Örvæntingarfullar tilraunir mínar til dömulegrar framkomu og hegðunar hafa tekið á sig ýmsar myndir í gegnum tíðina. Mér virðist vera það lífsins ómögulegt að vera skvísuleg skinka.

Þeir sem til þekkja vita að ég og hvítur fatnaður eigum ekki samleið, nema að ég vilji endilega opinbera matseðil dagsins á dirfhvítri skyrtunni. Ég hef lært að setja öryggið á oddinn og á því mjög mikið af svörtum fötum.

Þessi skortur á dömulegri hegðun hefur gert mig að félagslegu viðrini. Ég er mjög ólíkleg til að vera með hinum konunum að tala um varaliti og meik í veislum, ég er ýmist að vaska upp (já, ég geri það í veislum sem mér er boðið í) eða hangi innan um strákana og hlusta á hetjusögur þeirra.  Oftast er ég með hendur í vösum, eins og strákarnir, mér skilst að það sé hvorki smart né dömulegt.

Ég fer daglega í sund og reyni að baðinu loknu að punta mig eins og hinar skvísurnar. Þar sem ég er nánast blind þá gengur það frekar brösulega því að ég er með andlitið upp við spegilinn til að reyna að sjá muninn á vörum og augum.

Snyrtidótið mitt kemst fyrir í einni lítilli buddu, ég er nýbúin að læra hvað primer er og reyndi um daginn að setja á mig gerviaugnhár. Ég er enn að þurrka límið af augnlokinu og reyna að ná augnhárunum af enninu.

Lengi vel beið ég eftir því að barmur minn myndi fylla D-skálar en hef áttað mig á því að það mun seint gerast. Ég varð því himinlifandi þegar ég fann silíkonpúða sem hægt var að líma á tútturnar. Þetta gerði ég í fullkomnu bjartsýniskasti þegar ég brá mér nýverið á ball.

Ég tek dansgólfið alltaf með ólympísku keppnisskapi og engin undantekning var á í þetta skipti. Þegar á leið fann ég hvernig gervibarmurinn rann rólega niður eftir maganum og á endanum gufaði hann upp. Ég dansaði af mér brjóstin í bókstaflegri merkingu. Einhver var heppinn þetta kvöld, fékk gefins niðurtroðna silíkonpúða til að leika sér með. Hann þarf ekki að skila þeim aftur.

Ég er hins vegar þrjósk og ætla mér að ná því að verða svakaskvís fyrir kistulagningu og ef guð lætur gott á vita, þá fæ ég fjölmörg ár í viðbót til að æfa mig.

 

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

 

Related Posts