Meistaraverkið Goodfellas var frumsýnt fyrir 25 árum:

Það kann að hljóma ótrúlega en 25 ár eru liðin frá því glæpamyndin Goodfellas var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Myndin reif leikstjórann Martin Scorsese upp úr lægð eftir hina tormeltu Last Temptation of Christ og beindi honum aftur inn á glæpabrautina, þar sem hann er alltaf bestur.

Martin Scorsese skrifaði handritið að Goodfellas ásamt Nicholas Pileggi upp úr bók þess síðarnefnda, Wiseguy: Life in a Mafia Family. Í bókinni sagði Pileggi sanna sögu gangstersins Henry Hill sem sveik mafíufélaga sína til tveggja áratuga þegar hann gerðist vitni gegn þeim og batt þannig enda á langan feril Lucchese-glæpafjölskyldunnar.

Ray Liotta lék Hill í Goodfellas og hefur aldrei verið betri, hvorki fyrr né síðar. Scorsese tefldi einnig fram tveimur af sínum bestu samstarfsmönnum, Robert De Niro og Joe Pesci en saman mynduðu þessir þrír kjarna myndarinnar.

Morðóðir skúrkar
De Niro lék Jimmy Conway, elsta og reyndasta krimmann í hópnum, en Pesci lék síkóptann og ofbeldisfautann Tommy DeVito. Félagarnir mynduðu hóp um hið þekkta Lufthansa-rán en þegar kom að því að skipta ránsfengnum tóku þeir Tommy og Jimmy til óspilltra málanna og káluðu öllum samstarfsmönnum þeirra.

VONDIR MENN: Joe Pesci í óskarsverðlaunarullu sinni sem brjálæðingurinn Tommy og Ray Liotta í hlutverki svikarans Henry Hill.

VONDIR MENN: Joe Pesci í óskarsverðlaunarullu sinni sem brjálæðingurinn Tommy og Ray Liotta í hlutverki svikarans Henry Hill.

Hill réð ekki jafn vel við glæpalífið og félagar hans og sökk í ofneyslu kókaíns og endaði í slíku klúðri að Alríkislögreglan hafði nógu mikil sönnunargögn gegn honum til þess að þvinga hann til þess að bjarga eigin skinni með því að fletta ofan af félögum sínum. Það gekk eftir og Hill fór í felur í vitnaverndarprógrammi, með nýtt nafn og kennitölu. Hann lést af völdum hjartaáfalls í Los Angeles 2012.

Óskarsbömmer
Hvorki De Niro né Liotta fengu óskarstilnefningar fyrir frábæra frammistöðu í myndinni og af þeim sex tilnefningum sem hún fékk skiluðu aðeins ein verðlaun sér í hús. Jos Pesci fékk styttu fyrir ógleymanlega túlkun sína á Tommy, sem besti leikarinn í aukahlutverki.

Myndin var einnig tilnefnd sem besta myndin, Scorsese sem besti leikstjórinn, Pileggi og Scorsese voru tilnefndir fyrir handritið og Lorraine Bracco fékk tilnefningu sem besta leikkonan en hún lék eiginkonu Hills. Hún átti síðar eftir að gera stormandi lukku sem sálfræðingur Tonys Soprano í þáttunum The Sopranos. Þá var Goodfellas tilnefnd fyrir bestu klippingu en Óskar getur verið mistækur og þetta árið hirti Dances with Wolves eftir Kevin Costner sjö verðlaun í helstu flokkum.

Sígild
Nokkrir helstu leikarar myndarinnar Ray Liotta, Robert De Niro, Lorraine Bracco og Paul Sorvino komu saman fyrr í vor á sérstakri afmælissýningu myndarinnar. Scorsese komst ekki þar sem hann var upptekinn við tökur í Taívan og Pesci lét ekki sjá sig.

Afmæli myndarinnar hefur einnig verið fagnað með sérstakri viðhafnarútgáfu á mynddiskum þar sem Scorsese sjálfur hafði yfirumsjón með uppfærslu á mynd- og hljóðgæðum. Sannkallaður happafengur fyrir unnendur góðra spennumynda enda er Goodfellas en jafn fersk, ofsafengin og ruddaleg og hún var fyrir 25 árum.

Related Posts