grRómantík er svo miklu meira en bara ástarfundur yfir spænskættaðri, ómengaðri íslenskri nautasteik, kertaljós og rauðvín. Rómantíkin fangar allar þær tilfinningar, vonir og vonbrigði sem gera manneskjuna að þeim brothætta gallagrip sem hún er. Þannig eru allir straumar og stefnur í bókmenntum og öðrum listum aðeins gárur á hinu rómantíska meginhafi.

Raunsæi, tölvur, tækni og kerfislæg hugsun eru hlandforaðið sem við verðum að geta horft upp úr með rómantískum augum ef við eigum að geta haldið einhverjum sönsum í þeim sturlaða heimi sem mannkynið hefur byggt sér. Í kjölfar iðnbyltingarinnar fjarlægðumst við uppruna okkar, rottuðum okkur saman í mengunarskýjum borganna, urðum firrt og leiðinleg. Það kom því að því að heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau gargaði að við yrðum að hverfa aftur til náttúrunnar.

Geggjunin í samfélaginu er hálfu verri í dag en þá enda er búið að smætta mannleg samskipti svo hressilega að nú erum við ekki lengur einangruð í borgarsamfélögum, úr sambandi við náttúruna, heldur er hver og einn einangraður í snjallsímanum sínum. Mannleg samskipti eru orðin að rafrænni blekkingu. Alger sýndarveruleiki.

Pör liggja nú saman uppi í rúmi hvort með sinn símann. Hanga á Facebook eða spila Candy Crush á meðan þau ættu að vera að láta vel hvort að öðru og stunda almennilegt kynlíf. Þetta er eins órómó og hugsast getur og þegar gerviþarfir taka við af grunnþörfum er ekki von á góðu. Fólk verður kaldlyndara og leiðinlegra eftir því sem það fjarlægist hvort annað inn í snjalltækin sín. Og ósköp verður þetta sjarmalaust.

Leyndarmál eru ofboðslega rómantísk og sjarmerandi en nú er ekki einu sinni lengur hægt að leita að lífsneista með smá framhjáhaldi. Allt slíkt brölt er planað og plottað í símunum og í stafræna heiminum eru engin leyndarmál örugg. Sem betur fer eru Þjóðverjar í það minnsta farnir að nota ritvélar aftur og pikka þannig niður helstu ríkisleyndarmál, setja þau síðan í möppur og skjalaskápa.

Það er ágætisbyrjun enda þarf ekki að fjölyrða um hvorir séu flottari og meiri töffarar njósnarar síðustu aldar eða tölvuhakkarar samtímans. James Bond þurfti að leggja sig í hættu með því að brjótast inn hjá óvinum sínum og stela upplýsingum. Í dag situr svar nútímans við Bond, sveitt og feitt við tölvu og rænir hernaðarleyndarmálum.

Bond eða Assagne? Við getum ekki verið á réttri leið. Hverfum aftur til náttúrunnar! Slökkvum á símunum og byrjum að snertast aftur.

 

Þórarinn Þórarinsson

Related Posts