikföngum voru auglýst með myndinni. Mútta hélt ábyggilega að ég hefði í besta falli þurft að harka af mér hávaðann og ofbeldið. Ómeðvituð var hún um að yfir heildartímann fengum við til dæmis að sjá senu þar sem foreldrar kasta barnsvöggu ofan í holræsi, auk misfallegra morðtilrauna og S&M undirtóna. Myndin innihélt melankólískan endi og illmenni sem frussaði blóði af og til. Sjokkið hefur minnkað lítið þegar ég horfi á sömu mynd í dag. Endursagnir auk nokkurra minningarbrota segja mér að ég hafi komið út í tárum eftir myndina. Múttan var ekki par sátt út í þann eldri með hvernig viðbrögð mín voru, en þegar hún spurði svo hvers vegna mér liði svona var svarið mitt þetta á milli ekkasoganna: „Hún … var alltof … stutt!“

Hvort sem þarna hafði verið að síast inn einhver trítlandi masókismi eða ég neitaði að viðurkenna réttu tilfinningasúpuna sem ég fann fyrir var allavega ljóst að myndin ruglaði eitthvað þarna í mér. En eitthvað var það í mér sem fílaði það og það hræðir mig. Þetta er samt ekki flókið. Notið útilokunaraðferðina! Hringið jafnvel í vin eða takið tvær-þrjár mínútur til þess að vafra um Netið til að kynna ykkur lágmarksupplýsingar um innihald. Bíóupplifun barna á að fela ákveðna töfra í sér, ekki spurningar sem valda geðshræringu og undirstöðu nýfuppgötvaðra óttatilfinninga. Sumt er betra geymt fyrir sófann þar sem hægt er að útskýra samhengið.

 

Tómas Valgeirsson

Related Posts