Undirrituð stundar hestamennsku af ágætis kappi. Ég hef bókstaflega alist upp í stíu. Þegar ég var lítil þá áleit ég hestinn, þessa fjórfættu skepnu, vera minn besta vin. Sama hvað á bjátaði þá gat ég alltaf gengið út í gerði og klappað hestunum og mér leið samstundis betur. Ég hvíslaði í eyrun á þeim öllum mínum vandamálum og þeir voru bestu hlustendur í heimi, stóðu þarna og jöpluðu á dágróðri tuggu og hlustuðu. Já þessar skepnur eru yndislegar.

Síðan þegar leið á árin fór ég að einbeita mér að keppnum og þá fóru hlífar og sprey að vera áberandi og keppnisskapið tók völdin. Vináttan var þó aldrei fjarri. Ég upplifði grátleg töp sem og sigra með þessum loðnu vinum. Einn þáttur við hestamennskuna hefur mér þótt furðuskrýtinn og það er þegar hestamenn sitja til borðs og taka sér hrossakjöt til munns og éta það af bestu lyst. Ég hef verið í hestaferðum þar sem hefur verið boðið upp hrossakjöt á milli áfangastaða, mér finnst eitthvað rangt við það. Ég neitaði mín fyrstu ár að leggja mér vini mína til munns við mikla undrun eldra fólksins. Það átti ekki til eitt aukatekið orð, krakkinn borðaði ekki hrossakjöt.

Ég hélt þetta út þangað til ég komst á fullorðinsárin þá var ég litin hornauga fyrir það eitt að borða ekki Skjónu gömlu. Ég lét undan þrýstingi áður en langt um leið, en það eina sem ég fór fram á var það að mér yrði sagt að þetta væri nautakjöt. Þannig að ég fæ mér nautakjöt endrum og eins og finnst það herramannsmatur.

Mér var þó nóg boðið þegar yndislegur faðir minn bauð upp á bjúgu einn daginn. Ég borðaði bjúgun með bestu lyst og hrósaði föður mínum fyrir þessa einstöku matseld. Þegar ég var að kyngja síðasta munnbitanum sagði pabbi: „Já hann Blesi gamli var svo sannarlega einstakur reiðhestur.“ Ég spýtti út úr mér bitanum og það rann upp fyrir mér að ég hafði borðað gamla góða Blesa, reiðhestinn minn til fimmtán ára, upp til agna og gott betur en það. Ég uppskar hornauga að launum frá föður mínum og fussum svei-i yfir barnaskapnum.

Related Posts