Eitt furðulegasta ár sem að ég hef upplifað er senn að baki. Það er þó hvorki verra né betra en önnur en furðulegt var það og einkenndist af mörgum æsispennandi köflum sem buðu upp á mikla spennu, gleði og sorgir í senn, skemmtileg speglun á efnisvali í Séð og Heyrt.

 

Oftar en ekki finnst manni að það séu ekki nema fimm mínútur á milli jóla en í ár er það ekki svo hjá mér. Síðustu jól voru fyrir mörgum mannsöldrum síðan. Ég er ekki sú sem ég var þá, ævintýri síðustu missera hafa mótað og skerpt á ýmsu í tilverunni, bæði til góðs og ills.

 

Dvölin í stól ritstjóra hefur verið lærdómsrík og án efa einn besti skóli sem að ég hef verið í. Lífið í Séð og Heyrt-landinu getur verið ansi snúið en alltaf skemmtilegt. Það er brýnt að menn átti sig á því að við framleiðum afþreyingu – segjum álfasögur úr nútímanum. Okkar hlutverk er að skemmta og gleðja og það er alltaf markmiðið. Hins vegar er ekki hægt að gera öllum til geðs alltaf, þannig er það nú bara.

 

Í þessu síðasta tölublaði ársins er litið yfir farinn veg á síðasta ári en einnig er boðið upp á ögrandi og skemmtilegt efni sem vekur kátínu eða grátur sumra, misjafn er smekkur manna.

 

Það er svo merkilegt að allir virðast hafa skoðun á því hvernig blaðið eigi að vera og hvað skuli vera í því, en á sama tíma kannast færri við að lesa það en bíða engu að síður spenntir eftir nýjasta tölublaði.

 

Árið er senn á enda, lærdómsríkt og kaflaskipt. Jólin nálgast óðfluga með sínu glimmeri og glitri og renna þau vonandi átakalaust ofan í landsmenn.

 

Ritstjórn Séð og Heyrt brá undir sig betri fætinum og skálaði fyrir árinu og jólunum og söng uppáhaldsjólag ritstjórans þessa dagana – Bráðum koma blessuð jólin – þar sem kyrjað er um vanda þess að spá og hvað verður veit enginn en eitt er víst, eins og segir í kvæðinu góða, að alltaf verður ákaflega gaman þá.

 

Dveljum í gleðinni og hlátrinum líkt og Séð og Heyrt gerir alla daga alltaf.

Ásta H. Garðarsdóttir

Related Posts