The BFG er kvikmynd eftir Steven Spielberg, einn þekkasta leikstjóra allra tíma. Myndin er byggð á bók eftir rithöfundinn Roald Dahl og eru þau Ruby Barnhill og Óskarsverðlaunahafinn Mark Rylance, sem leikur Big Friendly Giant, í aðalhlutverkum.

Það fyrsta sem maður tekur eftir án efa útlit myndarinnar. Óhætt er að segja að Spielberg sé þarna að reyna fanga sömu töfra og hann gerði í E.T. og The Adventures of Tintin og líklega gefur The BFG góða vísbendingu um hvernig útlit Harry Potter myndanna væri hefði hann leikstýrt þeim. Spielberg nær, að mestu leyti, að gera allt í þessari veröld nógu trúanlegt til þess að fólk geti gleymt sér í þeirri litlu sögu sem sögðu er, sama hversu skrýtnir hlutir gerast. Allir leikarar standa sig með prýði og þó að Ruby Barnhill sé aðeins 12 ára gömul, og í sínu fyrsta kvikmyndahlutverki, stendur hún sig vel. Það getur verið erfitt fyrir svo unga leikara að leika á móti tölvugerðum hlutum sem ekki er að hægt að sjá í sjálfum tökunum en það tekst þó nokkuð vel í The BFG. Myndin er einstaklega björt og litrík og er greinilegt að mikið tillit hefur verið tekið til barna í hönnun risanna svo að þeir hræði ekki of mikið.

Vandamál myndarinnar er hins vegar saga hennar, eða réttara sagt skortur á sögu. Það gerast vissulega hlutir í myndinni en þeir virðast gerast af því bara. Í upphafi myndarinnar rænir Big Friendly Giant henni Sophie vegna þess að hún sá hann og gæti farið að blaðra um hann. Hann ætlar að ekki að borða hana eða drepa, heldur að banna henni að fara heim. Það er í góðu lagi en hann fer með hana í land risa. Í landi risa eru risar sem borða eingöngu mannfólk og finna lykt af mannfólki úr mikilli fjarlægð. Var planið hans að fela hana á heimili sínu, sem hinir risarnir koma reglulega inn á, til æviloka? Svona furðulegir hlutir koma upp aftur og aftur. Góða fólkið er gott, af því bara. Vonda fólkið er vont, af því bara. Ekki eru gefnar upp neinar ástæður fyrir neinu sem neinn gerir, sem gerir það að verkum að áhorfendum er sama um persónurnar í lok myndarinnar.

The BFG er falleg og sjarmafull kvikmynd sem því miður er of innihaldslaus til þess að ná sömu hæðum og fyrri verk Spielberg.

Einkunn: 6 af 10

BFG: Fín mynd en ekki neitt meira en það.

 

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts