Ég brá mér nýverið til Lundúna og ákvað að gefa þeim bresku tækifæri til að heilla mig. Ég er líklegri til að fara til Þýskalands, þar er ég á heimavelli, að mér finnst, og því hef ég ekki gefið öðrum þjóðum jafnmikinn gaum.

 
Fram til þessa hefur Berlín verið BORGIN mín en London gerði góða tilraun til að velta henni úr fyrsta sætinu. Tókst þó ekki alveg en tilraunin var góð. Þar sem ég dvaldi meðal innfæddra fékk ég einstakt tækifæri til að sjá borgina með öðrum augum, ferðamannagleraugun voru skilin eftir á hótelinu og ég fór ekki á eitt einasta safn eða sté ég fæti inni í rauðan strætó. Þess í stað var mér ekið um úthverfi borgarinnar í bláum Mercedes með topplúguna niðri.

 
Ég fékk ekki einungis nýja sýn á London heldur sjálfa mig, ég sá mig eins og ég hef ekki séð mig áður, þökk sé þeim bresku. Þú ert svo hávaxin, sögðu þeir. Mér þótti þessi sýn þeirra á mig nokkuð bogin þar sem hérlendis telst ég í lægri kantinum, og gæti allt eins sótt um í stubbavinafélaginu. „Long and slim“, það er það sem var sagt. Þessi sýn þeirra bresku sté mér að sjálfsögðu til höfuðs, ég gekk hnarreist um stræti og torg, gífurlega hávaxin, að mér fannst.

 
Sjónarhorn skiptir máli og það er skemmtilegt hvernig eitthvað getur tekið á sig mörg form eftir því hvernig á það er litið. Staðreyndir breytast nefnilega í meðförum þess er frá segir. Góð saga er að líkindum alltaf sönn, það fer eftir sögumanninum og aðstæðum efnisins hversu „hávaxin“ sagan getur orðið.

 
Nú er ég alvarlega að velta því fyrir mér að skella mér næst til Amsterdam en þar mun ég að öllum líkindum vera talin, „short and round“. Ég get ekki hætt að hlæja að þeirra skynvillu Bretanna að ég sé hávaxin. En það lítur hver sínum augum gullið og eflaust best að halda því þannig.

 

Kona brá sér af bæ og skildi eftir stormviðri á landinu kalda. En stormurinn er hressandi og gefur lífinu lit eins og Séð og Heyrt gerir í viku hverri.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts